Hoppa yfir valmynd
1. desember 2022 Forsætisráðuneytið

Sjálfbært Ísland tekur til starfa

Gestir á stofnfundi Sjálfbærniráðs í Safnahúsinu - mynd

Í dag var stofnfundur Sjálfbærniráðs í Safnahúsinu og á sama tíma var samstarfsvettvangnum Sjálfbæru Íslandi formlega hleypt af stokkunum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á stofnfundi Sjálfbærniráðs en þar lagði hún út frá þremur stoðum sjálfbærrar þróunar sem eru umhverfi, samfélag og efnahagur.

„Við viljum öll stefna að betri heimi og betra lífi. Það er ekki hægt að mæla árangur á því sviði eingöngu með efnahagslegum mælikvörðum heldur þurfum við líka að mæla áhrifin á umhverfið og samfélagið. Verkefni okkar er að stuðla að betri heilsu og menntun, auknu jafnrétti, minni mengun og fátækt svo eitthvað sé nefnt. Allt snýst þetta um að ná markmiðum okkar í umhverfismálum á sama tíma og við eflum velsæld almennings og sköpum meiri verðmæti.“

Hlutverk Sjálfbærs Íslands verður m.a. að hraða aðgerðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun eins og þau birtast í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar. Á vettvangi Sjálfbærs Íslands verður einnig mótuð stefna Íslands um sjálfbæra þróun og unnið að því að réttlát umskipti á öllum sviðum samfélagsins séu leiðarljós í allri stefnumótun og aðgerðum.

Forsætisráðherra er formaður Sjálfbærniráðs en í ráðinu eiga einnig sæti aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar auk fulltrúa sveitarfélaga, atvinnugreinasamtaka, launafólks, þingflokka á Alþingi og frjálsra félagasamtaka er rík áhersla er lögð á víðtækt samráð við þá aðila sem koma að málefnum sjálfbærni.

Í því skyni að samræma vinnu hins opinbera hefur verið skipaður stýrihópur með fulltrúum allra ráðuneyta auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá er einnig starfandi framkvæmdahópur sem er teymi sérfræðinga sem vinnur að þeim verkefnum sem Sjálfbæru Íslandi eru falin.

  • Sjálfbært Ísland tekur til starfa - mynd úr myndasafni númer 1
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. - mynd
  • Eggert Benedikt Guðmundsson, leiðtogi sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu. - mynd
  • Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna. - mynd
  • Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna. - mynd
  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og fulltrúi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í Sjálfbærniráði. - mynd
  • Arnar Þór Másson, stjórnarformaður Marel og fulltrúi Festu í Sjálfbærniráði. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta