Hoppa yfir valmynd
25. september 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 473/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 473/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090040

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. september 2018 kærði einstaklingur sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Ghana (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. september 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans aftur til meðferðar. Af greinargerð kæranda má jafnframt skilja að kæranda krefjist þess að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.                  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. janúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 23. ágúst 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 3. september 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. september 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 9. október 2018.

III.                Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að honum stafi ógn af tilteknum aðilum í heimaríki sínu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.                Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé ríkisborgari Ghana og fæddur í úthverfi borgarinnar Ayerabi í austurhluta ríkisins. Kærandi sé kristinnar trúar og tilheyri ættbálki sem nefnist Achem. Þá kemur fram í greinargerð að kærandi hafi sagt í viðtali hjá Útlendingastofnun að tilheyri hvorki minnihlutahópi né stjórnmálaflokki. Kærandi hafi orðið fyrir áreiti í desember 2016 þegar hann hafi verið að predika kristna trú ásamt vini sínum í heimaríki. Þeir hafi lagt áherslu á að samkynhneigð sé ekki samþykkt innan kristinnar trúar og því skyldi samfélagið hafna samkynhneigð. Kærandi sé mjög mótfallinn samkynhneigð en í þorpinu þaðan sem kærandi komi séu u.þ.b. 4000 manns búsettir og hafi viðhorf til samkynhneigðar breyst verulega undanfarin ár með þeim afleiðingum að margir í þorpinu hafi opinberað samkynhneigð sína. Í kjölfar framangreindrar predikunar hafi fjórir menn ráðist á kæranda og vin hans, beitt þá grófu ofbeldi og sagt þeim að hætta að predika gegn samkynhneigð ellegar myndu þeir hafa verra af. Þeir hafi orðið óttaslegnir og flúið frá predikunarstað sínum og leitað til lögreglu eftir aðstoð. Þar sem þeir hafi ekki borið kennsl á mennina hafi lögreglan ekki getað aðhafst í málunum. Kærandi og vinur hans hafi búið saman og hafi þeir ákveðið að halda sig heima við af ótta við árásarmennina. Stuttu eftir árásina, n.t.t. í janúar 2017, hafi vinur kæranda farið út og hafi kærandi orðið vitni af því út um glugga heimilis þeirra þegar sömu menn og höfðu ráðist á þá í kjölfar predikunarinnar hafi ráðist á vin hans og beitt hann ofbeldi. Kærandi hafi flúið út um glugga á bakhlið hússins en vinur hans hafi verið fluttur á sjúkrahús þar sem hann hafi látist af sárum sínum. Kærandi hafi flúið til Ashanti héraðs í kjölfarið en mennirnir hafi elt hann þangað og bæst hafi í hóp þeirra. Kærandi hafi óttast að mennirnir myndu myrða hann og hafi hann því ákveðið í samráði við móður sína að flýja Ghana. Móðir hans hafi komið honum í samband við smyglara sem hafi komið kæranda fyrir á öruggum stað á meðan hann hafi aflað gagna til þess að koma kæranda úr landi. Kærandi hafi afhent smyglaranum vegabréf sitt og hlýtt fyrirmælum hans. Þann 1. febrúar 2017 hafi kæranda verið útveguð vegabréfsáritun til Evrópu og hafi kærandi farið til Austurríkis. Kærandi hafi ekki vitað hvert förinni væri heitið og hafi smyglarinn gefið kæranda fyrirmæli um að dvelja á ákveðnum stað í Austurríki þar til hann kæmi til baka. Kærandi hafi dvalið þar í langan tíma þar til hann hafi áttað sig á því smyglarinn myndi ekki koma til baka og hafi hann þá farið og sótt um alþjóðlega vernd þann 9. mars 2017. Þegar kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hafi komið í ljós að hann væri með vegabréfsáritun til Íslands og hafi hann því verið sendur hingað til lands þann 18. janúar 2018.

Kærandi krefst þess m.a. að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð. Kærandi sé utan heimaríkis síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna trúarbragða og aðild hans að tilteknum þjóðfélagshópi. Þá vísar kærandi til lögskýringargagna við 37. og 38. gr. laga um útlendinga máli sínu til stuðnings. Kærandi hafi þurft að sæta ítrekuðum ofsóknum og líflátshótunum í heimaríki sem samræmist skilgreiningum 38. gr. laga um útlendinga um ofsóknir.

Þá krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem kveði m.a. á um að útlendingur sem ekki teljist flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr. sömu laga skuli teljast flóttamaður ef hann eigi m.a. á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis.

Þá krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi m.a. til þess að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 80/2016 sé kveðið á um að líta megi til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og séu þar til dæmis nefndar þær aðstæður þegar um viðvarandi mannréttindabrot séu að ræða í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Þá telur kærandi að í ljósi aðstæðna sinna myndi endursending hans til heimaríkis brjóta í bága við regluna um non-refoulement sem lögfest sé í 42. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar sem og greinargerð fyrri talsmanns hans. Kærandi heldur því m.a. fram að í fyrri greinargerð hafi verið farið rangt með búsetu hans í heimaríki. Þá telur kærandi að ítrekaðar rangfærslur hafi komið fram í endurriti viðtals hans hjá Útlendingastofnun, þ.m.t. hvort hann tilheyri minnihlutahópi í heimaríki en kærandi telji sig tilheyra minnihlutahópi vegna skoðana sinna varðandi samkynhneigð. Þá gerir kærandi athugasemdir við hina kærðu ákvörðun m.a. varðandi frásögn hans af atburðum þeim er orsökuðu flótta hans og mat Útlendingastofnunar á möguleikum hans á vernd í heimaríki. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar hans en hann telji að misskilnings hafi gætt þar sem túlkun hafi verið ábótavant. Íslensk stjórnvöld hafi þannig brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæðum útlendingalaga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 68. gr. stjórnarskrárinnar, 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og 7. gr. alþjóðasamnings um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi. Í ljósi framangreinds beri að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar og leggja fyrir stofnunina að taka mál hans til meðferðar á ný.

V.                  Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt til að sanna á sér deili og hafi því verið leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Var það mat stofnunarinnar að ekkert hefði komið fram við meðferð málsins sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og var því lagt til grundvallar að kærandi sé ganverskur ríkisborgari. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að taka undir mat Útlendingastofnunar og er því lagt til grundvallar að kærandi sé ganverskur ríkisborgari. Að öðru leyti er óljóst hver kærandi er.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Ghana m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         Ghana 2017 Human Rights Report (U.S. Department, 20. apríl 2018);

·         The World Factbook – Ghana (CIA, 18. október 2018);

·         Ghana 2017 International Religious Freedom Report (U.S. Department, 29. maí 2018);

·         Freedom in the World 2017 – Ghana (Freedom House, 23. maí 2017);

·         Ghana 2017/2017 (Amnesty international, 3. september 2018).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Ghana lýðræðisríki með tæplega 28 milljónir íbúa. Ghana var fyrsta nýlendan í Vestur-Afríku sem lýsti yfir sjálfstæði árið 1957 og sama ár gerðist Ghana aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti mannréttindasáttmála Afríku árið 1989 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990 og valfrjálsa viðbótarbókun um þátttöku barna í vopnuðum átökum, við þann samning árið 2014. Þá fullgilti ríkið jafnframt alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2000 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2007. Ghana fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2000 ásamt valfrjálsri viðbótarbókun við þann samning árið 2016. Af gögnum má ráða að Ghana sé almennt talið friðsælt ríki.

Samkvæmt skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar aðhyllast 71,2 % íbúa landsins kristna trú, 18,4 % mótmælendatrú, 13,1 % kaþólska trú, 17,6 % íslam, 17,4 % önnur trúarbrögð og 5,2 % trúleysi. Stjórnarskrá ríkisins bannar mismunun á grundvelli trúar og kveður á um rétt til trúfrelsis. Í stjórnarskránni er kveðið á um að takmarka megi þessi réttindi af tilgreindum ástæðum, m.a. í þágu varnarmála og almannaöryggis. Í skýrslu Freedom House fyrir árið 2017 kemur fram að stjórnvöld tryggi að meginstefnu til trúfrelsi en múslimskar fjölskyldur hafi þó kvartað vegna skyldubundinna kristinna bæna og messusókna í almenningsskólum sem þau telji takmarka trúfrelsi barna sinna. Þá sé tjáningarfrelsi tryggt í stjórnarskrá landsins og almennt virt.

Í skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar kemur fram að stjórnvöld hafi tekið skref í áttina að refsa embættismönnum sem gerist sekir um misbeitingu valds, bæði í öryggissveitum eða öðrum störfum fyrir ríkið. Þrátt fyrir það sé refsileysi embættismanna enn vandamál. Lögreglueftirlitið, sjálfstæð mannréttindanefnd auk deildar leyniþjónustunnar og faglegra staðla (e. Police Intelligence and Professional Standards Unit (PIPS)) rannsaki tilkynningar um misbeitingu valds af hálfu öryggissveita. PIPS rannsaki einnig mannréttindabrot og misbeitingu lögregluvalds. Þá kemur fram í skýrslu Freedom House að sjálfstæði dómstóla sé tryggt í stjórnarskrá og löggjöf ríkisins og hlutleysi dómstóla hafi aukist á undanförnum árum. Þó standi dómskerfið enn frammi fyrir áskorunum vegna spillingar og mútuþægni. Þá séu stjórnarskrárvarin réttindi sakborninga að mestu leyti tryggð en vitað sé til þess að lögreglan hafi tekið við mútum, handtekið einstaklinga handahófskennt og haldið fólki lengur í varðhaldi en löglegt sé. Þá beri stjórnvöldum ekki skylda til að útvega sakborningum lögfræðing og því þurfi margir sem hafi ekki efni á lögfræðiaðstoð að verja sig sjálfir. Í skýrslu frjálsu félagasamtakanna Amnesty International frá 2018 kemur fram að ríkið haldi úti endurgjaldslausri lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk en sökum skorts á fjármagni séu aðeins 23 lögfræðingar sem bjóði lögfræðiaðstoð á vegum verkefnisins í öllu ríkinu. Aðgengi að dómstólum sé þannig takmarkað, sérstaklega fyrir efnalítið fólk og minnihlutahópa. Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að kynferðis- og ástarsambönd karlmanna séu refsiverð í ríkinu og hinsegin einstaklingar eigi undir högg að sækja.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir ástæður flótta síns á því að hann hafi orðið fyrir ofbeldi í heimaríki af hálfu ótilgreindra manna vegna predikunar sinnar um að samkynhneigð væri andstæð kristinni trú. Kærandi hafi leitað til lögreglu sem hafi ekki getað aðstoðað hann þar sem hann hafi ekki borið kennsl á árásarmennina eða vitað hvar þeir ættu heima. Kærandi hafi falið sig ásamt vini sínum sem hafi predikað með honum en þegar vinur kæranda hafi yfirgefið íbúðina hafi hann orðið fyrir árás sem hafi síðar leitt til dauða hans. Kærandi hafi þá flúið heimabæ sinn en árásarmennirnir hafi elt hann þangað. Kærandi hafi því flúið land.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér bendir ekkert til þess að þeir sem mæli gegn samkynhneigð eigi á hættu að verða fyrir áreiti eða ofsóknum, enda séu kynferðis- og ástarsambönd milli tveggja karlmanna refsiverð í heimaríki kæranda. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir, gegn einstaklingum sem mæli gegn samkynhneigð, hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda fremur til þess að samkynhneigðir einstaklingar standi höllum fæti í heimaríki kæranda. Með tilliti til gagna málsins sem og þess að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni er það niðurstaða kærunefndar að framburður kæranda og lýsingar á ástæðum flótta verði ekki lögð til grundvallar í máli hans.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu ganverskra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Auk þess hefur kærandi ekki borið því fyrir sig að lögregla vilji ekki veita honum vernd heldur hafi hann greint frá því að lögreglan hafi ekki getað aðhafst á grundvelli þess að hann hafi ekki þekkt deili á árásarmönnunum. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Ghana geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Er það mat kærunefndar að kærandi hafi raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi er einstæður karlmaður sem greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar.

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar m.a. með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi geri athugasemd við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika hans og möguleikum á vernd í heimaríki. Þá hafi kærandi ýmsar aðfinnslur við upplýsingar í endurriti viðtals hans hjá stofnuninni en hann telji m.a. misskilnings hafa gætt vegna slakrar túlkaþjónustu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga.

Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar og aðgengilegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun varðandi umsókn kæranda um alþjóðlega vernd.

Kærandi naut aðstoðar talsmanns við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun. Viðtal kæranda hjá Útlendingastofnun fór fram með aðstoð túlks sem túlkaði á milli ensku og móðurmáls kæranda, twi. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann skilji ensku vel. Kærandi fékk tækifæri á að lesa yfir endurrit viðtals síns með aðstoð túlks og staðfesti með undirskrift sinni að túlkun túlks hafi verið í samræmi við það sem fram hafi komið í viðtalinu auk þess sem að hann fékk færi á að koma að athugasemdum og breytingum. Ekki verður því talið að misræmi í frásögn kæranda hafi verið afleiðing mistaka við túlkun.

Kærunefnd telur því að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 18. janúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta