Nýskipan ákæruvalds með nýju embætti héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara
Með nýsamþykktum lögum um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrota o.fl.) var skipan ákæruvalds breytt með stofnun nýs embættis héraðssaksóknara er taki til starfa 1. janúar 2016 og verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður frá sama tíma.
Embætti héraðssaksóknara mun fara með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, þ.e. ákærumeðferð sakamála og saksókn fyrir héraðsdómi, sbr. 23. gr., 146. gr. og 147. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. lög nr. 47/2015. Þá mun embætti héraðssaksóknara annast lögreglurannsóknir í skatta- og efnahagsbrotamálum, ásamt rannsóknum á brotum starfsmanna lögreglu og brotum gegn valdstjórninni. Héraðssaksóknari skal einnig annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og annast endurheimt ólögmæts ávinnings af hvers kyns refsiverðri háttsemi í tengslum við lögreglurannsóknir við embætti héraðssaksóknara og lögreglustjóraembætta. Um verkefni og starfsskyldur embættis héraðssaksóknara vísast nánar til laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. lög nr. 47/2015.
Innanríkisráðuneytið hefur auglýst laus til umsóknar embætti héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embætti héraðssaksóknara frá og með 1. september 2015 og skal hann vinna að undirbúningi að því að embætti héraðssaksóknara taki til starfa 1. janúar 2016. Gert er ráð fyrir því að skipað verði í embætti varahéraðssaksóknara frá og með 1. janúar 2016.
Peningaþvættisskrifstofa flyst til embættis sérstaks saksóknara
Í samræmi við ákvæði hinna nýsamþykktu laga hefur peningaþvættisskrifstofa Ríkislögreglustjóra flust til embættis sérstaks saksóknara með það fyrir augum að skrifstofan flytjist til frambúðar til embættis héraðssaksóknara frá áramótum er það embætti tekur til starfa. Frá 15. júlí 2015 og fram til 1. janúar 2016 er því móttaka tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá embætti sérstaks saksóknara.
Hér fer á eftir auglýsing um embættin:
Stöður héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara lausar til umsóknar
Samkvæmt lögum nr. 47/2015 um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrota o.fl.) mun embætti héraðssaksóknara taka til starfa þann 1. janúar 2016. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 47/2015 getur innanríkisráðherra skipað í embætti frá 15. júlí 2015.
Embætti héraðssaksóknara mun fara með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, þ.e. ákærumeðferð sakamála og saksókn fyrir héraðsdómi, sbr. 23. gr., 146. gr. og 147. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. lög nr. 47/2015. Þá mun embætti héraðssaksóknara annast lögreglurannsóknir í skatta- og efnahagsbrotamálum, ásamt rannsóknum á brotum starfsmanna lögreglu og brotum gegn valdstjórninni. Héraðssaksóknari er hliðsettur lögreglustjórum við meðferð ákæruvalds og rannsóknir. Héraðssaksóknari annast einnig móttöku tilkynninga á grundvelli laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og annast endurheimt ólögmæts ávinnings af hvers kyns refsiverðri háttsemi í tengslum við lögreglurannsóknir við embætti héraðssaksóknara og lögreglustjóraembætta. Um verkefni og starfsskyldur embættis héraðssaksóknara vísast nánar til laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. lög nr. 14/2015.
Auglýstar eru lausar til umsóknar stöður héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara.
Héraðssaksóknari er forstöðumaður embættisins og stýrir starfi þess. Hann ber ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa og skiptir hann verkum með varahéraðssaksóknara og saksóknurum og úthlutar þeim málum, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Varahéraðssaksóknari er héraðssaksóknara til aðstoðar, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Hæfisskilyrði
Héraðssaksóknari og varahéraðssaksóknari skulu uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Þá er æskilegt að umsækjendur hafi reynslu af stjórnun, ásamt því að hafa mjög gott vald á íslensku og ensku og þekkingu á einu Norðurlandamáli. Áhersla er enn fremur lögð á styrkleika í samvinnu og samskiptum, sem og frumkvæði og metnað til að ná árangri í starfi.
Í umsóknum skulu koma fram upplýsingar um, eftir því sem við á:
1) Menntun, 2) reynslu á sviði sakamálaréttarfars, saksókn mála og/eða annarri meðferð ákæruvalds, 3) stjórnunarreynslu, 4) reynslu af dómstörfum, 5) reynslu af stjórnsýslustörfum, 6) reynslu af lögmannstörfum, 7) reynslu af störfum á alþjóðavettvangi, 8) reynslu af öðrum störfum sem nýtast í embætti héraðssaksóknara, 9) meðmælendur og 10) önnur atriði sem varpað geta ljósi á faglega eiginleika og færni umsækjanda sem máli skipta fyrir störf héraðs- og varahéraðssaksóknara.
Konur jafnt sem karlar eru hvött til að sækja um embættin.
Innanríkisráðherra skipar í embætti héraðs- og varahéraðssaksóknara ótímabundið. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embætti héraðssaksóknara frá og með 1. september 2015 og í embætti varahéraðssaksóknara frá og með 1. janúar 2016. Um laun og starfskjör fer eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. lög um kjararáð nr. 47/2006.
Innanríkisráðherra hefur ákveðið að fela nefnd að fara yfir þær umsóknir sem berast og á nefndin að skila ráðherra rökstuddu áliti á hæfni umsækjenda. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir. Taka skal fram að ráðuneytið kann að óska eftir upplýsingum frá umsækjendum um fjárhag þeirra og hagsmunatengsl sem kunna að hafa áhrif á hæfi héraðs- og varahéraðssaksóknara.
Upplýsingar um embættin veitir Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í síma 545-9000. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist innanríkisráðuneytinu, Sölvhólsgötu 7, 101 Reykjavík eða á [email protected]. Umsóknarfrestur er til og með 4. ágúst 2015. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir.
Innanríkisráðuneyti,
16. júlí 2015.