Hoppa yfir valmynd
20. desember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar - minnisblað um helstu aðgerðir aðgerðateymis

Til: Stýrihóps um velferðarvakt
Frá: Sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar

Í kjölfar þeirra erfiðleika sem áttu sér stað í efnahagslífi landsins í október 2008 samþykkti velferðarráð Reykjavíkurborgar tillögu sviðsstjóra um sérstaka aðgerðaáætlun til að bregðast við aðstæðum. Sérstakt aðgerðateymi undir stjórn skrifstofustjóra á Velferðarsviði hefur verið starfandi síðan en í teyminu eru auk skrifstofustjóra tveir framkvæmdastjórar þjónustumiðstöðva. Teymið fundar vikulega og fylgist náið með stöðu mála á þjónustumiðstöðvum, barnavernd og í hverfum borgarinnar. Leitast er við að greina markvisst breytingar á þjónustuþörf viðskiptavina þjónustumiðstöðva. Aðgerðateymið miðlar upplýsingum reglulega til sviðsstjóra og annarra stjórnenda sviðsins, velferðarráðs og annarra kjörinna fulltrúa, borgarstjóra og til samráðshópsins um börnin í borginni.

Meðfylgjandi er yfirlit yfir helstu aðgerðir aðgerðateymis:

  • Þjónustumiðstöðvar hafa skoðað innra starf sitt, forgangsraðað og sett fram viðbragðsáætlanir til að tryggja skjóta afgreiðslu umsókna um fjárhagsaðstoð sem og aðgengi að sérfræðingum. Vegna vaxandi álags í þjónustuskálum þjónustumiðstöðva hefur verið ákveðið að þjálfa nokkra starfsmenn borgarinnar til afleysinga á álagstímum á þjónustumiðstöðvum.

    Markviss talning og upplýsingasöfnun fer fram reglulega á þjónustumiðstöðvum og hjá Barnavernd Reykjavíkur í þeim tilgangi að fylgjast með eftirspurn eftir þjónustu sviðsins og greina álag. Vikulega er safnað upplýsingum um fjölda þeirra sem koma á þjónustumiðstöðvar, biðtíma eftir fyrsta viðtali, fjölda erinda á vakt, virkra mála í málaskrá og fjölda tilvísana vegna barna í grunnskóla og leikskóla. Mánaðarlega er safnað upplýsum um fjölda símtala, fjölda umsókna um fjárhagsaðstoð til framfærslu, fjölda umsókna um fjárhagsaðstoð vegna barna, fjölda umsókna um fjárhagsaðstoð vegna sérstakra erfiðleika og fjölda barnaverndartilkynninga.
  • Horft er tímabundið framhjá ákveðnum skilyrðum í reglum um fjárhagsaðstoð m.t.t. aðstæðna í samfélaginu, s.s. er heimilað að líta framhjá því skilyrði að umsækjandi um fjárhagsaðstoð eigi ekki eignir utan íbúðarhúsnæðis og bifreiðar þar sem erfitt er að selja eignir í dag og ekki er gert að skilyrði að umsækjendur um fjárhagsaðstoð framvísi minnisblaði atvinnuleitanda þar sem aðstæður hjá Vinnumiðlun eru þess eðlis að ekki er hægt að anna því að taka alla sem þangað leita í viðtöl.
  • Þjónustumiðstöðvar hafa verið í samráði við lykilaðila í hverfum. Stofnun samráðsteyma í hverfum var samþykkt í velferðarráði 2. feb. sl. Markmiðið er að búa til farveg til að virkja stofnanir og félagasamtök í hverfum til að fylgjast með ástandinu í hverfum borgarinnar og leita lausna íbúum til hagsbóta, m.a. vinna gegn félagslegri einangrun og vanlíðan.
  • Samráð er við Vinnumálastofnun höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að auka flæði upplýsinga og hafa yfirsýn yfir aðstæður hverju sinni. Reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir verður kynnt fyrir starfsfólki Velferðarsviðs/þjónustumiðstöðva 20. og 27. febrúar.
  • Reykjavíkurborg setti í haust aukið fjármagn í sex mánuði til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna ráðningar fjármálaráðgjafa.
  • Samstarf er við forsvarsmenn Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Fjölskylduhjálp Íslands og upplýsinga safnað reglubundið um stöðu mála.
  • Upplýsingar um þjónustu og tilboð fyrir einstaklinga og fjölskyldur á vegum stofnana og félagasamtaka voru teknar saman og dreift mjög víða, samantektina má sjá á vef Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
  • Haldnir hafa verið fræðslufundir í hverfum borgarinnar um lífsgæði og sjálfsstyrkingu og uppeldi barna og samskipti. Fundirnir voru haldnir í þremur hverfum í desember og í þremur hverfum í janúar-febrúar.
  • Upplýsingagátt er á vef Velferðarsviðs, þar sem er að finna upplýsingar um aðgerðaáætlun Velferðarsviðs og upplýsingar fyrir fólk í vanda.
  • Velferðarsvið er bakhjarl verkefnisins www.sjalfbodalidi.is sem er samstarfsverkefnið Geðhjálpar, Alþjóðahúss og Rauða Kross Íslands.
  • Upplýsingum um framboð námskeiða á vegum þjónustumiðstöðva hefur verið safnað saman, framboð verður endurskoðað m.t.t. áherslna s.s. á fjármál, uppeldi og sjálfsstyrkingu og skoðað er hvernig hægt er að samnýta námskeið í meira mæli en áður.
  • Sérstakt teymi fyrir starfsmenn er starfandi á Velferðarsviði sem hefur það hlutverk að vakta áhrif fjárhagsástandsins á líðan og vinnuálag starfsmanna og stuðla að aðgerðum til að efla starfsanda og velferð starfsmanna. Teymið er í nánu samstarfi við aðgerðateymi sviðsins.
  • Starfandi er starfshópurinn, Börnin í borginni, undir forystu Menntasviðs Reykjavíkurborgar með fulltrúum Menntasviðs, Leikskólasviðs, Velferðarsviðs, ÍTR og Mannréttindaskrifstofu. Markmið hópsins er að fylgjast með líðan barna og starfsfólks í grunnskólum, leikskólum og frístundastarfi á vegum Reykjavíkurborgar. Einnig að safna tölulegum upplýsingum varðandi þjónustu í þeim tilgangi að fylgjast með breytingum á fjárhagsstöðu heimilanna.
  • Borgarráð skipaði starfshóp í nóv. s.l. til að fylgjast með þróun og meta áhrif atvinnuleysis í Reykjavík. Með hópnum starfa fulltrúar velferðarráðs og Velferðarsviðs og fulltrúar borgarhagfræðings. Hópurinn hefur skilað bráðabirgðaskýrslu sem er nú til umsagnar í velferðarráði og íþrótta- og tómstundaráði.

Reykjavík 24. febrúar 2009
Stella K. Víðisdóttir
sviðsstjóri Velferðarsviðs

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta