Einbreiðum brúm fer ört fækkandi
Einbreiðum eða einnar akreinar brúm á Hringveginum hefur fækkað jafnt og þétt síðustu árin. Sum árin hefur fækkað um eina en mest um 10 en það var árið 2003. Á næsta ári gerir vegáætlun ráð fyrir að 8 mjóar brýr verði teknar úr notkun.
Samkvæmt upplýsingum frá Rögnvaldi Gunnarssyni, forstöðumanni framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, voru alls 128 einbreiðar brýr á Hringveginum árið 1990. Áratug síðar voru þær komnar niður í 83 en á árunum 2000 til 2003 fækkaði þeim um fjórar til tíu á ári. Í fyrra var engin hreyfing og í ár fækkar um eina slíka.
Fjórar mjóar brýr leggjast af á næsta ári með framkvæmdum sem nú eru að hefjast í Norðurárdal í Skagafirði. Nýr 14 km kafli verður lagður um dalinn og er gert ráð fyrir að framkvæmdir fari langt á næsta ári. Alls kosta þær um 823 milljónir króna. Aðrar mjóar brýr sem hverfa eiga á næsta ári eru í Skriðdal, Hrútafirði og tvær í Hornafjarðarsveit.
Við margar einbreiðar brýr hefur verið komið fyrir aðvörunum og ljósum sem blikka þegar bílar nálgast. Auðveldar það ökumönnum að fylgjast með umferð á móti og dregur úr hættu á árekstrum. Auk þess sem einbreiðum brúm fækkar á hringveginum eru slíkar brýr lagðar af á stofnvegum og annars staðar í vegakerfinu. Í stað þeirra eru ýmist lögð röraræsi eða brýr í fullri tveggja akreina breidd.