Íslensk flugmál í brennidepli
Í setningarávarpi á flugþingi sem nú stendur í Reykjavík sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að fyrirsjáanlegar væru breytingar varðandi rekstur og skipan mála á Keflavíkurflugvelli í framhaldi af brottför varnarliðsins. Vísaði hann þar til samþykktar ríkisstjórnarinnar um að yfirstjórn málaflokka og stjórnsýsla þar myndi breytast til samræmis við það sem almennt tíðkaðist í landinu og unnið yrði að því.
Í ræðu sinni lagði Sturla Böðvarsson áherslu á að íslensk stjórnvöld héldu áfram að ná loftferðasamningum við ný og ný lönd til að styðja við útrás flugfélaga og efla ferðaþjónustuna með stærri markaðssvæðum. Einnig sagði hann rétt að halda áfram útrásarverkefnum sem Flugmálastjórn hefði sinnt til dæmis flugvallastjórnun í Kosovo og Kabúl.
Þorgeir Pálsson flugmálastjóri lýsti umfangi íslenskra flugrekenda og sagði flugrekstur margþættan og að honum fylgdi margs konar önnur starfsemi sem dafnaði með auknum umsvifum. Hann ræddi einnig alþjóðlegar kröfur og sagði Íslendinga geta uppfyllt alþjóðlegar kröfur um flugvernd og hafa gert það.
Í pallborðsumræðum fyrir hádegi kom meðal annars fram hjá Hafþóri Hafsteinssyni framkvæmdastjóra hjá Avion Group, að flugþing væru þarfur vettvangur fyrir umræðu en nauðsynlegt væri einnig að flugrekendur hefðu annan vettvang, eins og til dæmis Íslandsdeild Flight Safety Foundation. Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar, og Þórarinn Kjartansson, framkvæmdastjóri Bláfugls, sögðu brýnt að menntun flugmanna og annarra starfsstétta í flugi kæmist á fastara form. Taldi Geirþrúður æskilegt að slík menntun kæmist á háskólastig og Þórarinn fagnaði nýlegum kaupum Fjöltækniskólans á Flugskóla Íslands sem hann sagði að styrkja myndi flugnám.
Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, og Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta Icelandic, ræddu starfsemi fyrirtækjanna og kom fram í máli þeirra að starfsemin næði út um allan heim. Sögðu þeir samstarf hafa verið náið og gott við Flugmálastjórn vegna eftirlits og verkefna íslenskra flugfélaga út um heiminn og nauðsynlegt væri að geta brugðist hratt við þegar sækja þyrfti að nýja markaði með litlum fyrirvara.