Vel heppnað stefnumót við þriðja geirann
Rúmlega hundrað fulltrúar frjálsra félagasamtaka mættu á stefnumót sem heilbrigðisráðuneytið boðaði með fulltrúum þriðja geirans 24. mars 2010.
Stefnumótinu var ætlað að vera samráðsfundur og umræðuvettvangur, þar sem félagasamtök notenda og aðstandenda notenda heilbrigðisþjónustunnar voru beðin að senda ráðuneytinu erindi og spurningar, sem mynduðu svo grundvöll umræðna á fundinum. Fyrsta stefnumótið er liður í viðburðum á 40 ára afmæli heilbrigðisráðuneytisins, en áformað er að þau verði árviss viðburður.
Erindi bárust frá 35 félögum og voru af ýmsum toga. Starfsmenn ráðuneytisins greindu í þeim þrjú meginstef, sem gefa til kynna hvað brennur mest á þriðja geiranum. Meginstefin voru:
- Fræðsla um aðstæður sjúklinga eða sjúkdóminn sjálfan, aðgangur að sérfræðingum innan heilbrigðiskerfisins, auk annarra málefna sem snerta sérstaklega málefni hvers félags um sig.
- Fjármál félagasamtakanna voru ofarlega á baugi, enda hverju þeirra mikilvægt að tryggja rekstrargrundvöll sinn.
- Sú meðferð sem sjúklingum býðst var mikið rædd og tillögur að úrbótum í meðferðarúrræðum voru lagðar fyrir ráðuneytið.
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra fagnaði þeirri samræðu sem tekin var upp á stefnumótinu. Sagði hún í opnunarávarpi sínu að sameiginlegt átak heilbrigðisyfirvalda, heilbrigðisþjónustunnar, fagfólks og fulltrúa þriðja geirans skipti miklu máli eins og nú árar – og með því móti ætti að vera unnt að komast í gegnum yfirstandandi niðurskurðartímabil án þess að ganga svo nærri innviðum heilbrigðisþjónustunnar að hún beri skaða af til frambúðar.