Hoppa yfir valmynd
10. desember 2020 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [A ehf,] f.h. [B ehf.], dags. 20. júlí 2020, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2020, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C] og einnig ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. júlí 2020, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins[C].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2020, um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

Einnig krefst kærandi þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. júlí 2020, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 20. maí 2020, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 21. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Flateyri í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 4. júní 2020. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 1.120 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 675/2019, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2019/2020, sem skiptust á byggðarlögin Flateyri, 300 þorskígildistonn, Hnífsdal, 207 þorskígildistonn, Ísafjörð, 140 þorskígildistonn, Suðureyri, 192 þorskígildistonn og Þingeyri, 281 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi ráðuneytisins, dags. 30. desember 2019. Áður en úthlutun fór fram höfðu verið settar sérstakar reglur með auglýsingu (IV) nr. 463/2020, um staðfestingu reglna sveitarfélaga, um úthlutun byggðakvóta, þar sem sett voru mismunandi skilyrði fyrir úthlutu byggðakvóta Flateyrar, þ.e. annars vegar úthlutun tiltekins hluta byggðakvótans sem fluttist yfir á fiskveiðiárið 2019/2020 frá fyrra fiskveiðiári 2018/2019 samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 og hins vegar þess hluta byggðakvótans sem úthlutað var fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 samkvæmt II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [C] með umsókn til Fiskistofu, dags. 5. júní 2020.

Með bréfum, dags. 6. og 15. júlí 2020, tilkynnti Fiskistofa útgerðaraðilum á Flateyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til báta í byggðarlaginu. Umsókn kæranda um úthlutun samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 var hafnað með bréfi Fiskistofu, dags. 6. júlí 2020. Ákvörðun Fiskistofu um höfnun umsóknar kæranda samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 var byggð á því að samkvæmt c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 væri skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til skips að það hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2019. Skráður eigandi og útgerðaraðili ofangreinds skips hjá Fiskistofu hafi samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra verið með lögheimili á Ísafirði í Ísafjarðarbæ á þeim tíma og því komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til skipsins. Með ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. júlí 2020, var úthlutað til báts kæranda 34.207 þorskígildiskílóum af byggðakvóta samkvæmt II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 og var úthlutunin byggð á tilteknum útreikningum.

Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindum tilkynningum Fiskistofu.

  

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. júlí 2020, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [A ehf.] f.h. [V ehf.], til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2020, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C] samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020, og einnig ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. júlí 2020, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C] samkvæmt II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram m.a. að reglugerð nr. 676/2019 hafi verið sett þann 4. júlí 2019 en í bréfi Fiskistofu, dags. 6. júlí 2020, sé vísað til þess hvar kærandi hafi átt lögheimili 1. júlí 2019 eða þremur dögum áður en umræddar reglur voru settar. Kærandi eigi lögheimili á Flateyri og telji að vegna staðsetningar útgerðar sinnar þar undanfarin ár, þrátt fyrir mistök hans að skrá heimilisfang of seint þar, sé tilgangur byggðakvóta þess eðlis að hann hefði átt að falla undir c-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 enda sé kærandi einn af örfáum útgerðaraðilum sem hafi stundað útgerð á Flateyri um árabil. Óumdeilt sé að raunverulegt heimilisfang útgerðarinnar hafi ávallt verið á Flateyri enda sé útgerðin með húsnæði, tæki og bát þar þó til þæginda hafi póstur verið sendur á Ísafjörð á lögheimili eigandans. Í umræddri reglugerð sé vísað til þess að eitt skilyrða fyrir því að fá byggðakvóta sé að lögheimili eiganda verði að vera í viðkomandi byggðarlagi. Ekki sé skýrt í umræddri reglugerð hvað byggðarlag nákvæmlega sé en bæði Ísafjörður og Flateyri tilheyri Ísafjarðarbæ. Fjöldi manns fari á milli staða á hverjum degi og að mörgu leyti sé hægt að nota orðfærið byggðarlag um þessa staði. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 segi að heimilt sé að úthluta aflamarki til aðila sem uppfylli skilyrði a- og b- liða 1. mgr. 1. gr. ef þeir stundi einnig útgerð með skip í því byggðarlagi þar sem þeir hafi heimilisfang í. Kærandi stundi útgerð með skip í því byggðarlagi sem hann hafi heimilisfang í enda fari hann til og frá starfsstöðinni alla daga. Aðili geti vart verið verr staddur fyrir það eitt að stunda ekki útgerð á fleiri stöðum en á Flateyri. Kærandi telji sig hafa heimildir fyrir því að vilji bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hafi verið sá að hann fengi úthlutað úr þeim potti sem hann hafi verið útilokaður frá. Reglur samkvæmt auglýsingu (IV) nr. 463/2020 hafi ekki endurspeglað vilja bæjarfélagsins. Sveitarfélag geti vissulega verið byggðarlag. Sá óskýrleiki verði ekki skýrður kæranda í óhag. Gæta verði meðalhófs og jafnræðis hvað þetta varði. Að ofansögðu óski kærandi eftir að umrædd ákvörðun verði endurskoðuð. Kærandi hafi fengið úthlutað samkvæmt II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020. Kærandi telji að umræddir útreikningar hafi verið rangir þar sem þeir byggi á þeirri forsendu að einn aðilanna sem fékk úthlutun hafi landað afla á fiskveiðiárinu 2018/2019 en forsenda fyrir því að umræddar landanir hefðu átt að telja sé sú að aflinn hafi verið unninn á Flateyri. Sú vinnsla sem hafi átt að taka við umræddum afla sé eingöngu saltfiskvinnsla en sá afli sem hafi verið landað sé ýsa og koli sem sé ekki til söltunar. Kærandi telji því að úthlutun til báts hans hefði átt að vera hærri en sem nemi því sem komi fram  í bréfi Fiskistofu, dags. 15. júlí 2020.

Með tölvubréfi, dags. 10. ágúst 2020, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 26. ágúst 2020, segir um kröfu kæranda um úthlutun samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 að sérstök ákvæði gildi um úthlutun byggðakvóta á Flateyri sem hafi verið fluttur frá fiskveiðiárinu 2018/2019. Sveitarfélagið hafi ekki óskað eftir sérákvæðum varðandi c-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 fyrir byggðakvóta sem hafi verið fluttur frá fiskveiðiárinu 2018/2019 og sé því ekki undanþága til staðar sem heimili stofnuninni að samþykkja umrædda úthlutun þar sem skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 teljist ekki uppfyllt. Í 1. gr. reglugerðar nr. 675/2019, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2019/2020 sé að finna skilgreiningu á byggðarlögum en þar segi orðrétt: "Byggðarlög skv. 1. mgr. eru byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. janúar 2019." Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga sé að finna upplýsingar um hvaða byggðarlög falli undir sveitarfélagið Ísafjarðarbæ en það séu Ísafjörður, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Hnífsdalur. Í kæru sé vísað til þess að kærandi hafi heimildir fyrir því að vilji bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hafi verið sá að hann fengi úthlutað úr þeim potti sem hann hafi verið útilokaður frá og að reglur samkvæmt auglýsingu (IV) nr. 463/2020 hafi ekki endurspeglað vilja bæjarfélagsins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi kallað eftir tillögum sveitarfélaga um sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum. Tillögur fyrir Flateyri að sérreglum hafi borist ráðuneytinu 21. febrúar 2020 og verið birtar í auglýsingu (IV) nr. 463/2020 eftir ósk sveitarfélagsins. Ekki hafi verið gerðar breytingar í I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 varðandi ákvæði c-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019. Út frá ofangreindu telji stofnunin að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun um að hafna umsókn um byggðakvóta til báts kæranda samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020. Einnig sé í kærunni byggt á því að útreikningar vegna úthlutunar byggðakvóta samkvæmt II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 séu rangir þar sem þeir byggi á þeirri forsendu að einn útgerðaraðili hafi ekki unnið aflann á Flateyri. Í 4. gr. reglugerðar nr. 676/2019 sé fjallað um viðmiðanir um úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa. Þar segi m.a. að miða skuli við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafi þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Gerðar hafi verið sérstakar breytingar á 1. málsl. 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar af hálfu sveitarfélagsins, sbr. auglýsingu (IV) nr. 463/2020 en þar komi fram í II. tölul. að skipting þess aflamarks, sem nú komi í hlut byggðarlags skuli að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylli skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á. Skuli fyrst úthluta bátum með frístundaveiðileyfi, sbr. a-lið, 1 þorskígildistonni á bát, 40% af því sem eftir standi skuli skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira í þorskígildum talið en viðkomandi bátur hafi landað í þorskígildum talið á fiskveiðiárinu 2018/2019, afganginum skuli skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafi þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað hafi verið innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Bátar geti fengið úthlutun úr báðum pottum, þó skuli við hámarksúthlutun á bát miða við samtölu úthlutunar úr báðum pottum, samkvæmt I. og II. tölul. Kærandi telji að úthlutunin sé röng þar sem annar útgerðaraðili hafi ekki unnið aflann á Flateyri. Þar virðist sem kærandi sé að vísa til 6. gr. reglugerðar nr. 676/2019, þ.e. skilyrði fyrir afhendingu byggðakvóta. Þar sé átt við svokallað mótframlag. Skilyrði þess að afla teljist landað til vinnslu sé að honum sé haldið aðskildum frá öðum afla ásamt því að vera vigtaður og skráður við vigtun á hafnarvog og fari úthlutun aflamarks fram á grundvelli vigtarnótu sem skuli berast Fiskistofu. Út frá ofangreindum skýringum telji stofnunin að útreikningarnir sé réttir.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Bréf Fiskistofu, dags. 6. og 15. júlí 2020, 2) Auglýsing sem birtist á vef Fiskistofu, dags. 20. maí 2020. 3) Tölvubréf sveitarfélagsins Ísafjarðarbæjar varðandi byggðakvóta fiskveiðiárið 2019/2020, dags. 21. febrúar 2020.

Með tölvubréfi, dags. 31. ágúst 2020, sendi ráðuneytið lögmanni kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 26. ágúst 2020 og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina. Frestur til þess var veittur til og með 18. september 2020.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda vegna framangreinds bréfs.

 

 

Rökstuðningur

I.  Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 676/2019, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en þau eru:  a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2019. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla almenn skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 676/2019.

Með auglýsingu (IV) nr. 463/2020, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, voru sett sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2019/2020, sem eru svohljóðandi:

 

"Ákvæði reglugerðar nr. 676/2019 gilda um úthlutun Flateyrar með eftirfarandi viðauka/breytingum:

I)    Ákvæði reglugerðar nr. 676/2019 gilda um úthlutun byggðakvóta Flateyrar sem fluttist frá fiskveiðiárinu 2018/2019, með eftirfarandi viðauka/breytingum:

a)   Ákvæði 1. málsl. 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks byggðarlagsins sem varð eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan byggðarlagsins á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019, þó ekki meira í þorskígildum talið en viðkomandi bátur landaði í þorskígildum talið á fiskveiðiárinu 2018/2019. [...].

II)  Ákvæði reglugerðar nr. 676/2019 gilda um úthlutun byggðakvóta Flateyrar sem tilheyra fiskveiðiárinu 2019/2020, með eftirfarandi viðauka/breytingum: [...]

b)   Ákvæði c-liðar 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í sveitarfélaginu 1. júlí 2019. [...]

c)   Ákvæði 1. málsl. 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal fyrst úthluta bátum með frístundaleyfi sbr. a-lið, 1 þorskígildistonni á bát, 40% af því sem eftir stendur skal skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira í þorskígildum talið en viðkomandi bátur landaði í þorskígildum talið á fiskveiðiárinu 2018/2019, afganginum skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2018 til 31. ágúst 2019. Bátar geta fengið úthlutun úr báðum pottum, þó skal við hámarksúthlutun á bát miða við samtölu úthlutunar úr báðum pottum, I) og II). [...]."

 

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Flateyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 676/2019 og auglýsingu (IV) nr. 463/2020.

 

II.  [B ehf.], sem er útgerðaraðili bátsins [C] var með lögheimili á Ísafirði í Ísafjarðarbæ þann 1. júlí 2019 en samkvæmt því voru ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 676/2019 fyrir úthlutun af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ til bátsins [C] samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði fyrir að fallast á kröfur kæranda í máli þessu um að úthluta af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ til báts kæranda að því er varðar þann hluta byggðakvótans sem fluttist frá fiskveiðiárinu 2018/2019 og úthlutað var samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020.

 

III. Kærandi telur að bátur hans, [C] hafi átt að fá hærri úthlutun byggðakvóta samkvæmt II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 og byggir það á þeirri forsendu að tiltekinn bátur í eigu tiltekins annars aðila hafi fengið meiri úthlutun en hann hafi átt að fá samkvæmt ákvæðinu.

Ráðuneytinu hafa borist upplýsingar frá Fiskistofu um landanir umrædds báts sem gerður var út af tilteknu félagi á fiskveiðiárinu 2018/2019 til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020.

Ráðuneytið hefur farið yfir þau gögn sem bárust frá Fiskistofu og liggja fyrir í málinu en samkvæmt þeim verður ekki annað séð en að útreikningur úthlutunar byggðakvóta til bátsins og viðmiðanir um úthlutun aflamarks til báts kæranda sé í samræmi við reglugerð nr. 676/2019 og II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020. 

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður í stjórnsýslukæru geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls.   

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að úthluta af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C] samkvæmt I. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2020, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins [C] samkvæmt umræddu ákvæði.

Einnig er það niðurstaða ráðuneytisins með vísan til framanritaðs að úthlutun byggðakvóta til bátsins [C] samkvæmt II. tölul. auglýsingar (IV) nr. 463/2020 hafi verið réttur en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. júlí 2020, um úthlutun byggðakvóta til bátsins samkvæmt umræddu ákvæði.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2020, um að hafna umsókn kæranda, [B ehf.], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C].

Einnig staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. júlí 2020, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 til bátsins [C].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta