Moody's hækkar ríkissjóð í A-flokk
Lánshæfismatsfyrirtækið Moody‘s Investor Service tilkynnti fyrr í dag að ákveðið hefði verið að hækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um tvö þrep, úr Baa2 í A3, með stöðugum horfum. Svo mikil hækkun í einu lagi er sjaldgæf en Moody‘s segir að það endurspegli hraðan og víðtækan framgang í endurreisn Íslands eftir fall bankakerfisins haustið 2008.
Moody‘s tilkynnti í júní sl. að það hefði ákveðið að endurmeta Baa2 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands með hækkun í huga. Í tilkynningunni kom fram að stjórnvöld hefðu náð umtalsverðum árangri við að snúa efnahagslífinu, fjármálakerfinu og opinberum fjármálum á sjálfbæra braut. Þá kom fram að einn lykilþáttur til skoðunar við mat á hækkun lánshæfiseinkunnar væri hvort ný fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir hið opinbera, ásamt endur· bótum sem gerðar hafa verið á skattakerfinu, muni bæta sjálfbærni opinberra skulda til meðallangs tíma.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið á reglubundin samskipti við lánshæfisfyrirtækin, þ.á.m. Moody's, þar sem farið er yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum og lagt mat á þann árangur sem áunnist hefur og þau úrlausnarefni sem takast þarf á við. Í ljósi þeirra samskipta og með hliðsjón af þeim atriðum sem fram koma í tillkynningum Moody's telur ráðuneytið að árangur í ýmsum samverkandi viðfangsefnum hafi stuðlað að bættu lánshæfismati:
Styrkari staða opinberra fjármála
- Viðsnúningur er orðinn í rekstri ríkissjóðs: Tekist hefur að vinda ofan af stórfelldum hallarekstri í kjölfar bankahrunsins og snúa afkomunni í traustan afgang, sem í ár nemur nálægt 3% í frumjöfnuði og um 0,5% í heildarjöfnuði.
- Viðsnúningur er orðinn í skuldastöðu ríkissjóðs: Brúttóskuldir ríkissjóðs fóru í um 85% af VLF árið 2011 en þegar á þessu ári hefur tekist að lækka þá skuldastöðu niður í um 50%. Áætlað er að brúttóskuldastaðan muni lækka niður í 38% á einungis þremur árum fram til ársins 2019. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að náð verði settu skuldamarkmiði til langframa samkvæmt þeirri skuldareglu sem kveðið er á um í nýjum lögum um opinber fjármál, þ.e. að skuldir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að frádregnum peningalegum innistæðum verði undir 30% af VLF.
- Samkomulag við slitabú fallinna fjármálafyrirtækja á liðnu ári fól í sér að til ríkissjóðs féllu miklar fjármunaeignir sem samkvæmt lögum verða nýttar til að lækka beinar skuldir og lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs.
- Í upphafi þessa árs tóku gildi ný lög sem miða að því að efla stefnumörkun um opinber fjármál til lengri tíma litið og styrkja alla umgjörð um áætlanagerð í ríkisfjármálum. Á grundvelli þeirrar lagasetningar lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram í vor fyrstu þingsályktanirnar um fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára þar sem sett eru fram skýrt útfærð áform um hvernig skuldir verði lækkaðar og svigrúm nýtt til raunhæfrar uppbyggingar á helstu þjónustu- og stuðningskerfum ríkisins og til að byggja upp innviði í landinu. Eftir sem áður verði gætt aðhalds og forsjálni þannig að afgangur á heildarafkomu verði 1% af VLF næstu fimm árin. Báðar þingsályktanirnar voru samþykktar á Alþingi í ágúst sl.