Hoppa yfir valmynd
17. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 672/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 672/2020

Miðvikudaginn 17. mars 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. desember 2020, kærði A , til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. desember 2020 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar frá 1. janúar 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið heimilisuppbót frá árinu 1994 frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. desember 2020, var kærandi upplýstur um að hann uppfyllti ekki lengur skilyrði greiðslna heimilisuppbótar um að vera einn um heimilisrekstur þar sem samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi hann skráð sig í sambúð 24. nóvember 2020. Kæranda var veittur fjórtán daga frestur til andmæla. Í bréfinu kom fram að mynduð yrði krafa frá 1. desember 2020 ef engin gögn/andmæli bærust. Kærandi andmælti ekki ákvörðun stofnunarinnar fyrr en með kæru. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 22. janúar 2021, var honum annars vegar tilkynnt um stöðvun greiðslu heimilisuppbótar frá 1. desember 2020 og hins vegar um endurgreiðslukröfu að fjárhæð 40.757 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. desember 2020. Með bréfi, dags. 29. desember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. janúar 2021. Athugasemdir kæranda bárust 12. febrúar 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. febrúar 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski að ákvörðun Tryggingastofnunar um að fella niður heimilisuppbót og innheimta kröfu vegna desembermánaðar verði endurskoðuð.

Í kæru óskar kærandi eftir því að tekið verið tillit til þess að hans sé 100% öryrki eftir alvarlegt bílslys X. Kærandi fái eingöngu ellilífeyri frá Tryggingastofnun sem fari að mestu í að greiða húsaleigu.

Kærandi þurfi á umönnun að halda allan sólarhringinn við allar þarfir og heimilishald, honum sé nauðsynlegt að hafa alltaf manneskju til umönnunar og sér til aðstoðar. Á Íslandi sé þessi þjónusta ekki í boði nema mjög takmarkað. Þess sé krafist að veitt verði undanþágu frá reglu um einhleyping og heimilisuppbót.

Síðastliðin X ár hafi B verið aðstoðarmanneskja kæranda og hafi annast það verkefni eftir bestu getu. Samkvæmt læknisráði hafi kærandi mörg undanfarin ár dvalið á hlýrri slóðum yfir vetrartímann sér til heilsubótar. Vegna núverandi aðstæðna í heiminum hafi verið nauðsynlegt að fá dvalarleyfi fyrir B á Íslandi þar sem um heilsársdvöl á Íslandi sé nú að ræða. Útlendingastofnun hafi krafist þess að B myndi skrá sig í sambúð með kæranda til þess að fá dvalarleyfi.

Stuttu eftir að B hafi fengið dvalarleyfið hafi komið bréf frá Tryggingastofnun um niðurfellingu heimilisuppbótar. Það sjái hver manneskja að grundvöllur fyrir áframhaldandi lífi fyrir kæranda sé brostinn. Eftir að hafa borðað einungis hafragraut á hverjum degi um langt skeið séu nú ekki til peningar fyrir haframjöli, lyfjum, rafmagni og hita og fleiru.

Taka verði fram að kostnaður fyrir tvær manneskjur sé helmingi meiri en fyrir eina og þá hafi kærandi ekki getað greitt B laun fyrir hennar störf.

Í athugasemdum kæranda, dags. 8. febrúar 2021, ítrekar kærandi það sem áður hafi komið fram í kæru. Þá segi einnig að kærandi hafi eingöngu skráð sig í sambúð vegna kröfu Útlendingastofnunar. Vinátta og gagnkvæm virðing sé á milli kæranda og B og Tryggingastofnun hafi stokkið beint á gömul og úrelt lög um heimilisuppbót og hafi fellt niður uppbótina. Sótt hafi verið um umönnunarlaun til handa B hjá Tryggingastofnun og hafi þeirri umsókn verið synjað á sömu forsendum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun heimilisuppbótar og endurkrafa hennar frá 1. desember 2020.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 7. desember 2020, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. janúar 2021 þar sem samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hefði kærandi hafið sambúð þann 24. nóvember 2020. Í bréfinu hafi komið fram að ef engin andmæli bærust yrði krafa mynduð frá 1. desember 2020. Andmæli hafa einungis borist í formi þessarar kæru og því hafi kæranda verið sent bréf, dags. 22. janúar 2021, þar sem komi fram að greiðslur heimilisuppbótar hefðu verið stöðvaðar frá 1. desember 2020 miðað við núverandi hjúskaparstöðu og krafa hefði verið mynduð að fjárhæð 40.757 kr.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum. Í 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð segi að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur laganna. Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1200/2018.

Samkvæmt 45. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Í 2. mgr. 45. gr. komi fram að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega. Í 3. mgr. 45. gr. komi fram að leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi sé heimilt að fresta greiðslum tímabundið á meðan mál sé rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. laganna.

Í 49. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um réttarstöðu sambýlisfólks en þar segi að einstaklingar sem séu í óvígðri sambúð, sbr. 7. tölul. 2. gr., njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum.

Kærandi hafi fengið greidda heimilisuppbót frá 1. mars 1994. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé kærandi í sambúð frá og með 24. nóvember 2020.

Kærandi segi í kæru að hann hafi haft aðstoðarmanneskju til umönnunar síðastliðin X ár og til þess að sú kona gæti fengið dvalarleyfi á Íslandi hafi þau skráð sig í sambúð.

Í málinu liggi fyrir að kærandi sé skráður í sambúð samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá og hafi kærandi ekki neitað því. Samkvæmt skilgreiningu á orðinu einhleypur í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt sé á netinu og unnin hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sé um að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né hjónabandi.

Með vísan til ofangreinds og þess að einstaklingar í óvígðri sambúð njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt lögunum, telji Tryggingastofnun að þegar svo háttar til sem hér segi, þ.e. að um einstakling í sambúð sé að ræða, þá séu skilyrði heimilisuppbótar ekki uppfyllt þar sem kærandi sé ekki einhleypur. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslu heimilisuppbótar frá því að hann hóf sambúð.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda og endurkrafa hennar hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem ekki sé hægt að veita heimilisuppbót til einstaklinga sem séu skráðir í sambúð. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. desember 2020 um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar frá 1. desember 2020.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 45. gr. laganna sem er jafnframt í V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Einnig segir í 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót frá 1994 og samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá voru þann 24. nóvember 2020 skráðar upplýsingar um sambúð kæranda með gildistöku frá sama degi.

Eins og komið hefur fram þarf að uppfylla öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð til að eiga rétt á heimilisuppbót. Tryggingastofnun ríkisins stöðvaði greiðslu heimilisuppbótar á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki lengur skilyrði 8. gr. laganna um að vera einhleypur. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, merkir orðið einhleypur einstaklingur sem hvorki er í sambúð né í hjónabandi. Eins og fram hefur komið skráði kærandi sig í sambúð 24. nóvember 2020.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi teljist ekki einhleypur í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð og hafi hann þar með ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins til þess að hljóta greiðslur heimilisuppbótar frá 1. desember 2020, þ.e. fyrsta næsta mánaðar eftir að hann skráði sig í sambúð.

Í kæru vísar kærandi til þess að líta eigi til þess að hann hafi eingöngu skráð sig í sambúð svo að B sem hafi annast hann árum saman á Íslandi og erlendis, fengi dvalarleyfi á Íslandi. Vakin er athygli kæranda á því að það er skýrt skilyrði fyrir veitingu heimilisuppbótar að einstaklingur sé einhleypur, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Hin kærða ákvörðun verður því ekki felld úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja hann um ofgreiddar bætur frá 1. desember 2020, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja um ofgreiddar bætur frá 1. desember 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta