Hoppa yfir valmynd
29. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 29. október 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 11/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. maí 2008, var kæranda, A, tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, frá og með 28. apríl 2008. Ákvörðunin byggðist á því að kærandi hafi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð og því glatað bótarétti sínum í 40 daga, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi krafðist þess með kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, móttekinni 5. júlí 2008, að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og breytt á þann veg að hann fengi greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá 28. apríl 2008 að telja. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest en til vara að málinu verði vísað aftur til stofnunarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilin 23.–26. júlí 2007, 25. október–26. nóvember 2007, 27. nóvember 2007–14. janúar 2008, 31. janúar–16. apríl 2008 og frá 3. júní 2008.

Með bréfi dagsettu þann 16. apríl 2008 var kærandi boðaður á starfsleitarnámskeiðið „Breytingar–Tækifæri“ sem halda átti dagana 28. og 29. apríl 2008 á starfsstöð Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Í bréfinu kom fram að það geti valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar, þ.á m. hafni úrræðum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því væri mikilvægt að kærandi mætti á námskeiðið en ef til forfalla kæmi skyldi tilkynna þau með góðum fyrirvara til ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu. Tekið var fram í bréfinu að Vinnumálastofnun ákvarði um mál þeirra sem ekki hafi gilda fjarvist. Bréfið er undirritað af starfsmanni Vinnumálastofnunar og kæranda. Engar athugasemdir voru gerðar við efni bréfsins af hálfu kæranda.

Þann 8. maí 2008 barst Greiðslustofu bréf frá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þar sem tilkynnt var að kærandi hafi ekki mætt á umrætt námskeið sem haldið var dagana 28. og 29. apríl 2008. Í kjölfar þeirrar tilkynningar sendi Vinnumálastofnun kæranda bréf dagsett þann 9. maí 2008 þar sem honum var tilkynnt að hann mætti búast við að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans yrðu stöðvaðar í 40 daga þar sem hann hafi ekki mætt á námskeiðið þann 28. og 29. apríl. Kæranda var í bréfinu gefinn kostur á að gefa skýringar á fjarvistum sínum innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Engin andmæli eða skýringar komu fram af hálfu kæranda og þann 29. maí 2008 var tekin sú ákvörðun að réttur hans til atvinnuleysisbóta skyldi felldur niður í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru kemur fram að dagana 28. og 29. apríl 2008 hafi kærandi verið að aðstoða föður sinn við hús á X sem hann á. Kærandi kveðst í rökstuðningi sínum hafa leitað markvisst að viðeigandi störfum, hann hafi fyrir fjölskyldu að sjá og því hafi honum ekki veitt af að vinna með föður sínum á umræddu tímabili. Hann sé ekki með bílpróf og því hægara sagt en gert að skjótast á milli staða.

Afstaða Vinnumálastofnunar barst með bréfi mótteknu þann 6. ágúst 2008. Í bréfinu er vísað til þess að höfnun á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum geti valdið niðurfellingu bótaréttar skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumarkaðsaðgerðir eru meðal annars einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni, sbr. a-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Síðan segir: „Kærandi mætti ekki á námskeiðið “Breytingar-Tækifæri” á vegum Vinnumálastofnunar höfuðborgarsvæðisins 28. – 29. apríl sl. þrátt fyrir að hafa samþykkt að taka þátt í því. Því var um höfnun að ræða á vinnumarkaðsúrræðum. Þar sem engar skýringar bárust frá kæranda á ástæðum fjarveru sinnar frá námskeiðinu, þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á því skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 39/1993, var bótaréttur hans felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, frá 28. apríl s.l. eða þeim degi sem námskeiðið átti að byrja á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.“ Í bréfi Vinnumálastofnunar er vakin athygli á því að skýringar þær sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á uppsögn sinni séu síðar til komnar og hafi ekki verið kunnar þegar Vinnumálastofnun tók umsókn hans til afgreiðslu.

2.

Niðurstaða

Fyrsta málsgrein 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er svohljóðandi: „Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

Námskeiðið sem haldið var dagana 28. og 29. apríl 2008 var liður í vinnumarkaðsaðgerð og var kærandi boðaður á það með sannanlegum hætti. Kærandi boðaði ekki forföll áður en námskeiðið hófst né heldur skýrði hann fjarveru sína áður en Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun. Það er fyrst nú fyrir úrskurðarnefndinni sem hann færir skýringar fyrir forföllum sínum. Skýring kæranda verður að teljast ófullnægjandi, meðal annars vegna þess að honum stóð til boða að láta Vinnumálastofnun vita fyrirfram af forföllum sínum.

Kærandi telst í þessu máli hafa hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skulu viðurlögin við slíku vera niðurfelling bótagreiðslna í 40 daga. Hin kærða ákvörðun var því réttilega byggð á téðu ákvæði. Á hinn bóginn tekur það ákvæði fram að viðurlagaákvörðun skuli taka gildi frá þeim degi sem hún er tilkynnt aðila en í þessu máli lét Vinnumálastofnun ákvörðunina taka gildi frá þeim degi sem kærandi mætti ekki á námskeið eða frá 28. apríl 2008. Með hliðsjón af þessu á kærandi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá 28. apríl 2008 til 28. maí 2008. Hins vegar á hann ekki rétt á greiðslu bóta í 40 daga frá 29. maí 2008 að telja. Óhjákvæmilegt er því að breyta hinni kærðu ákvörðun í þessa veru.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. maí 2008 er felld úr gildi. Kærandi á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 28. apríl til 28. maí 2008. Réttur kæranda til atvinnuleysisbóta er felldur niður í 40 daga frá og með 29. maí 2008 að telja.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta