Fundur norrænna félags- og vinnumarkaðsráðherra: Græn umskipti og heilbrigður og aðgengilegur vinnumarkaður
Græn umskipti verða að eiga sér stað hratt og vel en koma verður í veg fyrir að þær breytingar sem felast í tækni, nýjum kynslóðum, nýjum viðhorfum og sjálfvirknivæðingu stuðli að auknum ójöfnuði. Þvert á móti eiga breytingarnar að leiða til aukinna tækifæra og möguleika á vinnumarkaði. Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar á fundi félags- og vinnumarkaðsráðherra Norðurlandanna sem fram fór í Osló í gær.
Á fundinum fóru fram tvær þemaumræður og fjallaði sú fyrri um drög að niðurstöðum umfangsmikillar rannsóknar á vegum OECD sem fólst í að meta og bera saman mótvægisaðgerðir norrænna stjórnvalda, atvinnuleysisbótakerfin og vinnumarkaðsaðgerðir á tímum Covid-19 og leggja mat á það hvernig löndunum tókst til. Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar í mars á næsta ári í Reykjavík.
Þá sagði ráðherra frá því að Ísland myndi bjóða ráðherrum vinnumála og forystufólki atvinnurekenda og launafólks á Norðurlöndunum í þríhliðasamtal um græn umskipti og vinnumarkað í formennskutíð Íslands í norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Stefnt er að því að viðburðurinn fari fram í Hörpu á fullveldisdag Íslands þann 1. desember 2023.
Í seinni þemaumræðunni var sjónum beint að því hvernig styrkja megi norræna vinnumarkaðsmódelið og hvernig nýta megi það til að takast á við þær breytingar sem eiga sér stað á vinnumarkaði um þessar mundir.
Ísland leggur áherslu á frið
Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári ber yfirskriftina „Norðurlönd – afl til friðar“ og fylgir markmiðum framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar til 2030 um græn, félagslega sjálfbær og samkeppnishæf Norðurlönd sem sett var í formennskutíð Íslands árið 2019. Sérstök áhersla verður lögð á frið sem undirstöðu mannréttinda, félagslegs réttlætis og umhverfis- og náttúruverndar.
„Það er ekki af tilviljun sem við setjum friðarboðskapinn á oddinn nú þegar innrásarstríð geisar í Úkraínu,“ sagði Guðmundur Ingi á fundinum í dag. „Við viljum draga fram mikilvægi friðar sem undirstöðu mannréttinda og velferðarsamfélagsins. Án friðar getum við heldur ekki tekist á við áríðandi áskoranir eins og loftslagsbreytingar eða tap á líffræðilegum fjölbreytileika.“
---
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands:
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023.
Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.