SÞ: Neyðaráætlun í þágu Pakistan
Sameinuðu þjóðirnar hafa kynnt neyðaráætlun í þágu Pakistan. Ætlunin er að verja 160 milljónum Bandaríkjadala til að hjálpa landinu að glíma við verstu flóð í marga áratugi. Markmiðið er að koma 5,2 milljónum nauðstaddra til hjálpar.
Samkvæmt frétt frá Upplýsingaskristofu Sameinuðu þjóðanna, UNRIC, er talið að alls hafi 33 milljónir manna orðið fyrir barðinu á flóðunum. Rúmlega eitt þúsund manns, að stórum hluta börn, hafa týnt lífi frá því miklar rigningar hófust um miðjan júní, að sögn Jens Lærke talsmanns Samræmingarskrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum (OCHA).
„Pakistan líður miklar þrautir,“ sagði António Guterres í ávarpi sem flutt var af myndbandi þegar neyðaráætlunin fyrir næstu sex mánuði var kynnt í Islamabad og Genf.
Talsmaður aðalframkvæmdastjórans tilkynnti síðdegis í gær að „vegna þess harmleiks sem milljónir manna glíma við“ muni Guterres halda til landsins á föstudag til að sýna pakistönsku þjóðinni samstöðu. Í myndbandsávarpinu sagði Guterres að „pakistanska þjóðin stæði frammi fyrir monsúnrigningum á sterum – látlausum hamförum vegna rigninga og flóða.“
Að sögn Lærke, talsmanns OCHA, hafa 500 þúsund hrökklast frá heimilum sínum vegna flóða og hafast við í búðum. Nærri ein milljón heimila hafa orðið fyrir skakkaföllum og 700 þúsund búfjár hefur drepist. Þá hafa miklar skemmdir orðið á innviðum. Nærri 3500 kílómetrar vega og 150 brýr hafa skemmst með þeim afleiðingum að íbúarnir eiga óhægt um vik að koma sér á öruggari staði. Þar að auki veldur þetta erfiðleikum við að koma neyðarástand til þurfandi fólks .