Hoppa yfir valmynd
10. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Velferðarráðuneytið hlýtur jafnlaunavottun

Fv. Kjartan J. Kárason, Þorsteinn Víglundsson, Anna Lilja Gunnarsdóttir og Óttarr Proppé  - myndVelferðarráðuneytið

Velferðarráðuneytið hefur hlotið vottun um að það starfræki launakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Ráðherrar velferðarráðuneytisins tóku í dag við skírteini þessu til staðfestingar frá Vottun hf. sem er faggiltur vottunaraðili.

Alþingi samþykkti 1. júní síðastliðinn breytingar á jafnréttislögum nr. 10/2008 sem skylda fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri til að innleiða jafnlaunakerfi sem uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins og fá það staðfest með vottun hjá faggiltum vottunaraðila. Innleiðing þessarar lagaskyldu tekur gildi í áföngum. Frestur til að ljúka jafnlaunavottun er til 31. desember 2018 þar sem starfsmenn eru 250 eða fleiri og til 31. desember 2019 þar sem starfsmenn eru 150 – 249. Á vinnustöðum sem eru með 25 – 149 starfsmenn er frestur til jafnlaunavottunar til 31. desember 2020. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki og stofnanir endurnýi jafnlaunavottun á þriggja ára fresti.

Undirbúningur að þessu verkefni hjá velferðarráðuneytinu hófst af krafti fyrir réttu ári. Verkið hefur m.a. falið í sér nákvæma starfaflokkun innan ráðuneytisins og launagreiningu sem byggist á starfaflokkuninni.

Markmiðið með því að innleiða jafnlaunakerfi er að innleiða markvissar og faglegar aðferðir við launaákvarðanir til að útrýma kynbundnum launamun og hvers konar öðrum launamun sem ekki verður skýrður með málefnalegum hætti.

Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu, segir ferlið við innleiðingu jafnlaunastaðalsins hafa verið krefjandi og lærdómsríkt. Nú liggi aðferðafræðin fyrir og mikilvægt að sinna því vel að viðhalda kerfinu á réttan hátt með stöðugum umbótum, eftirliti og réttmætum breytingum. Fyrir liggur aðgerðaáætlun í ráðuneytinu um næstu skref.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta