Matvælaráðherra kynnir drög að verndun hafsvæða fyrir botnveiðum
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram reglugerðardrög í samráðsgátt um verndun svæða fyrir botnveiðum. Drögin eru byggð á skýrslu sem Hafrannsóknastofnun skilaði til ráðuneytisins árið 2021 og fjallar um verndun viðkvæmra botnvistkerfa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Lagt er til að botnveiðar verði samtals bannaðar á átján svæðum, utan veiða á uppsjávarfiski með flotvörpu og hringnót. Með verndun þessara svæða eru tæplega 2% af efnahagslögsögu Íslands vernduð fyrir botnveiðum.
Í skýrslunni er gerð grein fyrirliggjandi þekkingu á svæðunum og forsendum verndunar. Einnig eru einkennistegundum viðkvæmra vistkerfa gerð skil og skilgreint hvaða skilyrði svæði þarf að uppfylla til að teljast viðkvæmt. Skýrslan er mikilvægt innlegg fyrir næstu skref þar sem horft verður til þess að vernda viðkvæm vistkerfi með markvissum hætti.
Reglugerðin nær yfir öll þau svæði sem friðuð eru fyrir botnveiðum í landhelgi Íslands.
Einnig eru tilgreind þrjú ný svæði þar sem botnveiðar hafa ekki verið bannaðar áður en talin er ástæða til að vernda. Þá eru listuð í reglugerðinni fimm svæði þar sem allar veiðar með línu og fiskibotnvörpu eru bannaðar. Þau svæði eru nú þegar í reglugerð um friðunarsvæði við Ísland og hafa flest verið lokuð fyrir fyrrgreindum veiðum allt frá árinu 1971. Einnig hafa tíu svæði til verndunar kóralla verið færð inn í reglugerðina en botnveiðar hafa verið bannaðar í hluta þeirra í tæp tuttugu ár.