Hoppa yfir valmynd
18. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 82/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 82/2021

Þriðjudaginn 18. maí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. febrúar 2021, vegna umsóknar hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags 11. janúar 2021, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns síns sem fæddist X 2020. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. febrúar 2021, var fallist á umsókn kæranda. Í greiðsluáætlun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 418.516 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 22. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ósamræmi sé í úthlutunum á fæðingarorlofi sem stafi af því að hann sem einstaklingur hafi verið með um 900.000 kr. í heildarlaun árið 2020 og fái greiðslu upp á 250.000 kr. frá Fæðingarorlofssjóði en það sé ekki í samræmi við hans réttindi. Kærandi sé fyrirtækjaeigandi, fyrirtæki sem sé rekið á sér kennitölu og sé kærandi launamaður þar. Kæranda þyki það mikil mismunun að honum skuli vera mismunað fyrir það að eiga fyrirtæki og fá svo lágt orlof sem í raun sýnist. Miðað sé við laun sem kærandi hafði fyrir tveimur árum þar sem miðað sé við árið 2019. Í ár sé árið 2021 og hafi kærandi lagt sig allan fram við að vinna sig upp og hafi fært miklar fórnir til þess. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs byggi á því að kærandi sé með eigin rekstur en hann sé ekki sjálfstætt starfandi þar sem hann sé launamaður fyrirtækis sem sé vissulega í hans eigu en þó ekki á hans kennitölu. Engin rök standist þessa ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs og sé þetta mikil skekkja í kerfinu sem þurfi að laga þar sem þetta geri engum nema illt. Það geti enginn sætt sig við að fá 40% af sínum launum í stað 80% og láta eins og ekkert sé. Að það skuli muna því hvort kærandi sé skráður fyrir fyrirtækinu sem hann vinni hjá sé með öllu óskiljanlegt og standist enginn rök að breyttu mati til orlofs. Þetta sé ekkert annað en til þess fallandi að komast undan greiðslum sem viðkomandi eigi rétt á og slíkt sé mannréttindabrot.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærður sé útreikningur sjóðsins á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sé kveðið á um það að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn komi inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr.

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ágreiningur málsins snúi að því hvort miða skuli útreikning á mánaðarlegri greiðslu til hans við að hann teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur eða starfsmaður.

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 3. mgr. 7. gr. komi fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé sá sem starfi við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Þá sé í 4. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald kveðið á um það hvaða aðilar séu gjaldskyldir samkvæmt lögunum. Þannig komi til að mynda fram í 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. að gjaldskyldan taki til allra þeirra sem vinni við eigin atvinnurekstur eða stundi sjálfstæða starfsemi.

Loks sé í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 kveðið á um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til starfsmanns, í 5. mgr. um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til sjálfstætt starfandi einstaklings og í 6. mgr. um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til foreldris sem sé bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi. Í 6. mgr. sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris sem sé bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr., skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af. Starfi viðkomandi foreldri sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. í 50% eða í hærra starfshlutfalli skuli miða við viðmiðunartímabil samkvæmt 2. mgr. Að öðrum kosti skuli miða við viðmiðunartímabil samkvæmt 5. mgr. Að öðru leyti gildi ákvæði 2.-5. mgr. eins og við geti átt.

Barn kæranda hafi fæðst X 2020. Ávinnslutímabil kæranda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. sé því frá X 2020 og fram að fæðingu barnsins. Á tímabilinu hafi kærandi starfað hjá B frá X til X 2020. Þá hafi kærandi átt rétt til atvinnuleysisbóta í apríl og maí 2020. Restina af ávinnslutímabilinu hafi kærandi starfað hjá félaginu C. Félagið sé í 100% eigu kæranda samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá.

Kærandi hafi því starfað meirihluta tímabilsins, eða í um það bil fjóra mánuði, við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 og 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Það liggi því ljóst fyrir að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi einstaklingur við fæðingu barns og hafði verið það samfellt í um það bil fjóra mánuði þar á undan. Kærandi hafi því ekki starfað sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 í 50% eða í hærra stafshlutfalli í skilningi 6. mgr. 13. gr. laganna og skuli því samkvæmt sama ákvæði fara um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til hans sem sjálfstætt stafandi einstaklingur samkvæmt 5. mgr. 13. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóður að miða skuli útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda við það að hann teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 9. febrúar 2021.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. febrúar 2021, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 418.516 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Ágreiningur er um hvort kærandi teljist hafa verið sjálfstætt starfandi á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Í 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimilið við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 3. mgr. 7. gr. kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé sá sem starfi við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 13. gr. er kveðið á um útreikninga á mánaðarlegri greiðslu til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þar segir að greiðslur skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns.

Í 5. mgr. 13. gr. er svo kveðið á um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. Þar segir að mánaðarlegar greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða til tekjuárið á undan fæðingarári barns.

Í 6. mgr. 13. gr. kemur fram að teljist foreldri bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr., skuli mánaðarleg greiðsla nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Hafi foreldri starfað sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. í 50% eða hærra starfshlutfalli skal miða við viðmiðunartímabil 2. mgr. 13. en að öðrum kosti skal miða við viðmiðunartímabil 5. mgr. 13. gr.

Barn kæranda fæddist X 2020. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 var því ávinnslutímabil kæranda frá X 2020 til X 2020. Á þessu tímabili starfaði kærandi sem launþegi dagana 27. til 30. mars, átti rétt til atvinnuleysisbóta í um tvo mánuði og starfaði sem launþegi fyrirtækis í hans eigu í um fjóra mánuði. Samkvæmt framangreindu og skilgreiningum 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna var kærandi starfsmaður í um tvo mánuði og sjálfstætt starfandi í um fjóra mánuði viðmiðunartímabils 1. mgr. 13. gr. laganna. Af framangreindu og gögnum málsins er ljóst að kærandi starfaði ekki í 50% eða hærra starfshlutfalli sem starfsmaður á viðmiðunartímabili og bar því Fæðingarorlofssjóði að byggja útreikning á greiðslum til kæranda á viðmiðunartímabilinu á 5. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000.

Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. febrúar 2021, um mánaðarlegar greiðslur til Jóns A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta