Ríkisreikningur 2021: Snarpur efnahagsbati staðfesti kröftuga beitingu ríkisfjármála í heimsfaraldri
Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2021 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Samkvæmt ríkisreikningi var afkoma ársins neikvæð um 130 ma.kr. samanborið við 144 ma.kr. halla árið 2020.
Þrátt fyrir vaxandi umsvif var hagkerfið enn að ná sér eftir djúpa efnahagslægð af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru og sjást þess glögg merki í ríkisreikningi ársins.
Snarpur efnahagsbati sem hófst árið 2021 er staðfesting á því að rétt var að beita ríkisfjármálunum af krafti til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins.
„Geta ríkissjóðs til að bregðast við með þessum hætti byggðist á lækkun skulda hins opinbera undanfarinn áratug og sterkum efnahagsreikningum heimila og fyrirtækja. Á sama tíma hafði umgjörð hagstjórnarinnar verið styrkt til muna,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings.
Nú reyni á að nýta aukin efnahagsumsvif til að draga úr halla hins opinbera og stöðva skuldasöfnun.
„Hægja þarf á vexti útgjalda og treysta grunninn á ný til að verja kröftuga uppbyggingu síðustu ára, en ekki síður til að geta mætt áskorunum framtíðar. Mikil tækifæri felast í bættum rekstri, nýtingu nýrrar tækni og stafvæðingu til að veita enn betri þjónustu án verulegs útgjaldavaxtar,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.
Tekjur á árinu 2021
Tekjur án fjármunatekna jukust um 69 ma.kr. frá fyrra ári og námu 871 ma.kr. Hér er einkum um að ræða tekjur af sköttum og tryggingagjöldum. Af einstökum tegundum skatta sker VSK sig úr með 44 ma.kr. tekjuaukningu milli ára. Einnig jukust tekjur af fjármagnstekjuskatti (11 ma.kr.) og tryggingagjaldi (9 ma.kr.) Þessir þrír tekjustofnar höfðu að sama skapi dregist mest saman árið áður. Í tilviki VSK eru tekjur ársins 2021 þó mun meiri en árið 2019, fyrir COVID-faraldurinn, bæði í krónum talið og sem hlutfall af VLF. Tekjur af bankaskatti minnkuðu um 6 ma.kr. frá fyrra ári en veiðigjöld jukust um 3 ma.kr. Aðrir helstu tekjustofnar skiluðu samtals áþekkum tekjum og árið áður en þó lægra hlutfalli af VLF. Þegar niðurstaðan er aðlöguð GFS-staðli og þannig gerð samanburðarhæf við áætlanir fjárlaga, urðu tekjur af sköttum og tryggingagjöldum 91 ma.kr. umfram upphaflega áætlun fjárlaga, sem gerð var við skilyrði mikillar óvissu undir lok árs 2020. Niðurstaðan er einnig 25 ma.kr. eða 3,2% hagstæðari en síðustu uppfærðar áætlanir bentu til og endurspeglast þar m.a. kröftug efnahagsumsvif á síðasta fjórðungi ársins.
Afkoma ársins 2021
Afkoma ársins var neikvæð um 130 ma.kr. en árið 2020 var hún neikvæð um 144 ma.kr. Gjöld fyrir fjármagnsliði námu 1.078 ma.kr. og hækkuðu um 88 ma.kr. á milli ára. Beinn kostnaður vegna COVID-19 faraldursins nam 68 ma.kr Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 60 ma.kr. Matsbreytingar eigna námu 76 ma.kr. sem skýrist af virðismatsbreytingu eignarhluta í Landsbankanum og Íslandsbanka sem nú eru metnir á innra virði skv. ársreikningi félaganna fyrir árið 2021 en voru í upphafi árs metnir á 80% af innra virði. Hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins var jákvæð um 61 ma.kr.
Gjöld til fimm stærstu málefnasviðanna eru: Sjúkrahúsþjónusta 108 ma.kr., vinnumarkaður og atvinnuleysi 97 ma.kr., málefni aldraðra 92 ma.kr., örorka og málefni fatlaðs fólks 81 ma.kr og heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 65 ma.kr.
Heildareignir í árslok 2021 voru 2.784 ma.kr., skuldir 2.618 ma.kr. og eigið fé 166 ma.kr. Breyting á handbæru fé var 15 ma.kr. og er handbært fé í árslok 381 ma.kr.
Fjárfesting ársins er 67 ma.kr. en var 48 ma.kr. 2020 og 43 ma.kr. á árinu 2019. Fjárfesting hefur því aukist um 56% á tveggja ára tímabili. Þessi aukna fjárfesting er hluti af þeim umfangsmiklu aðgerðum sem ráðist var í til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins og styrkja atvinnustigið í landinu.
Afkoma ríkissjóðs 2021 betri en áætlað var í fjárlögum ársins
Rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt á grunni reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS) en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli (GFS). Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Til að bera afkomu ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi saman við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga þarf því að aðlaga niðurstöðu ríkisreiknings að hagskýrslustaðlinum. Á þeim grunni var í fjárlögum ársins 2021 gert ráð fyrir að heildarafkoma yrði neikvæð um 326 ma.kr. Samkvæmt afkomuspá sem birt var í frumvarpi til fjáraukalaga í desember 2021 var áætlað að afkoman yrði neikvæð um 294 ma.kr. Niðurstaða ársins reyndist hins vegar neikvæð heildarakoma um 225 ma.kr. sem er um fjórðungi betri en útkomuspáin í desember og þriðjungi betri en upphafleg áætlun fjárlaga. Frávikið frá fjárlögum liggur eins og áður er fjallað um að mestu í aukningu tekna, sem var alls 109 ma.kr. umfram áætlun fjárlaga.