Afstaða fær styrk til að styðja betur við börn, ungmenni og maka frelsissviptra einstaklinga
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur veitt Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, þriggja milljóna króna styrk í þeim tilgangi að styðja við starfsemi félagsins, einkum hvað varðar viðtöl, ráðgjöf og fræðslu til barna frelsissviptra, maka og annarra aðstandenda.
Á árinu 2020 opnuðu samtökin Miðstöð endurhæfingar og málefna fanga í Holtagörðum í Reykjavík þar sem boðið er upp á fræðslu, ráðgjöf og meðferðir í samstarfi við fagfólk en stefnt er að því að byggja upp þá starfsemi enn frekar á komandi ári. Afstaða veitir stuðning og ráðgjöf til fanga og fyrrverandi fanga en markmiðið með starfseminni er að tryggja einstaklingum sem fara halloka í lífinu, vegna refsidóma og fangavistar, úrræði og þjónustu til að styrkja félagslega stöðu þeirra. Félagið veitir einnig stuðning og ráðgjöf til aðstandenda fanga og sinnir erindum og fyrirspurnum sem lúta að málefnum fanga og fleira.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Starfsemi Afstöðu er ákaflega mikilvæg en samtökin hafa hjálpað fjölda frelsissviptra einstaklinga í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að við gleymum ekki fjölskyldum þeirra sem þurfa oftar en ekki stuðning og ráðgjöf og ég er gríðarlega ánægður að geta stutt við það frábæra starf sem er unnið af samtökunum í Miðstöð endurhæfingar og málefna fanga.“