Nr. 440/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 440/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19060043
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 26. júní 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2019, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.
Af kæru verður ráðið að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar þann 4. mars 2015 og var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, nú síðast með gildistíma til 1. mars 2019. Þann 4. febrúar 2019 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2019, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 26. júní sl.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun vísaði Útlendingastofnun til og reifaði skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og 13. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að kærandi hefði á gildistíma dvalarleyfa dvalið langdvölum erlendis og uppfyllti því ekki skilyrði um samfellda dvöl; ekki væri um sérstakar aðstæður að ræða og því ætti undanþáguheimild 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar ekki við. Var umsókn kæranda því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda. Í umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi kemur m.a. fram að hann hafi þurft að dvelja erlendis vegna veikinda og slæms heilsufars. Meðan hann hafi dvalist erlendis á árinu 2017 hafi hann veikst skyndilega og þurft að gangast undir aðgerð þar sem [...]. Samkvæmt læknisráði hafi hann ekki mátt ferðast til Íslands í nokkra mánuði enda sé ferðalagið frá heimaríki til Íslands langt. Þá kemur fram að kærandi hafi skömmu eftir komu til Íslands sama ár þurft að leggjast inn á spítala nokkrum sinnum.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.
Í 13. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 sem öðlaðist gildi 29. maí 2017, er fjallað um samfellda dvöl sem skilyrði fyrir veitingu á ótímabundnu dvalarleyfi. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að dvöl útlendings teljist samfelld hér á landi í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafi hann ekki dvalist lengur erlendis en 90 daga á hverju ári á gildistíma dvalarleyfis. Í 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að víkja frá skilyrði 1. mgr. við sérstakar aðstæður hafi Útlendingastofnun veitt heimild til lengri dvalar erlendis á gildistíma tímabundins dvalarleyfis. Það sama eigi við hafi Útlendingastofnun ekki fellt niður tímabundið dvalarleyfi vegna of langrar dvalar erlendis og aðstæður mæli með því að öðru leyti.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með dvalarleyfi á Íslandi samfellt frá 4. mars 2015 og var síðast útgefna dvalarleyfi með gildistíma til 1. mars sl. Í umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi, dags. 4. febrúar 2019, kemur fram að á því tímabili hafi kærandi dvalist í heimaríki frá 14. apríl 2016 til 2. nóvember 2016, frá 4. mars 2017 til 11. desember 2017 og loks frá 10. apríl 2018 til 15. janúar 2019. Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi hefur dvalið erlendis í alls um 24 mánuði á síðastliðnum fjórum árum sem jafngildir því að hann hafi dvalið hér á landi um helming þess tíma sem hann hefur haft dvalarleyfi. Að mati kærunefndar getur langtímadvöl kæranda erlendis ekki fallið undir skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, um að dveljast hér á landi samfellt. Að öðru leyti eru aðstæður kæranda ekki slíkar að undanþágureglur 13. gr. reglugerðar um útlendinga eigi við í máli hans. Er því ótvírætt að kærandi hefur ekki dvalið hér á landi samfellt í fjögur ár og uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Er ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.Samkvæmt 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafði kærandi heimild til dvalar hér á landi á meðan á málsmeðferð umsóknar hans um ótímabundið leyfi stóð. Eins og að framan greinir hefur málsmeðferðinni nú verið lokið með synjun umsóknarinnar og hefur kærandi því ekki lengur heimild til dvalar hér á landi. Kærunefnd ítrekar leiðbeiningar í ákvörðun Útlendingastofnunar um að kæranda sé leiðbeint um að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli innan 15 daga frá móttöku synjunarinnar eða að öðrum kosti yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann sækir ekki um dvalarleyfi á öðrum grundvelli eða yfirgefur ekki landið kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Anna Valbjörg Ólafsdóttir