Hoppa yfir valmynd
30. mars 2020 Innviðaráðuneytið

Viðbygging reist við flugstöðina á Akureyri

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Nauðsynlegt er að byggja við flugstöðina á Akureyrarflugvelli til að geta veitt viðunandi þjónustu samtímis fyrir millilanda- og innanlandsflug. Þetta eru niðurstöður skýrslu aðgerðahóps sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði til að meta þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli.

Hópurinn telur núverandi flugstöð vera of litla og aðstöðu ófullnægjandi til að sinna hlutverki sínu til framtíðar. Lagt er til að ráðist verði í hönnun 1.000 m2 viðbyggingar svo hægt verði að afgreiða allt að 220 sæta millilandavél á innan við klukkutíma samhliða 70 sæta innanlandsvél. 

Í skýrslunni er gert ráð viðbyggingu við núverandi flugstöð og að hönnun hennar verði sveigjanleg til að hægt verði að stækka bygginguna eða breyta nýtingu einstakra svæða. Kostnaður er áætlaður um 900 m.kr. og lagt er til að þegar í stað verði ráðist í hönnun, færslu olíutanka og jarðvinnu þannig að byggingarframkvæmdir geti hafist strax að hönnun lokinni. Áætlað er að við framkvæmdir við viðbygginguna verði til um 50 ársverk.

„Það er ánægjulegt að geta stigið mikilvægt og myndarlegt skref að frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli sem gátt inn til landsins. Hafist verður handa við hönnun og síðar stækkun á flugstöðinni á Akureyri innan skamms. Tími fjárfestinga er núna og fyrir Norður- og Austurland skiptir öllu máli að vera vel í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum þegar Covid-tímabilið er afstaðið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður Ingi segir að á síðustu árum hafi verið unnið að því að efla Akureyrarflugvöll og að lenging flugbrautarinnar hafi verið fyrsta skrefið. Árið 2018 hafi síðan verið tryggt fjármagn fyrir aðflugsbúnað, ILS, sem þegar hafi sannað gildi sitt.

90 störf vegna framkvæmda á Akureyrarflugvelli

„Samhliða stækkun á flugstöðinni verður flughlaðið á Akureyrarflugvelli stækkað til að koma á móts við aukin umsvif og öryggi vallarins. Áætlað er að við báðar þessar framkvæmdirnar verði til um 90 ársverk, í hönnunar- og verktakavinnu,“ segir ráðherra.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra undirrituðu viljayfirlýsingu 18. desember sl. um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli sem gátt inn til landsins í þágu svæðisins og íslenskrar ferðaþjónustu. Í framhaldi af yfirlýsingunni skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra aðgerðahóp sem leggja skildi mat á þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli. Í hópnum sátu fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Akureyrarbæjar, Eyþings, ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og Isavia.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta