Tillaga að íslenskri krabbameinsáætlun - forgangsröðun og framkvæmd verkefna
Skýrsla ráðgjafarhóps með tillögu til heilbrigðisráðherra um íslenska krabbameinsáætlun til ársins 2020 hefur verið birt á vef Stjórnarráðsins. Verkefnisstjórn verður falið að móta framkvæmd og eftirfylgni hennar og gera tillögu um forgangsröðun verkefna á grundvelli fjárheimilda.
Skýrsla ráðgjafarhópsins er afar viðamikil, enda tekur tillaga hans að íslenskri krabbameinsáætlun til margra þátta. Fjallað er um faraldsfræði krabbameina, skráningar þeirra, forvarnir og heilsugæslu, rannsóknir og gæðastjórnun, meðferðarþætti og mannafla, endurhæfingu, eftirfylgni og líknarmeðferð. Ráðgjafarhópinn skipaði Guðbjartur Hannesson þáverandi velferðarráðherra árið 2013.
Líkt og fram kemur í inngangi að skýrslu hópsins hafa mörg vestræn ríki sett sér sjálfstæðar krabbameinsáætlanir og það hafa til að mynda hinar Norðurlandaþjóðirnar gert. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út leiðbeiningar um gerð krabbameinsáætlana árið 2002. Þar segir m.a. um tilgang þeirra að þær séu lýðheilsuáætlun þjóðar eða ríkis sem skuli miða að því að fækka nýgreiningum og draga úr dánartíðni vegna krabbameina. Einnig sé markmið þeirra að bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein með kerfisbundinni innleiðingu gagnreyndra aðgerða á vettvangi forvarna, snemmgreiningar, meðferðar og líknar. Í krabbameinsáætlun skuli jafnræði þegnanna og hagkvæmni höfð að leiðarljósi.
Lokaskýrsla ráðgjafarhópsins lá fyrir í maí 2016. Í apríl síðastliðnum fundaði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra með fulltrúum úr ráðgjafarhópnum sem gerðu honum grein fyrir tillögu sinni að íslenskri krabbameinsáætlun, uppbyggingu hennar og efni. Í framhaldi af þeim fundi ákvað ráðherra að láta vinna samantekt sem birtir markmið og tillögur áætlunarinnar í hnotskurn. Samantektin fylgir hér með.
„Við stöndum á krossgötum líkt og ráðgjafarhópurinn bendir á þar sem hækkandi aldur þjóðarinnar og fjölgun íbúa veldur því að á næstu árum mun einstaklingum sem greinast með krabbamein fjölga mikið. Krabbamein er þungbær sjúkdómur bæði þeim sem greinast og aðstandendum þeirra og gerir jafnframt miklar kröfur til heilbrigðiskerfisins. Vinna ráðgjafarhópsins sem birtist í meðfygjandi skýrslu er í þessu ljósi afar mikilvægur grundvöllur fyrir okkur að byggja á ákvarðanir um aðgerðir til lengri og skemmri tíma litið, hvort sem er á sviði forvarna, meðferðar eða annarra þátta“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr hefur ákveðið að óska eftir tilnefningum í verkefnisstjórn með aðkomu Embættis landlæknis, Krabbameinsfélags Íslands og Landspítalans, auk velferðarráðuneytisins, sem falið verður að móta framkvæmd og eftirfylgni þeirra tillagna sem fram koma í skýrslu ráðgjafarhópsins og leggja til forgangsröðun verkefna á grundvelli fjárheimilda.