Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

500 gestir í hverju hólfi á sitjandi viðburðum

„Það er að rofa til, við göngum af stað í afléttingarnar með skipulögðum hætti og nú geta viðburðir farið aftur af stað með 500 gestum í sóttvarnarhólfi. Þetta skiptir sköpum fyrir íslenskt menningarlíf. Það er einnig mikilvægt að hafa rýmkað til fyrir veitingastaði, skemmtistaði og krár,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra.

Ríkisstjórnin kynnti í dag afléttingaráætlun sína á samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldursins, en samkvæmt fyrsta fasa hennar verða gerðar breytingar sem hafa talsverð áhrif fyrir menningarstarfsemi og ferðaþjónustu.

Með breytingunum verður heimilt að taka á móti allt að 500 gestum í hverju sóttvarnarhólfi á sitjandi viðburðum. Ekki verður þörf á hraðprófum, en viðhalda skal 1 metra nándarreglu milli óskyldra aðila.

Skemmtistöðum og krám, verður heimilað að opna á ný. Veitingastöðum, þ.m.t. krám og skemmtistöðum, verði heimilt að hleypa nýjum viðskiptavinum til kl. 23.00 en gestum verði gert að yfirgefa staðina kl. 00.00.

Á þriðjudag kynnti menningarmálaráðherra viðspyrnuaðgerðir til tónlistar og sviðslista, en 450 milljónir eru lagðar í aðgerðirnar.

„Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem miða að því að efla slagkraft tónlistar og sviðslistageiranna til framtíðar. Við veljum að fara þá leið að styrkja þá sjóði og samtök sem báðar greinarnar hafa aðgengi að og ná þannig til sem flestra. Við einsettum okkur að standa með menningunni í gegnum heimsfaraldurinn og eru þessar aðgerðir liður í því,“ sagði menningarmálaráðherra af því tilefni.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta