Hoppa yfir valmynd
5. júní 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 32/2019 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 32/2019

 

Sameign/séreign: Bílskúr.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með rafrænni álitsbeiðni, sendri 3. apríl 2019, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 24. apríl 2019, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 26. apríl 2019, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 5. júní 2019.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls tvo eignarhluta. Aðilar eru eigendur hvor að sínum eignarhlutanum. Ágreiningur er um hvort bílskúr sem fylgir eignarhluta álitsbeiðanda tilheyri sameign hússins.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að bílskúr á lóð hússins sé í sameign.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi keypt íbúð sína fyrir rúmlega tveimur árum og fengið þær upplýsingar frá fasteignasölu að í gildi væri 60/40 skipting þar sem bílskúr við hlið hússins væri innifalin í eignaskiptasamningi sem hafi verið gerður fyrir 1986. Á þeim tíma hafi fyrirkomulagið verið á þá leið sem skiptasamningurinn hafi kveðið á um.

 

Skipting á kostnaði vegna ýmissa framkvæmda við húsið hafi verið 60/40 en álitsbeiðandi eigi 60%. Til standi að mála og gera lagfæringar á þaki hússins og hafi álitsbeiðandi viljað taka bílskúrinn í leiðinni. Eignarhluti gagnaðila sé kominn á sölu. Gagnaðili telji að bílskúrinn sé ekki hluti af sameign og þar með sé það ekki hans skylda að skipta sér af því og óþarfi að kynna það tilvonandi kaupendum þar sem þetta varði þau ekki.

Samkvæmt upplýsingum sóknaraðila innihaldi áðurnefndur samningur umræddan bílskúr samkvæmt eignaskiptasamningnum sem einnig birtist í hlutfallsskiptingu hans.

Í greinargerð gagnaðila segir að húsið hafi verið byggt árið 1954 sem einbýlishús. Árið 1986 hafi því verið breytt í tvíbýlishús og gerður eignaskiptasamningur þar um. Í samningnum komi fram að eignarhlutur gagnaðila sé öll neðri hæð að undanskildum inngangi efri hæðar. Eignarhlutur álitsbeiðanda sé efri hæð ásamt geymslurisi og forstofuinngangi sem sé á neðri hæð (sér inngangur). Álitsbeiðandi eigi einnig bifreiðageymslu sem sé byggð á lóðinni, en sé laus frá húsinu. Eignarhlutfall álitsbeiðanda sé talinn vera 59,66% samkvæmt skiptingarhlutfalli, dags. 15. október 1986. Hlutdeild hans í óskiptri lóð sé hin sama. Viðhald húss og lóðar fari eftir eignarhlutfalli hvors aðila um sig.

Álitsbeiðandi telji viðhald á bílskúr órjúfanlegan hluta 60/40 skiptingarinnar og eigi væntanlega við með því að gagnaðili skuli taka þátt í kostnaði vegna viðhalds á skúrnum. Með vísan til fyrrnefnds eignaskiptasamnings sé skúrinn séreign hans. Skúrinn standi á lóð hússins og sé ekki partur af ytra byrði hennar. Hann sé óeinangraður og ókyntur og hafi ekki fengið nokkurt viðhald til fjölda ára, en hann hafi meðal annars verið notaður undir búfénað á árum áður. Gagnaðili hafi engan aðgang að umræddum skúr og hafi álitsbeiðandi einn afnotamöguleika og hafi því verið háttað þannig allt frá árinu 1986 þegar húsinu hafi verið skipt. Af fyrrgreindu leiði að álitsbeiðandi skuli bera kostnað af endurnýjun og viðhaldi hans en gagnaðili geti ekki með nokkru móti fallist á að frístandandi bílskúr í séreign sé hluti af sameiginlegu viðhaldi.

Kostnaður vegna endurnýjunar og viðhalds bílskúrsins sé sérkostnaður álitsbeiðanda með vísan til fyrrnefnds eignaskiptasamnings, sbr. 10. tölul. 5. gr. og 1. mgr. 50. gr. laga um fjöleignarhús, þar sem fram komi að eigandi skuli sjá um og kosta allt viðhald og rekstur á séreign sinni.

III. Forsendur

Deilt er um hvort bílskúr sem tilheyrir eignarhluta álitsbeiðanda sé sameign eða séreign álitsbeiðanda. Ágreiningslaust virðist að skúrinn sé í eigu álitsbeiðanda. Telur kærunefnd þannig engin efni til að fallast á kröfu álitsbeiðanda um að bílskúr hans sé í sameign. Tekur kærunefnd ekki afstöðu til þess hér hvort hlutfallstölur eignaskiptayfirlýsingar hússins séu réttar.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að bílskúrinn sé í séreign álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 5. júní 2019

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta