Hoppa yfir valmynd
16. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. júní 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 50/2014.

 

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. desember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans sökum þess að hann hefði haft tekjur í ágúst 2013 án þess að tilkynna um slíkt til stofnunarinnar. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Þá var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 93.059 kr. með 15% álagi, vegna ágústmánaðar 2013. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2013, mótmælti kærandi niðurstöðu stofnunarinnar og greindi frá því að hann hefði tilkynnt um atvinnu sína. Jafnframt óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Málið var endurupptekið en með bréfi, dags. 18. mars 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest. Með bréfi til stofnunarinnar, dags. 24. mars 2014, óskaði B hrl. f.h. kæranda eftir nánari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 4. apríl 2014. Lögmaður kæranda kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 5. maí 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta eigi hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 14. september 2012. Þann 21. ágúst 2013 staðfesti kærandi í síðasta skipti atvinnuleit sína á vefsvæðinu „Mínum síðum“ hjá stofnuninni. Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar hafði kærandi samband við stofnunina þann 30. ágúst 2013 og óskaði eftir því að fá skattkort sitt og maka sent á lögheimili. Samkvæmt greiðsluseðli, dags. 2. september 2014, fékk kærandi greitt 186.417 kr. frá stofnuninni vegna ágústmánaðar 2013. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, var kæranda tilkynnt um að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hefðu komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur kæranda í ágúst 2013 vegna vinnu hjá C að fjárhæð 264.480 kr. Í bréfinu var óskað eftir upplýsingum um framangreindar tekjur. Þann 13. nóvember 2013 barst stofnuninni tölvupóstur frá kæranda og staðfesting á starfstímabili kæranda hjá C. Í staðfestingunni kemur fram að kærandi hafi byrjað störf hjá fyrirtækinu þann 19. ágúst 2013. Með bréfi, dags. 4. desember 2013, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar.

 Í kæru setur kærandi fram þá kröfu að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi. Kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun símleiðis strax í júlí 2013 um væntanlega vinnu sína hjá C frá og með 19. ágúst 2013 og óskað af því tilefni eftir því að stofnunin sendi honum skattkortið. Þegar það hafi dregist hafi kærandi, áður en það hafi komið til greiðslu bóta þann 2. september 2013, tvívegis haft samband símleiðis við stofnunina, þann 28. og 30. ágúst 2013, þar sem hann hafi greint frá því að hann væri kominn í vinnu og óskað þess vegna eftir því að fá skattkortið sent. Það sé því rangt og ósannað sem stofnunin haldi fram að kærandi hafi „vísvitandi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni“ að hann hefði tekjur í ágúst 2013 og þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra. Þau viðurlög sem stofnunin beiti kæranda í þessu sambandi séu byggð á því að hann hafi aflað sér bótanna með sviksamlegum hætti, sbr. 60. gr. laga nr. 54/2006. Það sé viðurkennt af stofnuninni að kærandi hafi óskað eftir því að fá sent skattkortið sem hafi aðeins getað verið vegna þess að hann hafi fengið vinnu og tjáð stofnuninni um það.

Ekki fái staðist sem Vinnumálastofnun hafi staðhæft að af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda verði ráðið að hann hafi ekki tilkynnt um vinnu sína hjá C og ekki lagt fram gögn er geti sýnt fram á hið gagnstæða. Sönnunarskyldan um staðhæfingar stofnunarinnar og meint lagabrot kæranda hvíli á stofnuninni samkvæmt sönnunarreglum stjórnsýsluréttar en ekki öfugt þar sem stofnunin ásaki kæranda um bótasvik og beiti hann refsikenndum viðurlögum. Það eigi því að leggja frásögn kæranda til grundvallar nema það sannist að annað sé réttara. Meintar ávirðingar og lagabrot kæranda séu ósönnuð og því beri að ógilda ákvörðun stofnunarinnar.

Þá sé það ekki rétt sem Vinnumálastofnun haldi fram að kærandi hafi fengið greidda sömu fjárhæð 2. september 2013 vegna tímabilsins frá 1. til 31. ágúst 2013 og kærandi hafi fengið greitt mánuðina á undan og honum hafi því mátt vera ljóst að hann hefði fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir heilan mánuð. Í fyrsta lagi sé fjárhæðin sem stofnunin nefni ekki rétt, hann hafi fengið greiddar 178.026 kr. en ekki 186.517 kr. Í öðru lagi hafi kærandi ekki séð greiðsluseðil Vinnumálastofnunar frá 2. september 2013 þar sem hann hafi ekki komist inn á þjónustuvef stofnunarinnar. Auk þess hafi kærandi þrívegis verið búinn að hafa samband við stofnunina vegna vinnunnar í ágúst og hafi því ekkert verið að huga að því hvort greiðslan væri eitthvað óeðlileg.

Ekki verði séð að Vinnumálastofnun hafi staðreynt eða rannsakað staðhæfingar kæranda um málsatvik. Stofnunin hefði getað látið rekja og skoða símtölin til að staðreyna hvort kærandi hafi tilkynnt um vinnuna. Þá hefði stofnunin átt að rannsaka málið að öðru leyti til hlítar þar sem stofnunin hafi beitt kæranda refsikenndum viðurlögum. Stofnunin hafi ekki virt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og brotið varði ógildingu ákvörðunar stofnunarinnar.

Þá hafi Vinnumálastofnun brotið andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga með því að upplýsa kæranda ekki um það áður en stofnunin hafi birt honum ákvörðunina að stofnunin teldi hann hafa svikið út atvinnuleysisbætur og hygðist beita hann viðurlögum. Kærandi hafi því ekki verið gefinn kostur á því að koma að skýringum og sjónarmiðum sínum áður en ákvörðun hafi verið tekin. Það hafi verið brýnt þar sem um hafi verið að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun fyrir kæranda fjárhagslega og réttindalega og einnig alvarlega ásökun. Afstaða kæranda hafi ekki legið fyrir í gögnum málsins áður en ákvörðun hafi verið tekin enda hafi kærandi verið grunlaus um að stofnunin hafi talið hann vera að svíkja út bætur. Öflun afstöðu kæranda hafi ekki verið augljóslega óþörf.

Loks hafi Vinnumálastofnun ekki virt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga með ákvörðun sinni um beitingu 15% álags á ofgreiddar bætur og sviptingu á rétti kæranda til atvinnuleysisbóta þar til hann hefði a.m.k. starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Um mjög íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Kærandi hafi einungis haft atvinnu hjá C í sex mánuði og verið atvinnulaus síðan. Ákvörðunin hafi því gert honum ókleift að ávinna sér aftur rétt til atvinnuleysisbóta. Stofnunin hefði átt að láta kæranda njóta vafans og ekki beita viðurlögum heldur einungis krefja kæranda um endurgreiðslu á því sem hefði verið ofgreitt. Stofnunin hefði getað, til að ná markmiðum sínum, látið nægja að benda kæranda á að hann hefði ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni nægilega og brýnt fyrir honum að senda framvegis glöggar og sannanlegar upplýsingar um breytingar á högum hans. Það að stofnunin hafi ekki gætt meðalhófs sé enn ein ástæða til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. júní 2014, kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Honum hafi einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Annar málsliður 1. mgr. 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnurekandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína samkvæmt 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Af ákvæðinu leiði að sá sem ekki tilkynni Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt samkvæmt 10. gr. laganna eða um tilfallandi vinnu samkvæmt 35. gr. a skuli sæta viðurlögum. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna.

Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálstofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með tekjur frá C í ágúst 2013 og samkvæmt staðfestingu frá fyrirtækinu hafi kærandi hafið störf þann 19. ágúst 2013. Í skýringum til stofnunarinnar og í kæru til kærunefndarinnar sé því haldið fram að kærandi hafi tilkynnt um vinnu sína í júlí 2013 og lok ágúst 2013. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynningar um tekjur eða vinnu kæranda á þeim tíma sem um ræði og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir allan ágústmánuð. Af samskiptasögu kæranda megi sjá að hann hafi staðfest atvinnuleit sína án athugasemda með reglulegum hætti á árinu 2013. Hann hafi staðfest atvinnuleit án athugasemda um vinnu sína með sama hætti og áður þann 21. ágúst 2013, tveimur dögum eftir að hann hafi hafið starf hjá C. Kærandi hafi ekki tilkynnt um vinnu sína hjá C þegar hann hafi óskað eftir að skattkort hans og maka yrði sent á lögheimili með símtali þann 30. ágúst 2013. Kæranda hafi fengið greiddar fullar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. ágúst til 31. ágúst 2013 og hafi verið birtur greiðsluseðill þess efnis 2. september 2013. Kæranda hafi því mátt vera ljóst að hann hefði fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir allan ágústmánuð.

Vinnumálastofnun geti ekki fallist á þann málatilbúnað lögmanns kæranda að stofnunin hafi ekki virt rannsóknarreglu, andmælareglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við meðferð máls og að beiting á sönnunarreglum hafi verið röng. Þegar atvinnuleitandi hafi samband við Vinnumálastofnun og gefi upp kennitölu sína séu öll samskipti skráð í samskiptasögu viðkomandi einstaklings. Það eigi sérstaklega við ef um veigamiklar upplýsingar sé að ræða, svo sem tilkynningu um nýtt bankareikningsnúmer, búferlaflutninga og afskráningu vegna vinnu. Engin færsla um samskipti milli kæranda og Vinnumálastofnunar hafi verið skráð í samskiptasögu kæranda um að hann hafi verið byrjaður í vinnu eða að hann hafi óskað eftir afskráningu í atvinnuleysisskrá. Stofnunin hafni þeim skýringum í máli kæranda að hann hafi oftar en einu sinni tilkynnt um vinnu sína hjá C. Auk þess hafi kærandi ekki gert tilraun til að hafa samband við Vinnumálastofnun eftir að greiðslutímabil hafi verið birt á greiðsluseðli og búið að greiða kæranda út atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kærandi einungis óskað eftir skattkorti sínu þegar hann hafi haft samband við Vinnumálstofnun þann 30. ágúst 2013.

Vinnumálastofnun hafni því að kærandi hafi ekki verið veittur kostur á að koma að skýringum sínum og sjónarmiðum áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 11. nóvember 2013, hafi verið óskað eftir upplýsingum vegna óuppgefinna tekna. Í bréfinu sé sérstaklega vakin athygli á því að atvinnuleitandi sem láti hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar kunni að sæta viðurlögum á grundvelli 59. og 60. gr. um atvinnuleysistryggingar. Ekki verði séð Vinnumálastofnun eigi sök á því að engin andmæli hafi borist frá kæranda áður en upprunalega ákvörðunin hafi verið tekin í málinu. Þá hafi komið fram skýringar og athugasemdir frá kæranda í tölvupósti þann 26. febrúar 2014 þegar kærandi hafi óskað eftir endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar. Mál hans hafi verið tekið fyrir að nýju í kjölfarið. Kæranda hafi því sannanlega verið veitt færi á að koma að andmælum áður en ákvörðun hafi verið tekin.

Að því er varðar meint brot á meðalhófsreglu segir í greinargerð Vinnumálastofnunar að samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga beri stjórnvöldum að gæta hófs við beitingu þess úrræðis sem valið sé. Í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna ítarlega verknaðarlýsingu sem tiltaki sérstaklega það tilvik sem uppi sé í þessu máli. Ekki verði séð að Vinnumálastofnun geti í máli kæranda valið að beita öðru úrræði en lög fyrirskipi sérstaklega og beita skuli í þeim tilvikum sem uppi séu í málinu. Í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 180/2011 hafi úrskurðarnefndin talið að þar sem málsaðili hafi starfað á sama tíma og hann hafi þegið atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna um vinnu sína, yrði að leggja til grundvallar að verknaðarlýsing 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ætti fremur við í málinu en 59. gr. laganna þrátt fyrir að viðurlögin væru meira íþyngjandi. Því telji stofnunin að ekki hafi verið heimild til að beita öðrum úrræðum í máli kæranda.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. júní 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Með bréfi, dags. 9. júlí 2014, ítrekaði lögmaður kæranda að sönnunarbyrðin um meint bótasvik hans yrði lögð á Vinnumálastofnun.

  

2. Niðurstaða

 Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá fyrirtækinu C frá 19. ágúst 2013 en þáði atvinnuleysisbætur fyrir allan ágústmánuð. Vinnumálastofnun byggir á því að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um þessa atvinnu sína en því er mótmælt af hálfu kæranda. Kærandi heldur því fram að hann hafi hringt í stofnunina þann 16. júlí 2013 og tilkynnt að hann hefði fengið vinnu frá 19. ágúst 2013 og jafnframt óskað eftir því að fá skattkortið sitt sent. Þegar skattkortið hafi ekki borist hafi hann hringt í stofnunina þann 28. ágúst 2013 og aftur 30. ágúst 2013 og beðið um að fá skattkortið sent þar sem hann hefði byrjað að vinna hjá fyrirtækinu C þann 19. ágúst 2013. Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar er hins vegar einungis skráð að kærandi hafi hringt í stofnunina þann 30. ágúst 2013 og í því símtali hafi hann einungis óskað eftir að fá skattkort sitt og maka sent á lögheimili. Þá staðfesti kærandi atvinnuleit sína þann 21. ágúst 2013, eða tveimur dögum eftir að hann hóf störf hjá C, án þess að minnast á vinnu sína. Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á þá niðurstöðu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um atvinnu sína hjá C. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru er einnig byggt á því að ógilda beri hina kærðu ákvörðun á þeim grundvelli að Vinnumálstofnun hafi ekki virt rannsóknarreglu 10. gr., andmælareglu 13. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Úrskurðarnefndin telur málið nægjanlega upplýst með hliðsjón af framangreindri samskiptasögu Vinnumálastofnunar og staðfestingu kæranda á atvinnuleit. Um andmælarétt er fjallað í 13. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Hin kærða ákvörðun í máli þessu var tekin þann 18. mars 2014 eftir að kærandi hafði komið að skýringum með bréfi, dags. 26. febrúar 2013. Að mati úrskurðarnefndar lá afstaða kæranda því skýrt fyrir í gögnum málsins þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þá segir í 1. málsl. 12. gr. stjórnsýslulaga að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust en í því felst að mati úrskurðarnefndar að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að ógilda beri hina kærðu ákvörðun með vísan til rannsóknarreglu, andmælareglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar eða tímabilið frá 20. ágúst til 31. ágúst 2013 auk 15% álags eða samtals 93.059 kr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

  

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 18. mars 2014 í máli A, þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 93.059 krónur, er staðfest

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta