Hoppa yfir valmynd
26. mars 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tveir milljarðar aukalega í loftslagsmál, snjóflóðavarnir, fráveitumál og uppbyggingu þjóðgarða

Jökulsárlón - myndHugi Ólafsson

Gert er ráð fyrir að á árinu 2020 verði um 2 milljörðum króna af 15 milljarða sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar varið til verkefna sem eru á ábyrgðarsviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Tillögu til þingsályktunar um fjárfestingarátakið var dreift á Alþingi í gær, en átakinu er ætlað að auka opinbera fjárfestingu vegna kórónuveirunnar.

Til orkuskipta, grænna lausna og umhverfismála, verði varið ríflega 1.350 m.kr. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að verja 500 m.kr. til loftslagsmála, bæði orkuskipta í samgöngum og í höfnum landsins og til aukinnar kolefnisbindingar með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Í öðru lagi er lagt til að auka framlög á þessu ári til uppbyggingar á friðlýstum svæðum umfram þann milljarð sem tilkynnt var um fyrr í mánuðinum. Þetta eru rúmar 650 m.kr. til annars vegar göngustíga, bílastæða og annarra innviða, svo sem við Jökulsárlón, á Þingvöllum og Friðlandi að Fjallabaki, og hins vegar verði varið fjármagni í uppbyggingu á aðstöðu og þjónustu fyrir ferðamenn. Í þriðja lagi er lagt til að 200 m.kr. verði varið til að styðja við framkvæmdir í fráveitumálum sveitarfélaga, en mikil þörf er á átaki í þeim málum. 

Þá er lagt til að um 350 m.kr. verði varið til frekari uppbyggingar varnargarða vegna snjóflóða, til viðbótar við rúman milljarð króna sem þegar hafði verið samþykkt að ráðstafa til þeirra á árinu. Þá verði 75 m.kr. viðbótarfármagn sett í varnir gegn landbroti og um 190 milljónir verði notaðar í mæli- og vöktunarbúnað, hugbúnað og veðursjárkerfi, auk fleiri þátta, sem hluti af styrkingu innviða vegna óveðursins í desember og janúar. 

Alls er því um ræða tæpa 2 milljarða kr. sem ætlunin er að komi til viðbótar við fjárveitingar í fjárlögum ársins 2020 til umhverfismála.

„Stjórnvöld eru þessa daga að stíga mikilvæg skref fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Fjárfestingarátakið er afar mikilvægt til að auka opinbera fjárfestingu, fjölga störfum og glæða efnahagslífið á þessum sérstöku tímum sem við nú upplifum. Verkefnin á sviði umhverfismála dreifast víða um land og munu m.a. nýtast í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, til að vernda viðkvæma náttúru og efla vöktun og viðbrögð okkar við náttúruvá“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta