Opnun Þverárfellsvegar í Refasveit og Skagastrandarvegar um Laxá
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, var í gær viðstaddur opnun Þverárfellsvegar í Refasveit og nýs vegarkafla um Skagastrandarveg ásamt nýrri brú yfir Laxá. Framkvæmdirnar eru mikilvægt skref í átt að bættum samgöngum á Norðurlandi Vestra. Nýr Þverárfellsvegur og fyrsti hluti Skagastrandarvegar verða mun öruggari en vegurinn sem var fyrir, en þeir eru breiðari og byggðir upp miðað við nútíma kröfur til öryggis.
„Það er mikið ánægjuefni að framkvæmd verksins sé nú lokið, vegfarendum og íbúum á svæðinu til bóta. Á grundvelli Samgönguáætlunar verður einbreiðum brúm á landinu áfram fækkað á komandi árum og er t.a.m. stefnt að því að innan 15 ára verði engin einbreið brú lengur til staðar á hringveginum. Þessar framkvæmdir koma vonandi til með að draga úr ferðatíma og bæta öryggi vegfarenda til muna. Samgöngubæturnar munu styðja við atvinnulíf á svæðinu, svo sem fiskflutning og ferðaþjónustu enda vegurinn hluti af hinni nú heimsfrægu Norðurstrandarleið. Ásamt því bind ég vonir við að þær muni auðvelda ferðir um Norðurland Vestra og stuðla að betri tengingu svæðisins við landið allt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Heildarvegalengd nýs vegakafla og brúar er um 11,8 km og leysir hann af vegakafla sem hefur verið talinn einn sá hættulegasti á landinu. Einnig voru byggðar nýjar tengingar og heimreiðar, samtals um 4,5 km að lengd. Verkið gekk samkvæmt áætlun en verklok voru áætluð í nóvember á þessu ári.