Fjölmenni á ráðstefnu um málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi
Nauðsynlegt er að samþætta alla almenna stefnumótun, skipulag, stofnanir og þjónustu og efla skilning almennings á fötlun til að stuðla að aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Þetta var meðal þess sem kom fram í ávarpi dr. Toms Shakespeare sem kynnti nýja alþjóðlega skýrslu um aðstæður fatlaðs fólks á málþingi 15. mars síðastliðinn.
Tom Shakespeare er sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og einn höfunda fyrstu alþjóðaskýrslunnar um fötlun og aðstæður fatlaðs fólks, World report on disability, sem var kveikjan að málþinginu og meginumfjöllunarefni þess. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Alþjóðabankinn stóðu saman að útgáfu skýrslunnar.
Meðal markmiða með skýrslunni er að færa stjórnvöldum og samfélögum alhliða greiningu á aðstæðum fatlaðs fólks og hvernig samfélög bregðast við fötlun en byggt er á staðreyndum og fyrirliggjandi gögnum um þessi mál. Þá er skýrslunni sérstaklega ætlað að vera stjórnvöldum í hverju landi stuðningur til að hrinda í framkvæmd samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.
Tom var aðalfyrirlesari málþingsins og kynnti ítarlega tilurð, uppbyggingu og efni skýrslunnar. Meðal annars fjallaði hann um ýmsar staðreyndir og samanburð milli þjóða, til dæmis um aðgang fatlaðs fólks að heilsugæslu, endurhæfingu, menntun, atvinnu og fleira. Aðstæður að þessu leyti eru mjög mismunandi milli þjóða, ekki einungis vegna mismunandi efnahagsástands heldur einnig af ýmsum ástæðum sem rekja má til skipulags og vilja stjórnvalda til að auðvelda fötluðu fólki að taka virkan þátt í samfélaginu á öllum sviðum. Í skýrslunni koma fram margvíslegar tillögur um aðgerðir og leiðir til að vinna að þessu.
„Það er ánægjulegt að heyra að heilbrigðismál og félagsmál eru sameinuð í einu ráðuneyti hér á Íslandi“ sagði Tom meðal annars og lýsti þeirri reynslu sinni að víða væru háir múrar milli ráðuneyta sem bæru ábyrgð á ýmsum þáttum sem vörðuðu fatlað fólk og að það stæði oft í vegi fyrir úrbótum.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra flutti ávarp á málþinginu og sagði skýrsluna World report on disability ómetanlegt innlegg í baráttu fatlaðs fólks fyrir bættri stöðu og viðurkenningu á rétti sínum til fullrar samfélagsþátttöku á borð við aðra: „Gerð mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er tvímælalaust eitt hið merkasta skref sem stigið hefur verið á alþjóðlegum vettvangi í þessum málaflokki. Ísland var eitt af fyrstu ríkjum heims til að undirrita samninginn, þann 30. mars 2007 en hefur ekki fullgilt hann ennþá. Að því er hins vegar stefnt. Í tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem nú liggur fyrir Alþingi er fjallað um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess og lagt til að frumvarp til fullgildingar samningsins verði lagt fram á vorþingi árið 2013.
Skýrslunni sem hér er til umfjöllunar; World report on disability, er ætlað að veita þjóðum sem aðild eiga að samningnum leiðbeiningar um innleiðingu hans. Skýrslan er okkur því sérstaklega kærkomin og mun án efa nýtast vel í þeirri vinnu sem framundan er vegna innleiðingarinnar en einnig í tengslum við önnur verkefni sem unnið er að hér á landi í því skyni að bæta aðstæður fólks með fötlun og styrkja réttindi þess.“
Erindi fyrirlesara sem tóku til máls á ráðstefnunni hafa verið birt á vef ráðuneytisins.