Tvíhliða fundir utanríkisráðherra í tengslum við afvopnunarráðstefnu
Í tengslum við ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík, sem lauk fyrr í dag, átti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tvíhliða fundi með háttsettum embættismönnum á sviði öryggis- og afvopnunarmála.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp á ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins um afvopnunarmál og takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna. Fyrr um morguninn átti hann gagnlega fundi með nokkrum af helstu þátttakendum ráðstefnunnar.
Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs og Rose Gottemoeller, varaframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, voru afvopnunarmál og vopnatakmarkanir helst til umræðu en líka sá hluti Trident Juncture-varnaræfingarinnar sem nýverið fór fram á Íslandi. Þá ræddu þau framlag Íslands til fjölmargra verkefna bandalagsins, meðal annars á sviðum sem varða konur, frið og öryggi, upplýsingamál og sprengjueyðingarþjálfun.
„Við Gottemoeller áttum góðan fund um ýmis málefni, bæði þau sem snerta viðfangsefni ráðstefnunar en líka framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins, sérstaklega á þeim sviðum þar sem við stöndum framarlega. Við vorum sammála um að takmarkanir á útbreiðslu gereyðingarvopna væru brýnt viðfangsefni sem aldrei fyrr, ekki síst vegna beitingar efnavopna nýverið,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fund þeirra Gottemoeller.
Guðlaugur Þór og dr. Lassina Zerbo. Mynd: Utanríkisráðuneytið.
Að fundi þeirra Gottemoeller loknum hitt utanríkisráðherra dr. Lassina Zerbo, framkvæmdastjóra skrifstofu samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Þeir ræddu meðal annars endanlega gildistöku samningsins en fleiri ríki þurfa að fullgilda hann til að svo geti orðið. Þá þakkaði Zerbo Íslandi fyrir framlag sitt en hérlendis eru starfræktar eftirlitsstöðvar í tengslum við samninginn.
Loks átti Guðlaugur Þór fund með Andreu Thompson, aðstoðarráðherra í bandaríska utanríkisráðuneytinu á sviði vopnatakmarkana og alþjóðlegra öryggismála. Þar bar hæst umræður um stöðu INF-samningsins um meðaldrægar kjarnaeldflaugar.
Guðlaugur Þór og Andrea Thompson Mynd: Utanríkisráðuneytið