Niðurstöður heildarendurskoðunar á verði lyfja
Áætlað er að breytingar á hámarksverði lyfja vegna lögbundinnar verðendurskoðunar lyfjagreiðslunefndar hafi lækkað lyfjakostnað í heilbrigðiskerfinu um rúman hálfan milljarð króna á ársgrundvelli. Lyfjagreiðslunefnd hefur nýlokið heildarverðendurskoðun á lyfseðilskyldum lyfjum.
Samkvæmt 46. grein lyfjalaga skal lyfjagreiðslunefnd endurmeta reglulega forsendur lyfjaverðs hér á landi í samanburði við sömu lyf á Evrópska efnahagssvæðinu og gera tillögur um breytingar á hámarksverði gefist tilefni til. Í nýlokinni heildarendurskoðun á verði lyfseðilsskyldra lyfja hefur verið byggt á meðalverði lyfja í fjórum viðmiðunarlöndum, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Verðbreytingar á þessu ári sem byggjast á endurskoðun nefndarinnar hafa tekið gildi í áföngum; 1. apríl, 1. maí og 1. júní síðastliðinn. Breytingarnar hafa leitt til umtalsverðs sparnaðar, jafnt fyrir notendur og heilbrigðiskerfið.
Lyfjagreiðslunefnd áætlar að kostnaðarlækkun lyfseðilsskyldra lyfja í apótekum geti numið tæpum 470 milljónum króna á ársgrundvelli. Gert er ráð fyrir að sparnaður Sjúkratrygginga Íslands verði um 312 milljónir króna og sparnaður sjúklinga 156 milljónir króna á ársgrundvelli. Þessar tölur miðast við smásöluverð með virðisaukaskatti.
Áætlaður sparnaður vegna sjúkrahúslyfja er 120 milljónir króna á ársgrundvelli þegar tekið hefur verið tillit til gildandi útboða. Þessar tölur eru reiknaðar á heildsöluverði með virðisaukaskatti.
Heildarsparnaður á ársgrundvelli vegna verðlækkana er talinn nema rúmum hálfum milljarði króna.
Lyfjagreiðslunefnd hefur ákveðið að næsta heildarverðendurskoðun hjá nefndinni fari fram í byrjun árs 2013. Til grundvallar þeirri endurskoðun liggja þá fyrir sölutölur árið 2012 og á verði í desember sama ár.