Stöðuskýrsla um þjónustu við fatlað fólk
Ný skýrsla um þjónustu við fatlað fólk var kynnt í velferðarráðuneytinu í dag. Þar birtist kortlagning á þjónustunni eins og hún var við flutning á ábyrgð hennar frá ríki til sveitarfélaga um síðustu áramót. Skýrslan verður nýtt við mat á faglegum ávinningi flutningsins.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra efndi til kynningarfundarins en til hans var boðið hagsmunaaðilum og ýmsum þeim sem starfa í tengslum við málaflokkinn.
Skýrslan byggist á viðamikilli rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið. Markmiðið var að afla upplýsinga um stöðu málaflokksins svo unnt sé að meta faglegan ávinning af flutningi hans frá ríki til sveitarfélaga.
Rannsóknin var þríþætt. Í fyrsta lagi var gerð könnun meðal fatlaðs fólks sem fékk þjónustu árið 2010 frá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra eða hjá þeim sveitarfélögum sem þegar höfðu tekið að sér að annast þjónustuna samkvæmt samningum. Notendur þjónustu þegar könnunin var gerð voru um 3.300, um 2.000 fullorðnir og um 1.300 börn.
Í öðru lagi var gerð könnun meðal allra starfsmanna svæðisskrifstofa, jafnt þeirra sem störfuðu á skrifstofunum sjálfum, á sambýlum og í þjónustu við fatlað fólk í sjálfstæðri búsetu og allra starfsmanna sem komu að þjónustu við fatlað fólk hjá þjónustusveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum í lok ársins 2010. Þegar könnunin var gerð voru starfsmenn alls um 1.980 talsins.
Í þriðja lagi var gerð eigindleg rannsókn með viðtölum við 30 fatlaða einstaklinga og aðstandendur þeirra. Úrvinnslu þessara viðtala er ekki að fullu lokið og því er skýrslan sem birt var í dag bráðabirgðaskýrsla.