Ánægja með þjónustu opinberra stofnana en tækifæri til umbóta
Á heildina litið er almenningur nokkuð ánægður með þjónustu opinberra stofnana. Þetta sýna niðurstöður þriðja og síðasta áfanga þjónustukönnunar Gallup sem lauk í febrúar sl. Ríkisstjórnin vinnur markvisst að því að bæta almannaþjónustu og er könnunin liður í þeirri vinnu. Niðurstöður fyrsta áfanga könnunarinnar voru birtar í apríl í fyrra og niðurstöður úr öðrum áfanga í júlí sl.
Ánægja með þjónustu opinberra stofnana mælist yfir meðaltali úr þjónustugrunni Gallup en umbótatækifæri eru til staðar, t.d. við að auka hraða þjónustunnar. Þá mælist mikil ánægja með stafræna þjónustu hins opinbera en framboð á slíkri þjónustu er sífellt að aukast í gegnum vefinn island.is. Í þriðja áfanga könnunarinnar voru stjórnendur stofnana og fyrirtækja einnig spurðir um ánægju með opinbera þjónustu.
Myndin sýnir mat almennings, stjórnenda stofnana og fyrirtækja auk meðaltals úr þjónustugrunni Gallups á skalanum 1-5 þar sem 5 er mesta ánægjan.
Þjónusta stofnana: Mat almennings, stjórnenda stofnana og fyrirtækja auk meðaltals úr þjónustugrunni Gallups
Unnið að því að bæta opinbera þjónustu
Sett verður fram stefna stjórnvalda um stafræna þjónustu. Markmiðið ríkisstjórnarinnar er að veita framúrskarandi opinbera þjónustu með öruggum hætti. Þá er stefnunni jafnframt ætlað að miða að styrkri samkeppnisstöðu Íslands um störf í þekkingariðnaði og auka hagsæld með nýsköpun og skilvirkara samfélagi. Aukin stafræn þjónusta mun bæta upplifun fólks í samskiptum við stjórnvöld, spara tíma og skapa tækifæri til hagræðingar.