Nr. 270/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 11. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 270/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23030080
Beiðni [...] um endurupptöku
-
Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 422/2021, dags. 2. september 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júní 2021, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi [...], fd. [...], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefnd kærandi) og barns hennar, [...] (hér eftir nefndur A), fd. [...], ríkisborgara Íraks.
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 158/2022, dags. 27. apríl 2022, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, um að synja umsóknum kæranda og A um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Hinn 23. mars 2023 barst kærunefnd tölvubréf frá umboðsmanni kæranda með fyrirsögninni Beiðni um endurupptöku máls með vísan til ákvörðunar Útlendingastofnunar.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar og A byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
-
Málsástæður og rök kærenda
Í framangreindu tölvubréfi umboðsmanns kæranda kemur fram að hann hafi upphaflega sent erindi 10. október 2022 til Útlendingastofnunar um endurnýjun á alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi kæranda og A hér á landi. Útlendingastofnun hafi metið það svo að þrátt fyrir að umrætt erindi hafi falið í sér beiðni um endurnýjun á leyfi til að njóta hér alþjóðlegrar verndar í kjölfar þess að fyrra leyfi var fellt úr gildi bæri að líta á erindið sem beiðni um endurupptöku á fyrri ákvörðun. Hafi Útlendingastofnun leiðbeint umboðsmanni að beina erindinu til kærunefndar sem æðra stjórnvalds. Því beini kærandi beiðni um endurupptöku málsins beint til kærunefndar. Kærandi telur að málið hafi verið illa upplýst þegar Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun í því á sínum tíma og að fullnægjandi upplýsingar hafi ekki komið fram í kæru til kærunefndar í kjölfar þeirrar ákvörðunar.
Með framangreindu tölvubréfi um beiðni um endurupptöku máls kæranda og A fylgdi greinargerð sem lögð var fram til Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2022. Í greinargerðinni kemur fram að í ágúst 2011 hafi eiginmanni kæranda og föður A verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Í kjölfarið hafi kærandi og A sótt um alþjóðlega vernd hér á landi sem þau hafi fengið 9. júlí 2012. Í desember 2016 hafi kærandi sótt um endurnýjun á dvalarleyfi þeirra og tveggja eldri sona kæranda. Í október 2017 hafi Útlendingastofnun afturkallað alþjóðlega vernd kæranda og A og synjað beiðni um dvalarleyfi. Kærunefnd hafi fellt framangreinda ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi í janúar 2018 og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda og A til nýrrar meðferðar. Í kjölfarið hafi kæranda og A verið veitt tímabundið dvalarleyfi frá 25. janúar 2018 til 25. janúar 2022. Í júní 2021 hafi Útlendingastofnun hafið mál um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda vegna ferðar sem þau hafi farið til Íraks í september 2019. Í október 2021 hafi kærandi lagt fram nýja umsókn um ótímabundið dvalarleyfi fyrir sig og A. Hafi Útlendingastofnun synjað þeirri umsókn í febrúar 2022 og kærunefnd staðfest ákvörðun stofnunarinnar með úrskurði uppkveðnum 27. apríl 2022.
Í greinargerðinni er vísað til þess að ljóst sé að atburðarrásin í málinu sé óvenjuleg og ekki í takt við hefðbundnar umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi telur að fullt tilefni sé til þess að sækja að nýju um alþjóðlega vernd ásamt dvalarleyfi.
Fram kemur að frá því að kærunefnd hafi kveðið upp úrskurð sinn í apríl 2022 hafi aðstæður kæranda og A breyst til hins verra. Sumarið 2022 hafi kærandi, þrátt fyrir að vera hvorki með kennitölu né greiðslugetu, verið lögð inn á spítala þar sem hún hafi misst alla hreyfigetu vegna brjóskloss. Heilsa kæranda hafi ekki batnað og sé læknir hennar að leita að stuðningi sjúkratrygginga til frekari sjúkraþjálfunar. Kærandi telur ekki líklegt að hún fái þá heilbrigðisþjónustu sem hún þurfi á að halda þar sem hún sé án kennitölu.
Þá kemur fram að kærandi og A hafi í engin hús að venda í Írak. Þá hafi ástand mála í Kúrdistan, þar sem þau hafi áður búið, versnað en í byrjun október 2022 hafi borist fréttir af vaxandi ofsóknum gegn Kúrdum í Írak. Kærandi telur að hún og A verði í lífshættu snúi þau aftur til Kúrdistans.
Kærandi telur einnig að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað ferð hennar og A til Íraks árið 2019 nægjanlega vel og því hafi ákvörðun um afturköllun verndar og dvalarleyfis verið tekin án nægjanlegra upplýsinga. Tilgangur ferðar kæranda til Íraks hafi verið að fylgja dauðvona systur sinni frá Svíþjóð til Íraks. Þá hafi eldri sonur kæranda ætlað að vinna í Svíþjóð til að fjármagna ferðina til Íraks og A hafi verið of ungur til að skilja mætti hann eftir hér á Íslandi. Ferðin hafi staðið yfir í þrjár vikur og verið hættuleg fyrir kæranda og A.
Kærandi vísar til þess að í kjölfar veikinda hennar sumarið 2022 hafi umboðsmaður hennar sent bréf til Útlendingastofnunar þar sem óskað hafi verið eftir dvalarleyfi fyrir kæranda og A á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hafi Útlendingastofnun hafnað því þar sem þau hefðu ekki alþjóðlega vernd hér á landi. Hafi Útlendingastofnun leiðbeint kæranda um að sækja um dvalarleyfi án þess að skýra nánar frá því í hverju það myndi felast. Þar sem almennt hvíli leiðbeiningarskylda á opinberum stofnunum samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga hafi umboðsmaður kæranda óskað eftir upplýsingafundi hjá Útlendingastofnun en fengið þau svör að vegna annríkis drægist það í að minnsta kosti 10 daga að erindi hennar yrði tekið fyrir. Kærandi lítur svo á að Útlendingastofnun hafi hafnað að veita henni leiðbeiningar í málinu.
Þá er í greinargerð kæranda vísað til þess að samkvæmt skattaframtali 2021 vegna ársins 2020 hafi kæranda verið úrskurðaðar barnabætur vegna opinberra gjalda árið 2021. Við skoðun á álagningu 2022 vegna ársins 2021 hafi komið í ljós að barnabætur hefðu ekki verið reiknaðar þrátt fyrir að dvalarleyfi hafi verið útgefið til janúar 2022. Kærandi telur að þrátt fyrir að afturköllun Útlendingastofnunar á alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi og staðfestingu kærunefndar á þeirri ákvörðun á síðari hluta ársins 2022 þá sé ljóst að hún eigi í það minnsta rétt á barnabótum. Kærandi fær hins vegar ekki greiddar umræddar bætur vegna afstöðu Útlendingastofnunar.
Að lokum er vísað til þess að A hafi verið í skóla hér á landi síðan í janúar 2019 á grundvelli dvalarleyfisins sem hafi verið veitt árið 2018. Tali A ágæta íslensku og hafi eignast vini hér á landi. Þar sem A hafi ekki kennitölu geti hann ekki skráð sig í íþróttir hjá íþróttafélögum eða fengið greidd út laun vegna vinnu sem hann hafi innt af hendi hjá Vinnuskóla Reykjavíkurborgar. Kærandi telur að við mat á umsókn hennar og A um endurnýjun alþjóðlegrar verndar þeirra og dvalarleyfis verði að skoða vel framangreindar málsástæður og þess að þau hafi verið viðloðandi Ísland í meira eða minna 10 ár og hafi myndað rík tengsl við landið.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í framangreindri greinargerð kæranda kemur fram að hún telji að ferð hennar og A til heimaríkis í september 2019 hafi ekki sætt nægjanlegri rannsókn af hálfu Útlendingastofnunar og því hafi ákvörðun um afturköllun og niðurfellingu verndar og dvalarleyfis verið tekin án nægjanlegra upplýsinga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.
Líkt og rakið er að framan staðfesti kærunefnd með úrskurði nr. 422/2021 ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júní 2021, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda og A. Niðurstaða kærunefndar var meðal annars byggð á þeim forsendum að kærandi og A uppfylltu ekki lengur skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þar sem kærandi hefði skilið við eiginmann sinn að borði og sæng í júlí 2020 og hefði alþjóðleg vernd hans verið afturkölluð á grundvelli a-liðar 1. mgr. 48. gr. sömu laga. Þá var það mat nefndarinnar að kærandi og A teldust hafa sjálfviljug notfært sér á ný vernd heimaríkis síns en þau hefðu samkvæmt gögnum málsins yfirgefið landið árið 2013, um sex mánuðum eftir að þeim hafði verið veitt alþjóðleg vernd, og dvalið í heimaríki allt til ársins 2019. Þá hefðu þau ferðast að nýju til heimaríkis í september 2019. Jafnframt var það mat nefndarinnar að heimildir um aðstæður í heimaríki þeirra væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að ferðalag kæranda og A til heimaríkis í september árið 2019, sem kærandi kveður hafa verið farin í þeim tilgangi að fylgja dauðvona systur sinni þangað, var aðeins einn þáttur af mörgum sem horft var til við mat á því hvort rétt væri að afturkalla alþjóðlega vernd þeirra og dvalarleyfi hér á landi. Grundvallarforsenda þess var sú að alþjóðleg vernd eiginmanns kæranda og föður A hér á landi hafði verið afturkölluð auk þess sem kærandi og A höfðu dvalið í heimaríki sínu árum saman, frá árinu 2013, áður en þau komu aftur hingað til lands árið 2019. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að upplýsingar kæranda í greinargerð um tilgang ferðar sinnar og A til heimaríkis í september 2019 séu ekki þess eðlis að úrskurður kærunefndar nr. 422/2021 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik í máli kæranda og A hafi breyst verulega frá þeim tíma þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Kærandi byggir beiðni um endurupptöku einnig á því að aðstæður kæranda og A hafi breyst til hins verra. Sumarið 2022 hafi kærandi verið lögð inn á spítala þar sem hún hefði misst alla hreyfigetu vegna brjóskloss. Heilsa kæranda hafi ekki batnað og sé læknir hennar að leita að stuðningi sjúkratrygginga svo hún geti farið í frekari sjúkraþjálfun. Kærandi telur ekki líklegt að hún fái þá heilbrigðisþjónustu sem hún þurfi á að halda þar sem hún sé án kennitölu.
Í framangreindum úrskurði kærunefndar vísaði nefndin til þess að kærandi hefði í viðtali hjá Útlendingastofnun 28. október 2020 greint frá því að hún hafi glímt við ótilgreind veikindi. Kærandi hefði hins vegar ekki lagt fram nein heilsufarsgögn um þau veikindi. Þrátt fyrir það taldi nefndin tilefni til að taka til skoðunar heilbrigðiskerfið í Írak. Fram kemur að nefndin hafi meðal annars kynnt sér skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá janúar 2021 er fjallar um heilbrigðiskerfið í Írak. Samkvæmt heimildum í þeirri skýrslu sé ríkisborgurum Íraks tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfi landsins. Var það niðurstaða kærunefndar að ekkert hefði komið fram í málinu sem benti til þess að kærandi eða sonur hennar væru í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa eða glímdu við heilsufarsvandamál sem gætu leitt til þess að þeim yrði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram heilbrigðisgögn um meint brjósklos hennar þá telur kærunefnd ekki tilefni til að draga í efa að hún glími við það heilsufarsvandamál. Líkt og framan greinir hefur kærandi aðgang að heilbrigðiskerfi í heimaríki sínu. Þá getur kærandi, samkvæmt aðgengilegum upplýsingum á veraldarvefnum, fengið meðferð í heimaríki sínum við brjósklosi. Ekkert í framlögðum gögnum með beiðni um endurupptöku bendir til þess að kærandi eða sonur hennar séu í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt sé að rjúfa.
Kærunefnd hefur farið yfir málsástæður kæranda og önnur gögn mála hennar og A hjá nefndinni og er það niðurstaða nefndarinnar að ekkert í þeim bendi til þess að úrskurður kærunefndar nr. 422/2021 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik í máli kæranda og A hafi breyst verulega frá þeim tíma þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Með vísan til alls framangreinds verður beiðni kæranda um endurupptöku mála hennar og A hafnað.
Leiðbeiningar til kæranda
Í framangreindri greinargerð kemur fram að kærandi telji að fullt tilefni sé til þess að sækja að nýju um alþjóðlega vernd ásamt dvalarleyfi. Eins og fram hefur komið er það mat kærunefndar að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um að endurupptaka mál kæranda og A er varðar afturköllun á alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi þeirra er þau nutu á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Telji kærandi að aðstæður hennar og A í heimaríki séu slíkar að þau geti ekki snúið til baka getur kærandi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga hjá Útlendingastofnun. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi og A uppfylli skilyrði umrædds ákvæðis.
Hvað varðar málatilbúnað kæranda um ákvörðun ríkisskattsstjóra að greiða henni ekki barnabætur þá vekur kærunefnd athygli á því að nefndin hefur ekki forræði á því að taka þá ákvörðun til endurskoðunar. Rétt er að leita til skattyfirvalda varðandi kæruleiðbeiningar vegna slíkra ákvarðana.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine his case is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Þorbjörg I. Jónsdóttir Sindri M. Stephensen