Ný sýn - nýjar áherslur ráðherra í öldrunarmálum
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, kynnti í dag áherslur sínar í öldrunarmálum með bæklingnum Ný sýn ? Nýjar áherslur. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun nú þegar hefja vinnu við heildarendurskoðun laga um málefni aldraðra til að skapa umgjörðina um breyttar áherslur í öldrunarþjónustunni. Markmið með endurskoðun laganna eru meðal annarra að skýra betur verkaskiptingu og ábyrgð þeirra sem sinna öldrunarþjónustu og endurskilgreina með þessu stjórnskipulag öldrunarþjónustunnar.
Gert er ráð fyrir að heimahjúkrun verði aukin og efld þannig að unnt sé að veita hana um kvöld, helgar og nætur þegar þess gerist þörf. Miðað er við að á stærstu þéttbýlisstöðum landsins verði komið á fót skipulagðri vaktþjónustu allan sólarhringinn. Þá er gert ráð fyrir að þjónusta heilsugæslunnar við aldraða verði efld og mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fela heilsugæslunni að efla enn frekar öldrunarþjónustu á forsendum heilsugæslunnar m.a. með aukinni áherslu á heilsueflandi heimsóknir og reglubundnum heimsóknum heimilislækna til aldraðra sem njóta heimahjúkrunar.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra felur Landspítala-háskólasjúkrahúsi að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða sem tengist rekstri spítalans og stefnt er að því að fjölga dagvistarrýmum. Hvíldarrýmum verður fjölgað og komið á fót öldrunarlækningum og sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu við aldraða við tiltekin sjúkrahús eða heilbrigðisstofnanir í öllum landshlutum.
Á öldrunarsviði LSH verður komið á fót geðdeild fyrir aldrað fólk með geðsjúkdóma og verður hlutverk deildarinnar einkum að sinna fólki með geðsjúkdóma sem ekki hefur heilabilun. Áhersla verður lögð á að deildin sé meðferðardeild sem miðar að útskrift sjúklinga að lokinni meðferð.
Í aðfararorðum að bæklingnum Ný sýn ? Nýjar áherslur segir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra m.a.: ?Uppbygging og skipulag öldrunarþjónustu þarf að miða að því að styðja aldraða til að halda sjálfstæði og virðingu. Til þess er nauðsynlegt að efla þjónustu við aldraða sem gerir þeim kleift að búa sem lengst á eigin heimili. Möguleg úrræði eru margvísleg. Í fyrsta lagi legg ég áherslu á að stórefla heimahjúkrun og styðja heilsugæsluna til að sinna öldruðum í auknum mæli. Í öðru lagi legg ég áherslu á að fjölga til muna dagvistarrýmum og hvíldarinnlögnum sem er hvoru tveggja mikilvægur stuðningur við hina öldruðu sjálfa og aðstandendur þeirra. Í þriðja lagi legg ég áherslu á að byggja upp og efla öldrunarlækningar og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu fyrir aldraða um allt land. Góð þekking á þessu sviði inni á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum er mikilvæg viðbót við þjónustu fyrir aldraða í heimahúsum jafnframt því að sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir með þessa þekkingu geta verið öldrunarstofnunum í sínu umdæmi sterkur bakhjarl og veitt þeim faglegan stuðning.?
Sjá nánar bæklinginn: Ný sýn - nýjar áherslur (pdf skjal 1230 Kb)