Samkomulag á Landspítala
Tómas Zoëga, geðlæknir, mun gegna starfi yfirlæknis hjá Landspítala með sama hætti og áður. Samkomulag um þetta tókst í dag. Þetta kemur fram á vefsíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Í fréttinni segir: “Náðst hefur samkomulag milli forstjóra LSH og Tómasar Zoëga um að Tómas haldi áfram yfirlæknisstarfi sínu við geðsvið spítalans. Samkomulagið er gert í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli Tómasar gegn LSH. Mun Tómas gegna starfi yfirlæknis með sama hætti og áður.
Framkvæmdastjórn LSH tók málið upp að nýju að beiðni formanns læknaráðs LSH og hefur fullt samráð verið haft við stjórn læknaráðs um lyktir málsins.
Stjórn læknaráðs áréttar jafnframt fyrri stuðning við þá stefnu LSH að yfirlæknar sérgreina skuli sinna fullu starfi við spítalann. Eru stjórn læknaráðs og framkvæmdastjórn LSH sammála um að fyrrnefnt samkomulag hafi ekki áhrif á þá stefnu.
Forstjóri, framkvæmdastjóri lækninga og formaður læknaráðs hafa kynnt samkomulagið fyrir stjórn læknaráðs og telja aðilar málinu lokið.”