Hoppa yfir valmynd
18. desember 1996 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 80/1996

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J ÖL E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 80/1996

 

Skipting kostnaðar: Viðgerð ásvalagólfi.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 3. október 1996, óskaði A, til heimilis að X nr. 9, álits nefndarinnar vegna ágreinings er risið hafði milli hans og húsfélagsins að X nr. 9.

Málið var lagt fram á fundi kærunefndar 9. október og samþykkt að fara fram á frekari upplýsingar. Svar álitsbeiðanda við bréfi kærunefndar barst þann 23. október og var lagt fram á fundi nefndarinnar samdægurs. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús var gagnaðila gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum. Greinargerð gagnaðila, dags. 18. nóvember, var lögð fram á fundi 20. s.m. og málið þá einnig tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Fjölbýlishúsið X nr. 9, var byggt árið 1986. Í húsinu eru tíu eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á 3. hæð og fylgja íbúð hans svalir sem innbyggðar eru í þak hússins. Gólf svalanna er þannig jafnframt þakflötur næstu hæðar fyrir neðan.

Ágreiningur aðila lýtur að skiptingu kostnaðar vegna viðgerðar á þakdúk á umræddu svalagólfi.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að gagnaðila verði talið skylt að greiða kostnað við viðgerð á þakdúk á svalagólfi álitsbeiðanda.

 

Í álitsbeiðni kemur ekkert nánar fram um umrædda viðgerð eða frágang á svalagólfinu að öðru leyti. Kærunefnd óskaði því eftir nánari upplýsingum frá álitsbeiðanda um þessi atriði. Í svarbréfi kemur fram að viðgerð á umræddum svölum verði þannig háttað að fjarlægja þurfi dúk af gólfinu og stálkant sem festi dúkinn ca. 10-15 cm upp á veggina. Síðan þurfi að leggja nýjan dúk á gólfið og festa með stálkanti upp á veggina. Einnig þurfi að leiða þakniðurfall, sem leitt hafi verið niður á svalagólfið, út fyrir svalirnar og niður húsvegginn. Ofan á dúkinn komi síðan drenfilter og trégrind sem gengið verði á.

Af hálfu gagnaðila er því haldið fram að um séreign álitsbeiðanda sé að ræða. Vísað er til 8. tl. 5. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, þar sem segir að innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala sé séreign. Telur gagnaðili að af þessu ákvæði leiði að eiganda viðkomandi svala beri að halda við eign sinni.

 

III. Forsendur kærunefndar.

Samkvæmt 8. tl. 5. gr. laga nr. 26/1994 telst innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala vera séreign viðkomandi íbúðareiganda. Kærunefnd telur að í þessari reglu felist að eiganda íbúðar með svölum beri að annast allt venjulegt viðhald á yfirborði þeirra. Allt annað viðhald fellur hins vegar undir sameign fjöleignarhúss, sbr. 4. tl. 8. gr. sömu laga, enda verði viðkomandi viðgerð ekki rakin beint til vanrækslu íbúðareiganda á viðhaldsskyldu sinni. Hið sama gildir um svalagólf sem jafnframt er þak.

Kærunefnd telur að af fyrirliggjandi gögnum megi ráða aðumræddur dúkur á svalagólfinu hafi ekki slitstyrk heldurþurfi slitvörn ofan á hann. Dúkurinn má þannig ekki vera ysta byrði, heldur verður eitthvað að vera ofan á honum til hlífðar. Í því tilviki sem hér um ræðir þjónar trégrind hlutverki slitvarnar og myndar þannig gólfflöt svalanna, þ.e. yfirborð þeirra.

Það er því álit kærunefndar að umræddur þakdúkur sé sameign og kostnaður vegna viðgerðar á honum sé sameiginlegur kostnaður allra eigenda hússins. Slíkur kostnaður skiptist í samræmi við hlutfallstölur eignarhluta í húsinu, sbr. A-lið 45. gr. laga um fjöleignarhús nr.26/1994.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að kostnaður við viðgerð á þakdúk á svalagólfi eigi að skiptast milli eigenda alls hússins í samræmi við hlutfallstölur eignarhluta þeirra.

 

 

Reykjavík, 18. desember 1996.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta