111 verkefni fá úthlutað úr Tónlistarsjóði í seinni úthlutun ársins
Úthlutað er í fyrsta sinn úr öllum deildum nýs Tónlistarsjóðs sem stofnaður var í samræmi við ný tónlistarlög sem sett voru í maí á síðasta ári. Auglýst var eftir umsóknum í sjóðinn í byrjun apríl og rann fresturinn út 21. maí s.l.
Hlutverk Tónlistarsjóðs er m.a. að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn skal einnig stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis. Sjóðnum er skipt í fjórar deildir sem allar hafa ólíkar áherslur og er þeim ætlað að ná til breiðs hóps umsækjenda og styrkja þannig tónlistarlíf landsins á fjölbreyttum og faglegum grunni.
Alls bárust 364 umsóknir og var heildarupphæð styrkumsókna 631.093.159 kr. Til úthlutunar voru 97.324.500 kr. sem veitt var til 111 verkefna sem skiptast svo á milli fjögurra deilda sjóðsins:
Frumsköpun og útgáfa
192 umsóknir sóttu um 260.661.059. Úthlutað var 48.712.000 til 62 verkefna. Hæstu verkefnastyrkina hlutu Daníel Bjarnason, 2,9 milljónir og Nýdönsk, 2 milljónir.
37% úthlutaðrar upphæðar runnu til verkefna í sígildri- og samtímatónlist, 25% til popp, rokk og indí og rest til annarra tónlistarstefna. Árangurshlutfall umsókna er 33%, 36% í sígildri- og samtímatónlist, 25,5% hjá popp, rokk og indí og minna hjá öðrum tónlistarstefnum.
Lifandi flutningur
97 umsóknir sóttu um 133.183.356. Úthlutað var 14.212.500 til 22 verkefna. Kammersveitin Elja hlaut hæsta verkefnastyrkinn eða 1,5 milljón og 1 milljón hlutu Mugison, Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, Helgi Rafn Ingvarsson og Hljómsveit Akureyrar.
84% úthlutaðrar upphæðar runnu til verkefna í sígildri- og samtímatónlist, 10% til djass og blús og rest til annarra tónlistarstefna. Árangurshlutfall umsókna er 24% sem dreifist jafnt á milli tónlistarstefna og er því úthlutun í samræmi við fjölda umsókna sem bárust.
Gerður var einn langtímasamningur, samningur til tveggja ára:
- Kammerhópurinn Nordic Affect hlýtur 2.500.000 í langtímastyrk til tveggja ára fyrir tónleikadagskrá hópsins árin 2025-2026.
Þróun og innviðir
55 umsóknir sóttu um 204.658.065. Úthlutað var 25.600.000 til 18 verkefna. Hæstu verkefnastyrkina upp á 1.000.000 hlutu VibEvent, OPIA Community, Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, MetamorPhonics, WindWorks í Norðri, Reykjavík Early Music Festival, Múlinn Jazzklúbbur, LungA, Ascension MMXXIV og BIG BANG.
37% úthlutaðrar upphæðar runnu til verkefna sem vinna þvert á tónlistarstefnur, 28% til popp, rokk og indí og rest til annarra tónlistarstefna, sem er í samræmi við fjölda umsókna eftir tónlistarstefnum, en heildarárangurshlutfall umsókna er 21%.
Gerðir voru þrír langtímasamningar:
Samningur til þriggja ára:
- Iceland Airwaves hlýtur 6.000.000 í langtímastyrk til þriggja ára, 2024-2026, vegna verkefnisins „Sjálfbært showcase - framtíðarstefna Iceland Airwaves“.
Samningar til tveggja ára:
- Tónskáldafélag Íslands hlýtur 4.000.000 í langtímastyrk til tveggja ára, 2025-2026 vegna Myrkra músíkdaga.
- Hlutmengi hlýtur 3.000.000 í langtímastyrk til tveggja ára, 2024-2025 vegna tónleikadagskrár í Mengi.
Útflutningur - markaðsstyrkir
20 umsóknir sóttu um 32.590.629. Úthlutað var 8.800.000 til 9 verkefna. Hæstu verkefnastyrkina hlutu ADHD upp á 2 milljónir og Viibra upp á 1,5 milljón.
45% úthlutaðrar upphæðar runnu til verkefna í djass og blús, 26% til popp, rokk og indí og rest til annarra tónlistarstefna, sem er í samræmi við fjölda umsókna eftir tónlistarstefnum, en heildarárangurshlutfall umsókna er 45%.