Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný reglugerð um verkefnisstjórn og áætlanir á sviði loftslagsmála

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað reglugerð um verkefnisstjórn og áætlanir á sviði loftslagsmála. Reglugerðinni er ætlað er að styrkja stjórnsýslu loftslagsmála, sem einnig er markmiðið við yfirstandandi heildarendurskoðun laga um loftslagsmál, nr. 70/2012.

Í lögum um loftslagsmál er kveðið á um að ráðherra beri ábyrgð á gerða tveggja áætlana á sviði loftslagsmála. Annars vegar aðgerðaáætlun í loftslagsmálum (aðgerðaáætlun) og hins vegar áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum (aðlögunaráætlun). Samkvæmt lögunum skipar ráðherra verkefnisstjórn vegna gerðar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem mótar tillögur að aðgerðum og hefur umsjón með að þeim sé hrundið í framkvæmd.

Í nýrri reglugerð er gert ráð fyrir að ný verkefnisstjórn loftslagsaðgerða hafi umsjón með gerð aðgerðaáætlunar í loftlagsmálum og aðlögunaráætlunar. Gert er ráð fyrir að fulltrúar allra ráðuneyta sitji í verkefnisstjórn auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mikilvægt er að öll ráðuneyti hafi aðkomu að mótun og samþykkt loftslagsaðgerða í ljósi þess að loftslagsmálin krefjast breiðs eignarhalds. Í reglugerðinni er kveðið nánar um hlutverk og skipulag aðlögunaráætlunar og aðkomu starfsfólks Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands að vinnu verkefnastjórnar og gerð aðgerðaráætlunar og aðlögunaráætlunar. Fráfarandi verkefnisstjórn lauk störfum í vor við uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem kynnt var þann 14. júní sl. Aðgerðaáætlunin hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og mun ný verkefnisstjórn yfirfara innkomnar athugasemdir og ábendingar vegna áætlunarinnar.

Undirbúningur aðlögunaráætlunar hefur verið í gangi undanfarin ár og mun verkefnisstjórn einnig hafa annast útgáfu fyrstu áætlunar stjórnvalda um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum.

Ráðuneytið þakkar fyrir þær umsagnir sem bárust við reglugerðina í samráðsgátt stjórnvalda frá Land og skógi, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Vegagerðinni.  Að loknu samráði var bætt við 4. gr. reglugerðar að viðeigandi stofnanir og aðrir lögaðilar geti haft áheyrnarfulltrúa á fundum verkefnisstjórnar eftir atvikum og óskum fulltrúa verkefnisstjórnar.

Reglugerð Nr. 786/2024 um verkefnisstjórn vegna gerðar og eftirfylgni áætlana á sviði loftslagsmála


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum