Tvö embætti hæstaréttardómara laus til umsóknar
Innanríkisráðuneytið hefur auglýst tvö embætti dómara við Hæstarétt laus til umsóknar. Umsóknir skulu berast ráðuneytinu eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi. Auglýsingin fer hér á eftir.
Innanríkisráðuneytið auglýsir tvö embætti dómara við Hæstarétt Íslands laus til umsóknar sbr. lög um dómstóla, nr. 15/1998. Skipað verður í embættin frá og með 1. október 2012, eða eftir að nefnd um hæfni dómara hefur lokið starfi sínu í samræmi við 4. gr. a laga um dómstóla nr. 15/1998 og reglur um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti nr. 620/2010. Laun eru samkvæmt ákvörðun kjararáðs.
Umsækjendur skulu fullnægja skilyrðum 2. og 3. mgr. 4. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998. Í samræmi við 4. gr. reglna nr. 620/2010 er áskilið að í umsókn komi fram upplýsingar um 1) menntun og framhaldsmenntun, 2) reynslu af dómstörfum, 3) reynslu af lögmannsstörfum, 4) reynslu af stjórnsýslustörfum, 5) reynslu af fræðistörfum, s.s. kennslu og öðrum akademískum störfum og upplýsingar um útgefnar ritrýndar greinar og bækur, fræðilegir fyrirlestrar o.s.frv., 6) reynslu af stjórnun, 7) reynslu af öðrum aukastörfum sem nýtast dómaraefni, s.s. vinnu í tengslum við undirbúning lagasetningar o.fl., 8) upplýsingar um almenna og sérstaka starfshæfni, 9) upplýsingar um andlegt atgervi og sjálfstæði í vinnubrögðum og 10) upplýsingar um þrjá fyrrverandi/núverandi samstarfsmenn/yfirmenn sem geta veitt dómnefnd bæði munnlega og skriflega upplýsingar um störf og samstarfshæfni umsækjanda, sbr. 5. mgr. 5. gr. reglna nr. 620/2010 og 11) aðrar upplýsingar sem varpað geta ljósi að faglega eiginleika og færni umsækjanda sem máli skiptir fyrir störf hæstaréttardómara.
Umsóknir óskast sendar til innanríkisráðuneytisins, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík og á netfangið [email protected]. Með umsókn skal fylgja eftir því sem við á: 1) afrit af prófskírteinum, 2) afrit dóma í munnlegum fluttum málum sem umsækjandi hefur samið atkvæði í síðustu 12 mánuði, 3) afrit af stefnu og greinargerð í málum sem umsækjandi hefur samið og flutt munnlega síðustu 12 mánuði, 4) afrit af úrskurðum stjórnvalda sem umsækjandi hefur samið síðustu 12 mánuði og 5) útgefin fræðirit og ljósrit af tímaritsgreinum umsækjenda. Þess er óskað að þær tímaritsgreinar sem hafa verið ritrýndar verði auðkenndar. 6) Önnur gögn sem varpa ljósi á faglega færni umsækjanda til starfa sem hæstaréttardómari.
Til þess að hraða afgreiðslu umsókna og bréfaskiptum, er áskilið að umsækjendur gefi upp netfang sem notað verður til að eiga öll samskipti við umsækjendur. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir.
Umsóknir skulu berast innanríkisráðuneytinu eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi.