Álit, að því er tekur til skóladagatala tveggja grunnskóla í Kópavogi
Mennta- og menningarmálaráðuneytið fékk erindi dags. 7. maí 2014 með ósk frá XX og annað erindi dags. 9. maí 2014 frá XX með ósk um að úrskurða um skóladagatal skólanna fyrir skólaárið 2014-2015, en skólanefnd Kópavogsbæjar staðfesti ekki skóladagatölin vegna þess að þau, að hluta til, stangast á við ákvörðun sveitarstjórnar um samræmda skipulagsdaga á næsta skólaári. Vakin er athygli á því að ráðuneytið hefur áður svarað spurningum frá Kópavogi um heimildir sveitarstjórnar til samræmingar á skipulagsdögum leik- og grunnskóla bæjarins, sbr. bréf dags. 26. mars 2013.
Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 bera sveitarstjórnir ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélaga. Í 28. gr. grunnskólalaga segir að skólastjóri ákveði nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð. Þar segir einnig að sveitarstjórnum er heimilt að samræma tiltekna leyfisdaga innan skólaársins fyrir alla skóla í sveitarfélaginu, að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Í lögskýringargögnum með lögum um breytingu á lögum um grunnskóla nr. 91/2011, þar sem þetta ákvæði kom inn í lög um grunnskóla, stendur um starfstíma skóla, að sveitarstjórnum sé heimilt að samræma tiltekna leyfisdaga innan skólaársins fyrir alla skóla í sveitarfélaginu, að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Þótt sveitarstjórnir hafi í raun það vald að samræma vetrarleyfi í grunnskólum sveitarfélagsins var talið rétt að lögbinda þessa heimild, ekki síst til að undirstrika mikilvægi þess að hafa samstarf um slíkt við hagsmunaaðila. Þar er t.d. átt við skólaráð grunnskóla, foreldraráð leikskóla og skólameistara framhaldsskóla ef áhugi er á víðtæku samstarfi um leyfisdaga.
Í 6. grein grunnskólalaga segir að í hverju sveitarfélagi skuli í umboði sveitarstjórnar starfa skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni. Eitt af meginhlutverkum skólanefndar er að staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert og skólanámskrá einstakra skóla. Í 4. grein laga um leikskóla segir að nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fari með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar.
Í 8. grein grunnskólalaga segir að við grunnskóla skuli starfa skólaráð sem sé samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið.
Í 29. grein grunnskólalaga segir að í hverjum grunnskóla skuli gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara. Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitarstjórnar um fyrirkomulag skólahalds. Skólastjóri er ábyrgur fyrir útfærslu þessara ákvæða og einnig fyrir umfjöllun í skólanum og í skólaráði og að gera skólanefnd grein fyrir því með hvaða hætti áætlanir hafi staðist. Starfsáætlun og skólanámskrá skulu vera aðgengilegar öllum aðilum skólasamfélagsins.
Samanber ofangreind lagaákvæði er ákvörðun um skipulagsdaga á hendi skólastjóra en sveitarstjórn getur, sem ábyrgðaraðili skólahalds í sveitarfélaginu og í krafti yfirstjórnunarheimilda sinna beint tilmælum til skólastjórnenda að samræma skóladagatal innan sveitarfélagsins. Skólastjórnendum er rétt að hafa slík tilmæli til hliðsjónar við ákvörðun um skipulagsdaga. Eðlilegt er að sveitarstjórn taki mið af þeirri málsmeðferð sem lög um grunnskóla gera ráð fyrir við ákvörðunartöku sem þessa og að gætt sé lögbundins samráðs við hagsmunaaðila skólasamfélagsins. Samkvæmt grunnskólalögum er því sveitarstjórnum heimilt að samræma skipulagsdaga fyrir alla grunnskóla í sveitarfélaginu að því gefnu að haft sé samráð við hagsmunaaðila.
Í lögum um grunnskóla segir ekkert um það með hvaða hætti eigi að fara með mál af þessu tagi ef um ágreining milli aðila er að ræða og ráðuneytið hefur ekki úrskurðarvald í málum af þessu tagi. Ráðuneytið hefur því ekki heimild til að afturkalla ákvörðun sveitarstjórnar.