Úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2014. Alls er úthlutað 132 milljónum króna til 11 verkefna sem eiga að stuðla að bættum aðbúnaði aldraðra og bæta öryggi og gæði öldrunarþjónustunnar.
Auglýst var eftir umsóknum í lok maí í vor og umsóknarfrestur rann út 13. júní. Alls bárust 23 umsóknir til margvíslegra verkefna úr öllum heilbrigðisumdæmum landsins utan heilbrigðisumdæmis Austurlands. Af þeim umsóknum sem var hafnað voru sex sem uppfylltu ekki skilyrði til úthlutunar samkvæmt reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra.
Hæsta framlagið að þessu sinni rennur til Öldrunarheimilis Akureyrar, alls 52 milljónir króna, vegna endurbóta á húsnæði, jafnt einstaklingsrýmum og sameiginlegu rými. Úthlutunin sem nemur allt að 40% af heildarkostnaði áætlaðra framkvæmda er veitt með fyrirvara um fjármögnun sveitarfélagsins og samþykki byggingaryfirvalda. Annað hæsta framlagið er vegna hjúkrunarheimilisins Dalbæjar á Dalvík þar sem skipta þarf um þak á húsinu og ráðast í viðgerðir á útveggjum. Framlagið er veitt með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar sem mun fjármagna meiri hluta framkvæmdarinnar. Þriðja hæsta framlagið fær Embætti landlæknis til þróunar á nýjum miðlægum gagnagrunni fyrir umsóknir og stöðu biðlista í öldrunarþjónustu og vegna úrbóta á RAI-skráningarkerfinu í tengslum við önnur skráningarkerfi þar sem samnýting upplýsinga er mikilvæg.
Algengt að umsóknir uppfylli ekki kröfur
Lögbundin stjórn stýrir Framkvæmdasjóði aldraðra, leggur mat á umsóknir um framlög úr honum og gerir tillögu til heilbrigðisráðherra um úthlutanir. Í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra er tilgreint til hvers konar verkefna er heimilt að úthluta fjármunum úr sjóðnum. Í reglugerðinni er jafnframt kveðið á um þau skilyrði sem umóknir þurfa að uppfylla. Við umfjöllun stjórnar um umsóknir að þessu sinni vakti athygli að margar þeirra uppfylltu ekki kröfur sem gerðar eru til umsókna og/eða sótt var um framlög til verkefna sem falla ekki að hlutverki Framkvæmdasjóðsins eins og því er lýst í reglugerð. Umsóknir bárust eftir að umsóknarfrestur var útrunninn, í sumum tilvikum vantaði áskilin gögn og í þónokkrum tilvikum var sótt um vegna framkvæmda sem er lokið en framlag er einungis ætlað til verka sem eru fyrirhuguð en ekki hafin. Umsóknum sem bárust of seint var hafnað og eins þeim sem samræmdust ekki hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í tilvikum þar sem gögn vantaði var haft samband við umsækjendur til að afla þeirra en ekki var bætt úr í öllum tilvikum.