Hoppa yfir valmynd
31. október 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 420/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 420/2023

Þriðjudaginn 31. október 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. september 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. ágúst 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 13. febrúar 2022 og var umsóknin samþykkt 31. mars sama ár. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði hafnað atvinnuviðtali. Í kjölfar frekari skýringa frá kæranda var máls hans tekið fyrir að nýju. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hans væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. september 2023. Með bréfi, dags. 5. september 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 28. september 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. október 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 3. október 2023 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréf úrskurðarnefndar, dags. 5. október 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að honum hafi verið boðið í atvinnuviðtal en vinnuveitandinn hafi ekki hringt heldur eingöngu sent smáskilaboð. Kærandi hafi ekki fengið skilaboðin og því hafi hann ekki farið í viðtalið. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun staðfestingu frá Nova um að hann hafi ekki fengið skilaboðin en það hafi ekki breytt ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur til hans. Kærandi hafi talað við atvinnurekandann daginn eftir að hann hafi komist að viðtalinu og hann hafi átt að útskýra að um misskilning væri að ræða. Í stað þess að útskýra hafi atvinnurekandinn sent skjáskot af skilaboðunum, á íslensku, sem hann hafi átt að hafa sent kæranda sem hafi gert hans aðstæður enn verri. Jafnvel þótt kærandi hefði fengið þessi skilaboð gæti hann ekki skilið þau því hann tali ekki íslensku og það komi fram í ferilskrá hans.

Kærandi sé með sönnun frá Nova um símtalasögu hans. Kærandi hafi fengið nokkur símtöl og skilaboð 3., 4. og 12. júlí 2023 en ekki neitt þann 10. júlí sem sé sá dagur sem skilaboðin hafi verið send. Allir atvinnurekendur sem hafi áður haft samband við kæranda hafi hringt í hann. Í fyrsta skiptið sem einhver sendi honum skilaboð séu atvinnuleysisbætur til hans stöðvaðar. Strax daginn eftir að kærandi hafi fengið þessar upplýsingar hafi hann einnig farið til Vinnumálastofnunar og sýnt starfsmanni símtalaskrá sína. Starfsmaðurinn hafi sagt kæranda að um misskilning væri að ræða og að þetta yrði ekkert vandamál. Kærandi hafi svo reynt að útskýra mál sitt en án árangurs.

Vinnumálastofnun hafi einu sinni hringt í kæranda og sagt að hann yrði alltaf að svara í símann vegna þess að eitthvað fyrirtæki hafi hringt í hann og hann ekki svarað. Stundum sé kærandi á salerninu þegar einhver hringi, stundum sé ekki neitt samband á símanum, stundum noti kærandi ekki símann en hann hringi alltaf til baka þegar einhver hringi í hann. Vinnumálastofnun hafi sagt að þegar stofnunin sendi ferilskrá hans þurfi hann að horfa á símann helst allan sólarhringinn og ekki svara öðrum símtölum til að teppa ekki línuna ef vinnuveitandi hringi. Kærandi sé ekki með vinnu en hann vilji vinnu því honum finnist Vinnumálastofnun koma fram við sig eins og þræl, það sé njósnað um hann og honum sé stjórnað.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar vísar kærandi til þess að hann hafi sagt Vinnumálastofnun að hann væri að klára nám í bifvélavirkjun en það hafi verið fyrir um 10 árum síðan. Þekking kæranda á bílum sé næstum engin, bara það sama og allir viti. Kærandi hafi sagt Vinnumálastofnun að hann hefði aldrei unnið sem bifvélavirki, hann hafi einungis verið í starfsnámi í eina klukkustund á viku í tvö ár þegar hann hafi verið í skóla fyrir löngu síðan. Núna séu bílar allt öðruvísi og hann hafi ekki næga þekkingu til að vera bifvélavirki. Ef einhver geti ráðið kæranda og kennt honum geti hann reynt. Vinnumálastofnun sendi ferilskrá kæranda vegna starfa eins og bifvélavirki með reynslu. Kærandi hafi verið í tvo daga í einu fyrirtæki og hafi reynt en fyrirtækið hafi sagt að kærandi þyrfti að vita meira til að vinna sjálfur á verkstæði. Kærandi hafi því tilkynnt Vinnumálastofnun að senda ekki ferilskrá hans vegna starfa bifvélavirkja en samt geri stofnunin það. Enginn vilji ráða kæranda sem bifvélavirkja með hans reynslu. Fyrirtæki þurfi einhvern sem geti lagað bíla sjálfur en það geti kærandi ekki. Hann tilgreini þetta á ferilskrá sinn eingöngu vegna þess að það sé hans saga.

Kærandi hafi greint Vinnumálastofnun frá ástæðu þess að hann hafi ekki farið í viðtal hjá B. Fyrirtækið hafi ekki hringt í kæranda heldur eingöngu sent skilaboð sem hann hafi ekki fengið og því ekki vitað um viðtalið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 13. febrúar 2022. Með erindi, dags. 31. mars 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 12. júlí 2023 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði ekki mætt í atvinnuviðtal hjá B en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun. Með erindi, dags. 14. júlí 2023, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á atvinnuviðtali hjá B. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að ef atvinnuleitandi hefði hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Vinnumálastofnun hafi borist skýringar kæranda þann 16. júlí 2023. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi ekki fengið boð í umrætt atvinnuviðtal. Þann 18. júlí 2023 hafi borist skýringar í formi tölvupósts frá atvinnurekanda, B, vegna höfnunar kæranda á boði í atvinnuviðtal. Atvinnurekandi hafi staðfest að kærandi hefði verið boðinn í atvinnuviðtal á starfsstöð fyrirtækisins en ekki mætt. Þá liggi jafnframt fyrir afrit af smáskilaboðum atvinnurekanda sem hafi verið sent á skráð símanúmer kæranda þar sem tímasetning atvinnuviðtals hafi verið tilgreind.

Þann 27. júlí 2023 hafi borist frekari skýringar kæranda á höfnun á atvinnuviðtali. Kærandi hafi greint frá því að hafa ekki fengið neitt formlegt boð í atvinnuviðtal. Því til stuðnings hafi kærandi sagst ekki hafa fengið neitt símtal frá atvinnurekanda. Með erindi, dags. 1. ágúst 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hans vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá B hefðu ekki verið metnar gildar. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga

Þann 3. ágúst 2023 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar frá kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali. Í skýringum kæranda komi fram að enginn hefði hringt í hann þann 10. júlí 2023. Kærandi hafi jafnframt lagt fram staðfestingu frá fjarskiptafyrirtæki skýringum sínum til stuðnings. Með erindi, dags. 16. ágúst 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að það væri niðurstaða stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hans, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöður þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir leiti nýrra starfa. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða höfnunar á því að fara í atvinnuviðtal. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram í athugasemdum við 57. gr. laganna að mikilvægt þætti að sömu áhrif fylgi því að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar og ákvörðun um að taka ekki starfi sem bjóðist. Atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og því megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við að hafna starfi.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt í boðað atvinnuviðtal hjá B. Skýringar kæranda lúti að því að hann hafi ekki fengið boð í umrætt atvinnuviðtal. Því komi til álita hvort kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali sem honum hafi boðist með sannanlegum hætti. Vinnumálastofnun meti sem svo að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali sem honum hafi sannarlega staðið til boða. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnu til þess að staðfest sé af hálfu atvinnurekanda, B, að kærandi hafi fengið boð í atvinnuviðtal en hafi ekki mætt. Meðal gagna í máli þessu sé skjáskot af boðun atvinnurekanda til kæranda þar sem hann hafi verið boðaður í viðtal 12. júlí klukkan 10:20. Þá liggi jafnframt fyrir að Vinnumálastofnun hafi sent atvinnurekanda, B, ferilskrá kæranda þann 5. júlí 2023. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið boðaður með sannarlegum hætti í atvinnuviðtal hjá B sem kærandi hafi ekki mætt í.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað að mæta í boðað atvinnuviðtal. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.

Kæranda hafi verið gert að sæta biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann 5. janúar 2021. Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna skuli sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57. til 59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54 og 55. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr., ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum. Viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. ágúst 2023, hafi átt sér stað á sama tímabili samkvæmt 29. gr. laganna og því hafi komið til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga kæranda. Kærandi skuli því ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:

„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda miðlað í starf hjá B 5. júlí 2023. Fyrirtækið kveðst hafa boðað kæranda í atvinnuviðtal með smáskilaboðum 10. júlí 2023 og lagði fram skjáskot því til staðfestingar. Kærandi hefur neitað því að hafa fengið skilaboðin og hefur lagt fram staðfestingu frá farsímafyrirtæki sínu þess efnis að engin notkun hafi verið á símanúmeri hans þann dag.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi sannanlega verið boðaður í atvinnuviðtal og hann ekki sinnt því, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Úrskurðarnefndin telur að þær upplýsingar sem kærandi lagði fram frá farsímafyrirtækinu Nova hafi gefið Vinnumálastofnun tilefni til að kanna hvort skilaboðin hafi sannanlega verið afhent í síma kæranda.

Í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Með því að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði án þess að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar og gögn var þeirri skyldu ekki fullnægt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. ágúst 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta