Nr. 297/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 15. ágúst 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 297/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU22070017
Beiðni [...] um endurupptöku
I. Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU21120036, dags. 3. febrúar 2022, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. nóvember 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 7. febrúar 2022. Hinn 14. febrúar 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og synjaði kærunefnd beiðni kæranda 24. febrúar 2022 með úrskurði kærunefndar í stjórnsýslumáli nr. KNU22020024. Hinn 5. júlí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð og fylgigögnum. Þá barst kærunefnd viðbótargreinargerð 3. ágúst 2022.
Endurupptökubeiðni kæranda er byggð á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku annars vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin og hins vegar á því að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Til grundvallar beiðni sinni hafi kærandi lagt fram ný læknisfræðileg gögn sem varpi betur ljósi á heilsufar hans, sbr. 1. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggi að kærandi hafi verið fluttur með sjúkraflutningi á bráðamóttöku geðsviðs 28. júní 2022. Bersýnilegt sé að kærandi glími við andlega erfiðleika, líkt og hann hafi greint frá í viðtali hjá Útlendingastofnun 16. september 2021. Þrátt fyrir að hann hafi borið því við að líðan hans væri betri á Íslandi sé ekki hægt að leggja til grundvallar að sú afstaða haldist sama hvað dynji á kæranda á meðan á málsmeðferð á umsókn hans stendur fyrir íslenskum stjórnvöldum. Þá liggi fyrir að læknir hafi talið ómögulegt að greina hann með fullnægjandi hætti. Ekki sé hægt að leggja til grundvallar að heilsa hans sé góð þegar óvíst sé nákvæmlega hvert umfang veikinda hans sé.
Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt vottorði læknis hafi niðurstöður blóðrannsókna kæranda samrýmst krónískri virkri sýkingu af völdum lifrarbólgu B. Kærandi telji ófullnægjandi að byggja niðurstöðu kærunefndar á einni heimsókn og einni blóðprufu þegar augljóst sé að svo unnt sé að meta skaðleika lifrarbólgu B með fullnægjandi hætti þurfi samanburð, enda geti vel verið að vandi kæranda vaxi milli læknisheimsókna. Auk þess sé ljóst af sjúkraskrám kæranda að hann glími við þvag- og hægðavandamál. Kærandi hafi verið greindur af sérfræðingi með lífshættulegan sjúkdóm, þ.e. viðvarandi lifrarbólgu B, en ljóst sé að niðurstaða hefur ekki fengist um allt sem sé að honum og valdi honum þjáningum. Þar sem til staðar sé réttmætur vafi um að kærandi glími ekki við lífshættulegan sjúkdóm verði að túlka þann vafa umsækjanda um alþjóðlega vernd í hag, líkt og stjórnvöldum beri að gera til samræmis við alþjóðaskuldbindingar ríkisins.
Auk framangreinds byggir kærandi á því að aðstæður í máli hans hafi breyst verulega m.t.t. framlagðra gagna, enda sé nú ljóst að alvarleiki heilsubresta hans, bæði andlegra og líkamlegra, sé mun alvarlegri en kærunefnd hafi lagt til grundvallar í úrskurði sínum. Þá vísar kærandi til þess að í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi verið talið rétt að gera minni sönnunarkröfu en ella og umsækjendur látnir njóta vafans ef frásögn þeirra virðist vera trúverðug að öðru leyti. Rík skylda hvíli á stjórnvöldum til að upplýsa um málsatvik og taka mið af þeim við mat sitt á beitingu þeirra laga sem gilda um viðkomandi málefnasvið. Í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 196. gr. handbókarinnar um réttarstöðu flóttamanna frá 1979, beri yfirvöld skyldu í sameiningu við umsækjendur til að komast að raun um staðreyndir málsins og meta þær.
Kærandi telur nægjanlega í ljós leitt að ástæða sé til að draga í efa þá mynd sem kærunefnd útlendingamála hafi dregið af persónulegum ástæðum hans og því séu aðstæður verulega breyttar í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga. Líf kæranda geti verið í raunverulegri hættu og raunhæf ástæða sé til að ætla að bágt heilsufar hans ágerist. Ekki sé hægt að leggja til grundvallar að kærandi sé heilbrigður þar sem hann glími augljóslega við óútskýrðan heilsufarsvanda sem valdi honum þjáningum.
Í ljósi alls framangreinds, séu skýr og haldgóð rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli kæranda þar sem hagsmunir hans séu í húfi. Framlögð gögn feli í sér ný atriði sem hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin á fyrri stigum. Kærunefnd útlendingamála beri að endurupptaka málið og kanna til hlítar framlögð gögn og hvaða áhrif þau kunna að hafa á niðurstöðu þess.
Hinn 3. ágúst 2022 barst kærunefnd viðbótargreinargerð kæranda þar sem kærandi fjallar um 1. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) en þar sé mælt fyrir um tiltekna fresti er varðar flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd milli aðildarríkja. Frestur til að flytja kæranda samkvæmt greininni hafi runnið út 3. ágúst 2022 og því sé farið fram á endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland Dyflinnarreglugerðina, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.
Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Hinn 8. september 2021 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Austurríki, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá austurrískum yfirvöldum, dags. 22. september 2021, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.
Við rekstur máls sem fer samkvæmt fyrirkomulagi Dyflinnarreglugerðarinnar þurfa stjórnvöld að gæta að tilteknum tímafrestum, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um fyrirkomulag og fresti. Í því ákvæði felst m.a. að flutningur á umsækjanda skal fara fram innan sex mánaða frá því að lokaákvörðun var tekin um kæru eða endurskoðun. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að framlengja frest til flutnings í að hámarki 18 mánuði ef hlutaðeigandi einstaklingur hleypst á brott (e. abscond). Ef umræddir frestir líða leiðir það til þess að ábyrgð á viðkomandi umsókn um alþjóðlega vernd færist sjálfkrafa yfir til þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli Shiri, C-201/16, frá 25. október 2017 (26.-34. mgr. dómsins). Ef frestir samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar líða er íslenskum stjórnvöldum því ekki lengur heimilt að krefja viðkomandi ríki um viðtöku einstaklings í skilningi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU19040090 frá 9. maí 2019 ákvað kærunefnd að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað yrði upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar. Eins og að framan greinir samþykktu austurrísk stjórnvöld endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda 22. september 2021. Þá var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi birt fyrir kæranda 8. febrúar 2022. Rann því upphaflegur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda úr landi út 8. ágúst 2022.
Hinn 5. og 8. ágúst 2022 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um flutning kæranda til viðtökuríkis, s.s. hvort frestur til flutnings hafi verið framlengdur úr sex mánuðum í 18 mánuði, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá bárust andmæli kæranda við svari stoðdeildar 9. ágúst 2022. Svar Útlendingastofnunar við fyrirspurn kærunefndar barst 8. ágúst 2022 en þar kemur fram að frestur til flutnings hafi ekki verið framlengdur.
Samkvæmt framangreindu er frestur til að flytja kæranda til viðtökuríkis liðinn samkvæmt 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Af því leiðir að ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd fluttist yfir á íslensk stjórnvöld þegar umræddur frestur leið og því er ekki lengur hægt að krefja viðtökuríkið um að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar sem íslensk stjórnvöld bera nú ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd fellst kærunefnd á með kæranda að atvik í máli hans hafi breyst verulega frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp og því sé rétt að mál kæranda verði endurupptekið, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar frá 24. nóvember 2021 felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.
Úrskurðarorð:
Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar. .
The appellant’s request to re-examine the case is granted.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Gunnar Páll Baldvinsson