Hoppa yfir valmynd
5. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Bjartari tímar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar: 

Á miðnætti þann 4. maí mildaðist samkomubann þegar nýjar reglur um takmarkanir á samkomum tóku gildi. 50 manns mega nú koma saman í stað 20 áður, takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum hafa verið felldar niður og sömuleiðis takmarkanir vegna íþróttaiðkunar og æskulýðsstarfs barna á leik- og grunnskólaaldri. Framhalds- og háskólar hafa verið opnaðir á ný og ýmsir þjónustuveitendur opnuðu í morgun dyr sínar fyrir viðskiptavinum. Nú er mögulegt að fara í klippingu, í sjúkraþjálfun, til tannlæknis o.s.frv. og okkar daglega líf færist einu skrefi nær því sem við vorum vön áður en veiran barst til landsins. Áfram gildir reglan um tveggja metra nálægðartakmörk hjá fullorðnum og gæta þarf að hreinlæti og sóttvörnum líkt og áður.

Þessi áfangi er stór og merkilegur því hann þýðir að við höfum lokið fyrsta hlutanum í þessu verkefni. Fyrsta smitið greindist hérlendis 28. febrúar síðastliðinn og faraldurinn náði hámarki í byrjun apríl. Okkur tókst að bæla faraldurinn niður með markvissum aðgerðum; víðtækum sýnatökum, sóttkví, einangrun og þátttöku almennings í sóttvarnaraðgerðum þannig að nú greinast aðeins örfá eða engin smit á hverjum degi. Við getum öll verið ánægð með þann árangur sem aðgerðirnar hafa borið hingað til en við megum ekki gleyma því að fara varlega áfram, því veiran getur enn tekið sig upp aftur og dreifst innanlands. Því er gott að hafa í huga að tilgangurinn með þeim sóttvarnaraðgerðum sem enn eru í gildi er einmitt sá að hamla því að veiran dreifi sér á milli manna og að hún nái sér á strik í samfélaginu aftur. 

Heilbrigðisstarfsfólk um land allt, landlæknir, allt starfsfólk embættis landlæknis, sóttvarnarlæknir, almannavarnir og öll þau sem hafa komið að viðbrögðum okkar hafa staðið sig með eindæmum vel í faraldrinum. Það hefur verið frábært að fylgjast með samtakamættinum og ég er stolt að sjá hvers viðbragðsaðilarnir og heilbrigðiskerfið okkar er megnugt. 

Það er mikilvægt að við höldum áfram vöku okkar, stöndum saman og fylgjum gildandi reglum. Það hefur reynst okkur vel hingað til og er ein meginástæða þess að hér á landi hefur tekist eins vel og raun ber vitni að hafa stjórn á útbreiðslu veirunnar, verja heilbrigðiskerfið og síðast en ekki síst að vernda þau sem eru viðkvæmust fyrir veikindum. 

Verkefninu er langt í frá lokið, og við verðum að vanda okkur fyrir samfélagið allt, fyrir okkur öll. Af því að markmiðið er að við gerum þetta saman og skiljum engan eftir þegar samfélagið opnast aftur. 

Gangi okkur sem best áfram. Nú er sumarið á næsta leiti og það eru bjartari tímar framundan.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 5. maí 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta