Drög að breytingu á reglugerð um skoðun ökutækja til umsagnar
Til umsagnar eru nú drög að breytingu á reglugerð um skoðun ökutækja. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 13. desember næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].
Meðal breytinga á reglugerðinni er að heimilt er að veita undanþágu til skoðunar á ökutækjum í Flatey á Breiðafirði, Grímsey og Hrísey enda séu þau ekki notuð annars staðar. Þá er tíðni skoðana aukin hjá ökutækjum sem notuð eru í ákveðnum verkefnum, þ.e. að þau skuli færð til skoðunar árlega frá og með næsta ári eftir skráningu. Þetta á við um vörubifreiðar, hópbifreiðar, leigubifreiðar, ökutæki sem ætluð eru til neyðaraksturs, kennslu og í bílaleigur, skólabíla og ökutæki með ferðaþjónustuleyfi svo nokkur ökutæki séu nefnd.
Breytt er einnig skoðunartíma á fornbifreiðum, húsbifreiðum, bifhjólum, fellihýsum, tjaldvögnum og hjólhýsum og skal eftirleiðis færa slík tæki til skoðunar 1. júní á skoðunarári en ekki 1. ágúst eins og verið hefur. Einnig er breytt nokkrum ákvæðum reglugerðarinnar er varða skoðunarstöðvar og búnað þeirra.