Bein útsending: Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks
Hringferð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, lýkur í dag, 29. ágúst, með rafrænum fundi í beinni útsendingu og hefst hann kl. 17:00. Á opnum samráðsfundum sem haldnir hafa verið vítt og breitt um landið hafa málefni fatlaðs fólks verið til umfjöllunar.
Fundinum verður streymt hér á vef Stjórnarráðsins en einnig á Facebook-síðu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Sjá Facebook-viðburð vegna fundarins.
Smellið hér til að horfa á fundinn með íslenskri rauntímatextun.
Málefni fatlaðs fólks koma okkur öllum við og hér gefst einstakt tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun stefnu um þjónustu við fatlað fólk á Íslandi.
Vilt þú koma ábendingum á framfæri eða beina spurningu til ráðherra?
Sendu endilega póst á [email protected] fyrir fundinn eða meðan á honum stendur ef þú ert með spurningu eða vilt koma á framfæri ábendingum. Þú getur líka verið í sambandi í gegnum Facebook. Við viljum heyra í þér!
Auk ráðherra og Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur, formanns verkefnastjórnar, verða á fundinum Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar. Fulltrúar beggja samtaka hafa tekið þátt í samráðsfundunum sem haldnir hafa verið hringinn í kringum landið.
Landsáætlun um innleiðingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Fundaröðinni er ætlað að tryggja milliliðalaust samtal um það sem fólki er efst í huga þegar málefni fatlaðs fólks ber á góma. Þátttaka hefur verið góð og afar góðar umræður skapast. Umræðurnar og ábendingarnar sem fram hafa komið eru mikilvægt innlegg inn í gerð landsáætlunar sem nú stendur yfir.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli lögfestur á kjörtímabilinu. Undir lok árs í fyrra var hleypt af stokkunum umfangsmikilli vinnu við gerð áðurnefndrar landsáætlunar til að tryggja farsæla innleiðingu samningsins.
Grundvallarhugmyndin er sú að fatlað fólk, hagsmunasamtök þess, ríki, sveitarfélög og almenningur vinni saman sem jafningjar að því að móta tillögur að verkefnum sem bæta stöðu fatlaðs fólks og tengjast samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Málin krufin til mergjar á Selfossi
Frá fundinum sem fram fór á Akureyri
Spurningar og svör á Sauðárkróki
Málin rædd í Reykjavík
Landsáætlun og lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks rædd á Höfn