Hoppa yfir valmynd
7. mars 2016 Forsætisráðuneytið

611/2016. Úrskurður frá 7. mars 2016

 

Úrskurður

Hinn 7. mars 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 611/2016 í máli ÚNU 14050001.

Kæra og málsatvik

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst með tölvupósti þann 2. desember 2014 kæra A á afgreiðslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni hans dags. 11 nóvember 2014 um aðgang að:

  • Afriti af beiðni bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) dagsettri 12. júní 2013, sem gefin var út í samræmi við samning Evrópuráðsins um netglæpi og fól í sér beiðni til íslenskra yfirvalda um að safna gögnum um „Silk Road“ netþjóninn sem hýstur var hér á landi. Vísað er til skjalsins í minnisblaði dags. 5. september 2013 gefnu út af saksóknara í Suður New York.

  • Afriti af upplýsingum um netþjóninn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lét FBI í té.

  • Afriti af lagalegum álitsgerðum, úrskurðum eða öðrum lagalegum heimildum fyrir leit á netþjóninum.

  • Afriti af öllum samskiptum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og FBI varðandi tímasetningu leitarinnar.

  • Öllum samskiptum við FBI þann 29. júlí 2013.

  • Öllum öðrum gögnum er varða „Silk Road“ rannsóknina.

Kærandi óskaði aðgangs að umbeðnum gögnum með tölvupósti til ríkislögreglustjóra 7. nóvember 2014. Hann sendi sömu beiðni til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 11. nóvember 2014. Hann ítrekaði beiðnina 12. og 13. nóvember. Kærandi sendi svo annað bréf þann 14. nóvember þar sem hann kvartaði yfir því að hafa ekki fengið svör og óskaði staðfestingar á að erindi sitt væri til meðferðar. Þann 19. nóvember barst kæranda svar við erindi sínu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem tekið var fram að það hafi verið tekið til meðferðar en ekki væri að vænta svars innan viku. Þann 1. desember ritaði kærandi tölvupóst þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um stöðu málsins en fékk engin svör.

Kærandi byggir kæru sína á því að dráttur á meðferð erindis hans feli í raun sér synjun á beiðninni.

Málsmeðferð

 

Með bréfi dags. 12. desember 2014 sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæruna til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og veitti embættinu frest til 5. janúar til að koma að athugasemdum eða afgreiða beiðnina. Auk þess var óskað eftir því að nefndinni yrðu látin afrit umbeðinna gagna í té til skoðunar.

Þann 5. janúar 2015 barst svar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem tekið var fram að um rannsókn sakamáls væri að ræða sem ekki væri lokið og því ómögulegt að verða við beiðninni. Kæranda var tilkynnt um þetta með bréfi dags 8. janúar 2015. Svar hans barst 9. febrúar sama ár. Þar véfengir kærandi að rannsókn sé enn í gangi og vísar til fyrri yfirlýsinga lögreglu í þeim efnum.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum er tekið fram að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Þá er tekið fram í 2. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 að meðferð erinda frá erlendum dómstólum og yfirvöldum um aðgerðir hér á landi í tengslum við sakamál sæti meðferð samkvæmt sakamálalögum.  

Eins og að framan er rakið óskaði úrskurðarnefndin eftir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu léti henni í té afrit þeirra gagna sem kærandi óskar aðgangs að, eins og stjórnvaldi sem fær slíka beiðni í hendur frá úrskurðarnefndinni er skylt, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, telji nefndin nauðsynlegt að hafa viðkomandi gögn undir höndum við afgreiðslu máls. Í kæru þessa máls eru þau gögn sem kærandi óskar aðgangs að skilmerkilega tilgreind og bera það með sér að vera rannsóknargögn í sakamáli eins og lögreglan heldur fram að þau séu. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til þess að draga þá fullyrðingu í efa. Af þessum sökum telur nefndin ekki ástæðu til að halda því til streitu að fá gögnin í hendur þótt hún eigi lögbundinn rétt til þess og telur óhætt í þessu tilviki að afgreiða málið án þess að skoða gögnin sérstaklega.  

Með vísan til þess sem að framan segir er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál  að réttur til aðgangs að þeim gögnum er kærandi hefur krafist aðgangs að verði ekki byggður á upplýsingalögum nr. 140/2012. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kæru A dags. 2. desember 2014 er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta