Hoppa yfir valmynd
7. mars 2016 Forsætisráðuneytið

612/2016. Úrskurður frá 7. mars 2016

Úrskurður

Hinn 7. mars 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 612/2016 í máli ÚNU 14120010.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 28. desember 2014 kærði A þá ákvörðun innanríkisráðuneytisins að birta ekki opinberlega úrskurði í kærumálum í umgengnismálum.

Þann 5. september 2014 sendi kærandi erindi til innanríkisráðuneytisins þar sem hann óskaði eftir leiðbeiningum um hvar hann gæti nálgast úrskurði ráðuneytisins í umgengnismálum. Fyrirspurnin var ítrekuð með erindum dags. 1. október 2014 og 13. október 2014. Svar ráðuneytisins við fyrirspurninni barst þann 14. október 2014 en þar kom fram að úrskurðir ráðuneytisins í sifjamálum væru ekki birtir þar sem í þeim væru iðulega viðkvæmar persónuupplýsingar sem ekki ættu erindi við almenning.

Í kæru er þess óskað að innanríkisráðuneytinu verði gert að birta alla úrskurði í umgengnismálum sem gerðir hafi verið á grundvelli laga nr. 76/2003 með síðari breytingum. Þessu til viðbótar er óskað eftir því að innanríkisráðuneytið „birti alla úrskurði um umgengni sem eru enn í gildi.“

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 29. desember 2014 var kæran kynnt innanríkisráðuneytinu og því veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Umsögn ráðuneytisins, dags. 16. janúar 2015, barst nefndinni þann 19. janúar s.á. Þar kemur m.a. fram að ráðuneytið telji það ekki á valdsviði úrskurðarnefndar um upplýsingamál að mæla fyrir um opinbera birtingu niðurstaðna í kærumálum sem til meðferðar hafi verið. Synjun stjórnvalds á beiðni um að birta opinberlega úrskurði sína í kærumálum geti ekki talist jafngilda synjun á aðgangi að gögnum í skilningi upplýsingalaga. Þá telji ráðuneytið að kærandi í málinu hafi ekki óskað eftir aðgangi að gögnunum í skilningi upplýsingalaga og því hafi ráðuneytið ekki tekið afstöðu til þess hvernig slík beiðni yrði afgreidd.

Með bréfi dags. 21. janúar 2015 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um umsögn ráðuneytisins. Það gerði hann með bréfi, dags. 26. janúar 2015. Þar fór kærandi fram á að ráðuneytinu verði annað hvort gert að birta úrskurði í umgengnismálum eða afhenda sér þá þannig að hann gæti kynnt sér efni þeirra og úrskurðarframkvæmd í málaflokknum.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum sem óskað er eftir á grundvelli upplýsingalaga undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að synjun innanríkisráðuneytis um að birta opinberlega úrskurði í tilteknum málaflokki verður ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Líkt og fram kemur í umsögn innanríkisráðuneytisins, dags. 16. janúar 2015, hefur ráðuneytið ekki tekið afstöðu til þess hvernig beiðni um aðgang að úrskurðunum á grundvelli upplýsingalaga yrði afgreidd heldur aðeins til þess hvort birta skuli úrskurðina á netinu. Liggur því ekki fyrir synjun stjórnvalds að aðgangi að gögnum í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur tilefni til þess að vekja athygli kæranda á því að honum er frjálst að leita til ráðuneytisins með beiðni um afrit af úrskurðum í umgengnismálum á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Synjun á slíkri beiðni yrði svo eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A vegna synjunar innanríkisráðuneytisins á beiðni um opinbera birtingu úrskurða í umgengnismálum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður


Sigurveig Jónsdóttir                                                                                      Friðgeir Björnsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta