Hoppa yfir valmynd
17. maí 2016 Forsætisráðuneytið

617/2016. Úrskurður frá 4. maí 2016

Úrskurður

Hinn 4. maí 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 617/2016 í máli ÚNU 15050002.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 12. maí 2015 kærði A ákvörðun embættis Tollstjóra um synjun beiðni um upplýsingar um tollflokksnúmer tiltekinna bifreiða sem aðrir aðilar höfðu flutt til landsins. Kærandi óskaði eftir því með tölvupósti þann 16. apríl 2015 að embættið staðfesti að tilteknar bifreiðar hefðu verið tollflokkaðar í tollflokk 8704. Þann 28. apríl tilkynnti embætti Tollstjóra kæranda um að það teldi sér óheimilt að veita aðgang að umbeðnum upplýsingum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Jafnframt var bent á þagnarskyldu samkvæmt 188. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi í huga innflutning bifreiða og telji sér rétt og skylt að afla sér allra upplýsinga sem þurfa þykir vegna þess. Kærandi hafi óskað eftir því í nóvember 2014 við starfsmann Tollstjóra að fá staðfestingu á tollflokksnúmeri tiltekinnar bifreiðar þar sem til stæði að flytja aðra af sömu gerð til landsins. Svar hafi borist þar sem tollflokksnúmerið var tilgreint. Eftir að ágreiningur hafi komið upp um tollflokkun annarrar bifreiðar hafi kærandi óskað eftir því að embætti Tollstjóra upplýsti um flokkun annarra sambærilegra bifreiða samkvæmt fastanúmeri þeirra, en beiðninni hafi verið hafnað. Kærandi segir að ágreiningi um tollflokkun umræddrar bifreiðar hafi verið vísað til yfirskattanefndar, en það mál tengist ekki almennri upplýsingaskyldu embættis Tollstjóra.  

Kærandi hafnar því að 9. gr. upplýsingalaga eigi við þar sem eingöngu hafi verið óskað eftir staðfestingu á almennu tollflokksnúmeri á vöru sem þegar hefði verið flutt til landsins. Starfsmaður tollstjóra hafi tjáð kæranda símleiðis að hann ætti ekki rétt á aðgangi að upplýsingunum þar sem hann væri ekki eigandi viðkomandi bifreiða. Hugsanlegt væri að eigendur bifreiðanna gætu fengið aðgang að upplýsingunum. Kærandi segir embættið ekki hafa brugðist við beiðnum fjögurra eigenda sambærilegra bifreiða sem fram komu í kjölfar símtalsins.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 16. maí 2015 var kæran kynnt embætti Tollstjóra og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrði afhent afrit umbeðinna gagna í trúnaði.

Í umsögn Tollstjóra, dags. 12. júní 2015, er tekið fram að kærandi sé ekki skráður innflytjandi þeirra bifreiða sem hann óskaði upplýsinga um. Tollstjóri telji upplýsingarnar varða einkahagsmuni innflytjenda bifreiðanna og falla þar af leiðandi undir 9. gr. upplýsingalaga. Tollflokkun varnings sé á ábyrgð innflytjanda eða tollmiðlara eftir atvikum, sbr. 32. og 33. gr. tollalaga. Eitt af hlutverkum Tollstjóra sé álagning og innheimta tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu vöru. Nauðsynlegt sé að vara sé tollflokkuð með réttum hætti svo á hana séu lögð rétt gjöld. Telji kærandi að bifreiðar hafi verið ranglega tollafgreiddar er hann hvattur til að koma slíkum ábendingum á framfæri við embættið. Embættinu beri eins og öðrum stjórnvöldum að hafa jafnræðissjónarmið í huga og gæta þess að greidd séu sömu gjöld af sams konar vöru.

Tollstjóri vísar einnig til ákvæðis 188. gr. tollalaga, sem taki til lögmætra einkahagsmuna og upplýsinga sem eðlilegt sé að leynt skuli fara, svo sem upplýsingar um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja. Með vísan til þessa skýra þagnarskylduákvæðis telur Tollstjóri sér skylt að hafna beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum.

Embætti Tollstjóra vekur athygli á því að kærandi getur óskað eftir bindandi áliti um tollflokkun vöru, sem afgreiðist innan 30 daga. Ákvörðun Tollstjóra um bindandi tollflokkun sé bindandi gagnvart fyrirspyrjanda og tollayfirvöldum í sex ár frá birtingardegi. Einnig geti Tollstjóri veitt almennar upplýsingar um rétta tollflokkun með tölvupósti.

Loks telur Tollstjóri fullyrðingar kæranda um að eigendur fjögurra bifreiða hafi óskað eftir staðfestingu á tollflokkun þeirra ekki tengjast þessu máli. Embættið tjái sig ekki um einstök mál annarra aðila.

Umsögn embættis Tollstjóra var kynnt kæranda með bréfi, dags. 16. júní 2015, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 25. júní. Þar segir að ekki sé um að ræða fjárhagslegar, persónulegar eða aðrar upplýsingar sem skaðað geti eigendur eða innflytjendur umræddra vara, heldur opinber gögn sem embætti Tollstjóra hafi áður sent frá sér. Í þessu samhengi vísar kærandi til framlagðra gagna um samskipti við starfsmann embættisins.

Kærandi segir eigendur allra bifreiðanna sem um ræðir jafnframt vilja afla sér umbeðinna upplýsinga til staðfestingar á tollflokkun sinna bifreiða. Því standist ekki sú fullyrðing Tollstjóra að málefni þeirra tengist ekki máli þessu. Kærandi telur það skjóta skökku við að embætti Tollstjóra bjóði upp á bindandi álit um tollflokkun, enda sé embættið orðið dómari í eigin sök þegar kemur að ákvörðun um ágreining um tollflokkun. Loks vísar kærandi til gilda embættis Tollstjóra, trausts, samvinnu og framsækni.

Með tölvupósti þann 18. nóvember 2015 sendi kærandi afrit af úrskurði yfirskattanefndar í máli gegn embætti Tollstjóra.

Niðurstaða

Mál þetta varðar gögn um tollflokkun fjögurra bifreiða í vörslum embættis Tollstjóra. Kærandi óskaði upphaflega eftir upplýsingum um hvernig þær hefðu verið tollflokkaðar, en Tollstjóri afmarkaði beiðnina við aðflutningsskýrslur úr tollakerfi embættisins. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér afrit skýrslnanna. Þar kemur meðal annars fram sendingarnúmer, tegund bifreiðar, nettóþyngd, upprunaland og tollskrárnúmer. Fastanúmer hverrar bifreiðar er ekki tilgreint á skýrslunni.

Í 188. gr. tollalaga nr. 88/2005 segir að starfsmenn tollstjóra beri þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verði kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skuli fara vegna lögmætra almanna- og einkahagsmuna. Ákvæðið er efnislega eins og 141. gr. fyrri tollalaga nr. 55/1987, sem samsvaraði 1. mgr. 121. gr. tollalaga nr. 120/1976 og áður 34. gr þeirra laga.

Í 2. málsl. ákvæðisins segir orðrétt:

„Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, þ.m.t. hvers konar vitneskja sem ráða má af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta beri á tilvitnað ákvæði sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að því er varði innflutningsskýrslur tiltekinna ökutækja sem embætti Tollstjóra hefur í vörslum sínum. Upplýsingar sem skýrslurnar hafa að geyma fjalla um viðskipti einstakra manna eða fyrirtækja, þ.e. innflutningsaðila bifreiðanna. Sérstök þagnarskylduákvæði í lögum ganga framar ákvæðum upplýsingalaga. Ákvæði 1. mgr. 188. gr. laga nr. 88/2005 kemur þar með í veg fyrir að almenningi verði veittur aðgangur að aðflutningsskýrslum nánar tilgreindra bifreiða á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál getur meint samþykki núverandi eigenda bifreiðanna engu breytt um þessa niðurstöðu og verður ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 12. maí 2015, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta