Hoppa yfir valmynd
15. júní 2016 Forsætisráðuneytið

622/2016. Úrskurður frá 7. júní 2016.

ÚRSKURÐUR

Hinn 7. júní 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 622/2016 í máli ÚNU 15060004.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 24. júní 2015 kærði A þá ákvörðun Endurmenntunar Háskóla Íslands að synja henni um aðgang að prófi í námskeiðinu Ferðaþjónusta, áhrif ferðamennsku og umhverfi sem lagt var fyrir 11. desember 2014.

Kærandi fór fram á aðgang að gögnunum með bréfi dags. 3. júní 2015. Endurmenntun Háskóla Íslands tók afstöðu til beiðninnar með bréfi dags. 22. sama mánaðar þar sem fram kom að prófið samanstæði af tveimur hlutum. Fyrri hluti prófsins (I. HLUTI) innihélt 30 jafngildar krossaspurningar, samtals 60% af lokaeinkunn. Síðari hluti (II. HLUTI) prófsins sem var 40% af lokaeinkunn innihélt ritgerðarspurningu þar sem gefnir voru tveir valkostir.

Kæranda var veittur aðgangur að síðari hluta prófsins en með vísan til 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 var kæranda synjað um aðgang að fyrri hluta prófsins, þar sem um væri að ræða krossaspurningar „sem eru hluti af gagnabanka í land- og ferðamálafræði og leiðsögunámi Endurmenntunar HÍ sem nýttur er með kerfisbundnum hætti frá ári til árs.“

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 29. júní 2015 var Endurmenntun Háskóla Íslands kynnt kæran og veittur frestur til 13. júlí til að koma að umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Vegna sumarleyfa var frestur framlengdur til 19. ágúst og barst umsögn Endurmenntunar Háskóla Íslands þann dag ásamt afritum af umbeðnum gögnum.

Í umsögn Endurmenntunar Háskóla Íslands kemur fram að sjónarmið að baki 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga eigi við um krossapróf úr gagnabönkum námskeiða og að afhending þeirra myndi koma niður á magni og gæðum námsmats í viðkomandi námskeiði. Fram kemur í umsögninni að próffræðileg rök liggi að baki því að takmarka aðgang að krossaspurningum í prófum sem þessum, enda þurfi að nota spurningar oftar en einu sinni svo unnt sé að átta sig á gæðum þeirra. Því séu flest krossapróf blanda af nýjum og gömlum spurningum. Þá kemur fram að með góðum krossaprófum sé auðveldara að uppfylla kröfur um sambærileg próf frá einu ári til annars eða frá lokaprófi að sjúkraprófi. Prófið innihaldi upplýsingar sem fram koma í námsefni viðkomandi námskeiðs og því ekki verið að leyna upplýsingum sem eiga erindi við almenning. Jafnframt segir að óskorðað aðgengi að spurningum myndi gera það ókleift fyrir kennara að þróa spurningar og móta og sú hætta sé fyrir hendi að nemendur þrói gagnabanka um viðkomandi námskeið þar sem prófspurningum yrði safnað kerfisbundið.

Umsögn Endurmennturnar Háskóla Íslands var kynnt kæranda og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust með bréfi dags. 27. ágúst 2015 og kemur þar m.a. fram að frá árinu 2010 hafi námsmat í því námskeiði sem um ræðir einkennst af tilraunastarfsemi og hafi námsmatið verið með ýmsum hætti. Því sé ekki rétt að gagnabanki sem nefndur er í umsögn Endurmenntunar Háskóla Íslands sé nýttur kerfisbundið frá ári til árs.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að prófi sem lagt var fyrir 11. desember 2014 í námskeiðnu Ferðaþjónusta, áhrif ferðamennsku og umhverfi á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands. Um er að ræða fyrri hluta prófsins (I. HLUTI) þar sem kæranda hefur verið afhentur síðari hluti prófsins (II. HLUTI).

2.

Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar hefur Endurmenntun Háskóla Íslands vísað til 5. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga til stuðnings niðurstöðu sinni um að synja kæranda um aðgang að fyrri hluta prófsins. Í ákvæðinu er fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um „fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði[.]“

Umrædd takmörkun er undantekning frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 5. gr. laganna um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra þröngt. Með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ er vísað til þess að beiðni um upplýsingar verður ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingunum myndi skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðunum. Þá skal á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga veita aðgang að þeim gögnum sem 5. tölul. 10. gr. tekur til jafnskjótt og ráðstöfunum eða prófum er að fullu lokið nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við.

3.

Þó að almannahagsmunir geti staðið til þess að stjórnvöld sem sinna kennslu hafi svigrúm til þess að þróa og móta kennslu og prófspurningar leiðir af áskilnaði 10. gr. upplýsingalaga að aðgangur að slíkum gögnum verður ekki takmarkaður nema efni þeirra sé þess eðlis að opinberun þeirra myndi raska almannahagsmunum eða önnur ákvæði upplýsingalaga eigi við.    

Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu Endurmenntunar Háskóla Íslands að það próf sem hér um ræðir sé eins frá ári til árs, heldur að afhending krossaspurninganna komi niður á gæðum námsmats viðkomandi námskeiðs, enda sé um að ræða spurningar úr gagnabanka sem nýttur sé kerfisbundið frá ári til árs. Ekki er unnt að fallast á að aðgangur að krossaspurningunum sé til þess fallinn að skerða gæði námsmats viðkomandi námskeiðs, eða að afhending spurninganna sé til þess fallin að skerða árangur af síðari próftöku með sama sniði í sama námskeiði. Í 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga er gert ráð fyrir því að próf sé fyrirhugað og ljóst er að ef upplýsingar um innihald fyrirhugaðs prófs væru opinberar gæti slíkt próf verið þýðingarlaust eða ekki skilað þeim árangri sem sóst væri eftir. Það próf sem hér um ræðir hefur verið lagt fyrir og því hefur ekki verið haldið fram að fyrirhugað sé að leggja það fyrir aftur, heldur einvörðungu að einhverjar krossapurningar verði notaðar aftur enda hluti af spurningum úr gagnabanka. Af framangreindu leiðir að umrætt próf er ekki fyrirhugað og því ber með vísan til meginreglu 5. gr. sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga að veita kæranda aðgang að prófinu.

Úrskurðarorð

Endurmenntun Háskóla Íslands ber að veita kæranda, A, aðgang að fyrri hluta (I. HLUTI) prófsins í námskeiðinu Ferðaþjónusta, áhrif ferðamennsku og umhverfi sem lagt var fyrir 11. desember 2014.

Þorgeir Ingi Njálsson

varaformaður

Friðgeir Björnsson                                                                                           Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta