Hoppa yfir valmynd
15. júní 2016 Forsætisráðuneytið

624/2016. Úrskurður frá 7. júní 2016

 ÚRSKURÐUR

Hinn 7. júní 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 624/2016 í máli nr. ÚNU 15070007.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 10. júlí 2015 kærði VER ehf. afgreiðslu Akraneskaupstaðar á beiðni fyrirtækisins um upplýsingar í tengslum við breytingar á deiliskipulagi hafnarsvæðis á Akranesi en Faxaflóahafnir höfðu samkvæmt upplýsingum frá Akraneskaupstað óskað eftir þeirri breytingu 24. október 2013.

Með tölvubréfi dags. 20. febrúar 2015 fór kærandi fram á aðgang að gögnum. Samkvæmt gögnum málsins voru nokkur samskipti milli kæranda og kærða fram til 13. apríl 2015 þar sem m.a. kemur fram að kærði telur sig hafa afhent kæranda öll gögn málsins en kærandi telur svo ekki hafa verið.    

Í kæru málsins kemur fram að ítrekað hafi verið óskað aðgangs að öllum gögnum. Fyrst hafi ekkert verið afhent en í kjölfar eftirreksturs hafi einhver gögn borist. Þó hafi vantað gögn frá forvinnslu málsins eða upplýsingar um þarfagreiningu vegna deiliskipulagsbreytingarinnar. Kærandi telur öll gögn málsins vera „allar fundargerðir og líka þau gögn sem (líklega) hafa verið lögð fram með fundarboðum (fundargögn), samskipt[i] við Faxaflóahafnir, arkitekta“ auk annarra gagna. Þá telur kærandi að væntanlega hafi einnig verið unnin einhver undirbúningsvinna eða greining áður en deiliskipulagstillagan var gerð í formi skýrslu eða samantektar.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 17. júlí 2015 var Akraneskaupstað kynnt kæran og veittur frestur til 31. sama mánaðar til að koma að umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Frestur var framlengdur til 14. ágúst 2015 og barst umsögn kærða þann dag.

Í umsögn Akraneskaupstaðar kemur fram að í málakerfi sveitarfélagsins sé haldið utan um málið er lýtur að breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðis á Akranesi undir málsnúmerinu 13010176. Kæranda hafi verið afhent öll gögn þess máls 24. apríl 2015 og tekið fram að deiliskipulagsferlinu hafi þó ekki verið lokið. Þá kemur fram að það mál sé ekki tengt öðru máli undir málsnúmerinu 1406089 í málakerfinu þrátt fyrir að málsmeðferð málanna beggja blandist að hluta til saman. Síðara málið lýtur að beiðni kæranda frá 11. júní 2014 um stækkun lóðar að Faxabraut 7. Vegna þessa kunni það að vera að í síðara málinu séu einhver gögn sem kærandi hafi ekki undir höndum og hafi því öll gögn þess máls verið afhent kæranda í kjölfar kærunnar. Jafnframt kemur fram að í hvorugu málanna séu gögn sem falli undir undanþágur samkvæmt upplýsingalögum og því hafi öll gögn verið afhent kæranda.

Umsögn Akraneskaupstaðar var kynnt kæranda og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust með bréfi dags. 21. ágúst 2015 þar sem fram kemur að kærandi ítreki beiðni sína um aðgang að öllum gögnum málsins. Þá kemur fram að það sé ótrúverðugt að Faxaflóahafnir hafi sent inn tillögu til Akraneskaupstaðar að breytingu á deiliskipulagi, án ástæðu og hún samþykkt án skoðunar, greiningar eða útskýringar fyrir nefndarfólk í fundarboðum. Ennfremur sé það einkennilegt að ekki hafi verið getið um það í lýsingu að verið væri að stækka byggingarreitinn fyrir hús sem þegar hafi verið byggt. Einnig segir að það sem fram komi í svari Akraneskaupstaðar um að inn í málsmeðferðina blandist umsókn um stækkun lóðarinnar að Faxabraut 7 sé sérstakt, þar sem kærandi hafi aldrei sótt um stækkun þeirrar lóðar eða annarrar á Akranesi eða óskað aðgangs að gögnum vegna stækkunar lóðar.   

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að gögnum í tengslum við breytingar á deiliskipulagi hafnarsvæðis á Akranesi. Kæran er dagsett 10. júlí 2015 en í gögnum málsins má sjá samskipti milli aðila vegna málsins frá 20. febrúar, þegar upplýsingabeiðni kæranda kom fram, og fram til 13. apríl 2015.  

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit af þeim gögnum er kærandi hefur fengið aðgang að. Af þeim verður ekki séð að forsendur standi til að rengja þá fullyrðingu Akraneskaupstaðar að kæranda hafi verið afhent öll gögn er lúta að breytingum á deiliskipulagi hafnarsvæðis á Akranesi. Af því leiðir ennfremur að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum að þessu leyti. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Að auki þykir rétt að taka fram að í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er svohljóðandi ákvæði: „Mál skv. 1. mgr. 20. gr. skal borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun.“ Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir: „Í 1. mgr. er tilskilið að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og jafnframt er ákveðinn 30 daga kærufrestur. Þessi frestur er mun styttri en sá þriggja mánaða frestur sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Þykir það sjálfsagt vegna þess að yfirleitt er það hagur þess sem upplýsinga óskar að fá eins skjóta úrlausn og kostur er.“ Í einhverjum tilvikum kann það að vera afsakanlegt að kæra komi fram að liðnum umræddum fresti en þar sem í þessu máli liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort vísa hefði átt kærunni frá á þessum grundvelli.

Úrskurðarorð

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru VER ehf. dags. 10. júlí 2015 á hendur Akraneskaupstað.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Friðgeir Björnsson                                                                                           Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta